21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

137. mál, fjáraukalög 1933

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. fyrri þm. Skagf. (MG) virtist vera mjög kampakátur yfir því, að ríkisstj. neyddist nú til þess að endurreisa ríkislögregluna, sem hann hefði orðið að stofna á sínum tíma. Núna með morgunsárinu hefði ríkislögreglan verið endurreist. Ég get fullvissað hv. þm. og hv. alþingi um það, að þetta er alger uppspuni.

Nokkrum mönnum verður bætt við bæjarlögregluna, eins og gert hefir verið og gert var öll þau ár, sem ég var lögreglustjóri, hvort sem nokkur varalögregla var sitjandi eða ekki. Þetta er óumflýjanleg nauðsyn, þegar vaktir eru langar og sumir lögregluþjónarnir forfallaðir.

Þessi ráðstöfun á því ekkert skylt við það, að velja svo að segja af handahófi hundrað manna hóp, allmisjafnra manna — svo ekki sé meira sagt, og hafa þá á föstu mánaðarkaupi um langan tíma.

Ég var frá upphafi óánægður með varalögregluna, eins og henni var fyrir komið. Og ég hefi fært ýtarleg rök fyrir því í bréfum, er ég sem lögreglustjóri ritaði þáv. ríkisstj. Ekkert var því sjálfsagðara en það, að ég vildi losna við ríkislögregluna í þessu formi.

Hinsvegar lagði ég sem lögreglustjóri áherzlu á það, að lögreglan yrði aukin á annan hátt. Skyldi það vera aukning á hinni föstu bæjarlögreglu, og þá af völdum og vel æfðum mönnum. Auk þess áttu nokkrir menn að vera þessari lögreglu til aðstoðar, jafnframt því, sem þeir voru tiltækir fyrir ríkið og í þjónustu þess. Lög um þetta voru samþ. hér á Alþingi, og vann ég að undirbúningi þeirrar löggjafar. Alþingi gekk þó nokkru skemmra í þessari aukningu heldur en ég hafði lagt til. Og viti menn, þegar bæjarstj. Rvíkur átti að framkvæma þessa löggjöf, trássaðist bæjarstjórnarmeirihlutinn við, og hefir ekki enn þann dag í dag fullnægt ákvæðum laganna um aukningu bæjarlögreglunnar. Þannig hefir Sjálfstfl. staðið gegn hæfilegri lögregluaukningu hér í Rvík. Kemur það því í ljós, og reynslan hefir skorið úr því til fullnustu, að ágreiningurinn milli flokkanna er ekki um það, hvort lögreglan í þessu landi eigi að vera veik eða sterk. — Heldur er hann um það, hvernig eigi að beita þessu valdi.

Það kann að vísu að vera einhver ágreiningur um það, hvernig eigi að haga skipulagi lögreglumálanna og hverjir eigi að bera kostnaðinn. En takmarkalínan milli flokkanna í átökunum um þessi mál hefir verið og er sú, hvort heimilt skuli að beita lögreglunni í kaupdeilum.

Deila sú, sem nú er risin hér í bænum og dregin hefir verið inn í umr. hér á Alþingi, er ekki kaupdeila. Mikill hluti bifreiðastjóranna er á föstum launum hjá stóratvinnurekendum í bifreiðarekstri. Og ekkert liggur fyrir um það, að kaupkjörum þeirra eigi að breyta. Hver getur leyft sér að halda því fram að verkfall þessara manna sé kaupdeila. Vörubílastjórarnir, sem margir eiga bifreiðar sínar sjálfir, fá benzínskattinn, sem þeir koma til með að greiða, margfaldlega endurgreiddan, því allur benzínskatturinn, þar á meðal sá hluti hans, sem hinn mikli fjöldi fólksflutningsbifreiða greiðir, verður allur látinn ganga til vegavinnu, sem stóreykur atvinnu vörubifreiða. Má geta þess til, að með þessu eina móti geti vöruflutningsbifreiðar, eins og nú horfir, gert sér vonir um viðunandi atvinnu.

Við þetta bætist svo það, að þeim bifreiðastjórum og bifreiðaeigendum, sem kynnu að þurfa að breyta taxta sínum í sambandi við hækkun benzínskattsins, hefir verið boðið, af sterkum aðila, sem er þeim vinveittur, að veita þeim alla aðstoð sem þarf, til þess að fá ökutaxta sínum sanngjarnlega breytt. Svo fjarri fer því, hv. þm., að hér sé um kaupdeilu að ræða.

En þrátt fyrir allt þetta hafa bifreiðastjórarnir, eða nokkur hluti þeirra, kosið að rísa gegn þeim lögum, sem löglegur meiri hl. Alþ. hefir sett.

Er það vilji yðar, háttv. þingmenn, að þau lög, sem þér hafið sett og falið ríkisstj. að framkvæma. séu framkvæmd? Eða er það vilji yðar, að þessi lög séu fótumtroðin og virt að vettugi?

Því það, sem bifreiðastjórarnir eru að aðhafast, er ekki kaupdeila, ekki snefill af kaupdeilu, eins og ég hefi með rökum sýnt fram á. Heldur uppreisn gegn löggjafarvaldinu, uppreisn gegn Alþingi. Það er tilraun til þess að þvinga Alþingi til að hverfa frá að samþ. þau lög, sem meiri hl. þess er sannfærður um, að sé rétt að setja. Og það er tilraun til þess að þvinga ríkisstj. til þess að framkvæma ekki lögin, eftir að þau hafa verið sett.

Flest þau lög, sem alþingi setur, snerta á einhvern hátt hagsmuni smærri og stærri heilda í þjóðfélaginu, og í mörgum tilfellum eru þessar heildir miklu stærri heldur en sú, sem nú hefir lagt út í það, að gera uppreisn gegn löggjafarvaldinu.

Ef Alþingi beygir sig, ef ríkisstj. beygir sig fyrir slíku framferði, hvar lendir þá, háttv. alþingismenn !

Alþingi er þá raunverulega þurrkað út. Er það vilji yðar, háttvirtir alþingismenn?

Ég óska eftir að fá svar við því, hvort hér er nokkur sá alþm., sem ekki er á einu máli um það, að þegar svo er að staðið, sem hér er raun á, beri ríkisvaldinu með allri gætni en fullkominni festu að yfirvinna slíka ofbeldistilraun. Því þótt menn greini á um það hér á Alþingi, hver afskipti ríkisvaldið eigi að hafa af kaupdeilum, þá hefi ég aldrei heyrt hér neina rödd og býst ekki við, að hér sé nokkur sá alþm., sem ekki er eindregið þeirrar skoðunar, að ríkinu beri að nota vald sitt og styrkja það sem þörf krefur til þess að koma í veg fyrir, að þau lög, sem Alþingi hefir sett, séu að engu höfð.