22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (3779)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Flm. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Ef menn taka þetta mál í víðasta skilningi, má segja, að það fjalli um, hvort ríkið eigi að eiga jarðirnar yfirleitt eða ekki, og hv. þm. Borgf. virtist taka málið frá þeirri hlið, sem frv. þetta gefur þó í sjálfu sér ekki tilefni til. Ég hefði hinsvegar ekkert á móti því, að fram kæmi frv., sem lyti að því að gera allar jarðir að ríkiseign, en í þessu frv. er aðeins um það að ræða, hvort þær þjóð- og kirkjujarðir, sem enn eru í eign hins opinbera, skuli halda áfram að vera það eða seljast skv. heimild í l. frá 1905 og 1907. Það hefir varla nokkurntíma farið svo fram kirkju- eða þjóðjarðarsala, að þeir, sem fyrir henni stóðu, hafi ekki sætt miklum ávítum. Nú er ég á ólíkri skoðun í þessu máli og hv. þm. Borgf. Ég álít, að bændastéttinni sé sem heild heppilegra, að allar jarðeignir séu í höndum hins opinbera, og þá sérstaklega, að þær jarðir, sem nú þegar eru þess eign, haldi áfram að vera það, og að með því fyrirkomulagi sé hægt að búa betur að bændunum en með því fyrirkomulagi, að þeir þurfi að eignast jarðirnar, og láta mikinn hluta strits síns ganga til að borga jarðirnar, sem svo halda sínu fulla verði gagnvart þeim, sem næst tekur við.

Nú hefir Sjálfstfl. verið að taka upp miðaldaráð, óðalsréttinn, sem á engan hátt leysir þetta mál.

Ef mönnum þætti í einstökum tilfellum sérstaklega heppilegt, að jarðir kæmust í einkaeign, þá er auðvitað alltaf það ráð til að setja sérstök l. um það, og mundi það ganga mjög greiðlega, þótt svona væri í pottinn búið.