15.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (3968)

79. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Emil Jónsson:

Ég er að mörgu leyti ánægður með þessar umr., því að þær hafa nú um síðir komizt að kjarna málsins, svo að nú er hægt að taka skýra afstöðu með eða móti, og ég vænti, að hv. þdm. verði ekki í vandræðum með það.

Deilan snýst aðallega um það, hvort á að láta fiskifræðinginn kenna stærðfræði og landbúnaðarkandidata eðlisfræði. Ég hika ekki við að láta það í ljós, að ég vil heldur enga stærðfræði heldur en að láta fiskifræðinginn kenna hana, og enga eðlisfræði heldur en að láta landbúnaðarkandídat kenna hana. En þetta er atriði, sem hver gerir upp við sjálfan sig, eftir því sem hann hefir þekkingu og vit til. Það hefir einu sinni komið fyrir, að grasafræðingur hefir kennt mér stærðfræði, og það er sú aumasta kennsla, sem ég hefi nokkurntíma fengið. Var þó maðurinn mjög vel fær á síns sviði, sem var raunar allt annað en stærðfræði.

Þá vildi hv. þm. Snæf. skopast að því, eða snúa út úr því, sem ég sagði um „populæra“ fyrirlestra, og vildi þýða það sem alþýðlega fyrirlestra. Ég veit, að þetta er sagt á móti betri vitund. Hann veit vel, hvað er meint með „populærum“ fyrirlestrum og háskólafyrirlestrum. Háskólamenntun byggist á strangvísindalegum grundvelli, þar sem teknir eru hinir færustu menn, sem völ er á, til þess að hægt sé að taka málin eins föstum tökum og eins vísindalega og unnt er. Aftur á móti miðar þetta fyrirlestrahald, sem ég nefndi „populæra“ fyrirlestra og ekki er rétt þýtt að kalla alþýðlega fyrirlestra - að því að segja mönnum frá ýmsum hlutum almennt, án þess að rekja rætur þeirra ofan í kjölinn. M. ö. o. að láta menn fá yfirborðsþekkingu án þess að rekja orsakir og afleiðingar eins langt og hægt er. Þetta er munurinn á þessu tvennu. Ég veit, að hv. þm. gerir sér það ljóst, þó að hann væri að reyna að snúa út úr fyrir mér. Ég vildi með þessu sýna fram á, að það er óheilbrigt, þegar háskólanámið er komið í það horf að vera yfirborðsfræðsla, því að það er í raun og veru rétta þýðingin á því orði, sem ég notaði, en ekki hitt, sem hv. þm. vildi kalla alþýðlega fræðslu.

Þá eru tvö atriði ennþá, sem ég vildi minnast á. Hv. þm. sagði, að háskólaráðið hefði ekki samþ. frv. eins og það lá fyrir. Ég kann þessu illa, því að ég veit ekki betur en formaður háskólaráðsins og rektor háskólans hefðu verið með okkur á fundi, þegar gengið var frá frv. Og ég man eftir, að ég spurði hann, hvort hann gæti fellt sig við frv. eins og það lá fyrir, og kvað hann já við því, og ætla ég, að hann beri ekki á móti því.

Þá minntist hv. síðasti ræðumaður á sjálfsforræði þessarar deildar. Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr frv. okkar síðari málsgr. 14. gr.:

„Kennarar rannsóknarstofnunarinnar mynda þá sérstaka kennsludeild í háskólanum, og lýtur hún sömu almennum fyrirmælum um skipulag sem aðrar kennsludeildir háskólans.“

Það er enginn munur á yfirstjórn þessarar deildar eftir að hún er komin í gang og hinna annara deilda háskólans. Þess vegna er það rangt, að yfirráð þessarar deildar séu hrifsuð undir aðra aðila heldur en aðrar deildir háskólans, sem fyrir eru. En hitt er annað mál, að með rannsóknarstofnuninni er því komið nokkuð öðruvísi fyrir, þar sem atvmrh. er ætlað að hafa yfirstjórn hennar að nokkru leyti, til þess að geta lagt fyrir hana nauðsynleg verkefni, sem hann telur mest aðkallandi.

Ég hefi tilhneigingu til, ef ég væri ekki búinn með minn ræðutíma, að fara nokkuð út í þær greinar frv. hv. þm., þar sem felld eru niður yfirráð atvinnuveganna með öllu móti yfir þessari rannsóknarstofnun, en ég get kannske síðar fengið tækifæri til þess.

Þá minntist hv. þm. á, að það kenndi nokkurs tvískinnungs hjá mér, þegar ég talaði um, að undirstaðan ætti að nemast hér heima, en „toppinn“ yrði að fá erlendis, og svo hinsvegar, að sumir menn gætu tekið að sér að kenna hann hér heima. Það má vera, að við fljótlega athugun virðist þetta vera einhver tvískinnungur, en svo er þó alls ekki. Mín meining er sú, að aðalstarf þessarar deildar eigi að vera undirbúningur, en í þeim einstöku fáu tilfellum, sem „toppinn“ er hægt að fá hér heima, þá getur verið, að mögulegt sé að fá specialista, tvo, þrjá eða fjóra, sem geta útskrifað kandídata. En það verður ekki aðalatriðið, heldur hitt, að undirbúa. Þess vegna hefir mér aldrei dottið í hug, að stöðvaður yrði straumurinn til útlanda, en ég álít mikið undir því komið að mega taka tvö til þrjú fyrstu árin hér heima. Ég vænti þess, að um það getum við orðið sammála.