26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (4009)

97. mál, opinber ákærandi

Flm. (Gunnar Thoroddsen) [óyfirl.]:

Þetta frv. um opinberan ákæranda lá fyrir síðasta þingi og fékk þá þá afgreiðslu, að því var vísað frá með rökst. dagskrá, er borin var fram af meiri hl. allshn. þessarar d. Efni frv. er í öllum aðalatriðum hið sama eins og í haust, og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða mjög um það nú, heldur vísa til framsöguræðunnar, er ég flutti þá, og grg., er fylgdi frv. Aðalefnið er, að ákæruvaldið, valdið til að fyrirskipa rannsókn og höfða opinber mál gegn einstaklingum, sé tekið úr höndum dómsmrh., sem hefir það nú, og fengið í hendur nýjum embættismanni, sem lagt er til, að nefndur verði opinber ákærandi. Það er ætlazt til, að þessi maður standi utan við stjórnmáladeilurnar og fáist ekki við önnur störf. Með þessu á að vera tryggt, að ákæruvaldið verði ekki misnotað, eins og því miður hefir komið fram á síðustu árum hvað eftir annað.

Þó málinu væri vísað frá með rökst. dagskrá á síðasta þingi, var það ekki vegna þess, að þingið væri andvígt málinu í sjálfu sér. Það virtist viðurkennt af mönnum úr öllum flokkum, að þetta mál væri gott og gagnlegt og nauðsynlegt að koma svona umbót í kring. Eina ástæðan gegn því var sú, að það stæði fyrir dyrum að skipa nefnd til þess að endurskoða réttarfarslöggjöfina í heild, og þangað til sú n. hefði lokið störfum væri ekki rétt að taka einstök atriði út úr og samþ. lög um þau. Meiri hl. d. féllst á þessa röksemdafærslu. En nú hafa tveir hv. þdm., sem sæti áttu í allshn. í fyrra og voru þar í meiri hl., sjálfir flutt frv. til l. um breyt. á hæstarétti og þar með sýnt, að rétt er að meta að engu þessa röksemdafærslu, er þeir báru fram í fyrra, að ekki mætti taka einstök atriði út úr réttarfarsmálunum fyrr en heildarlöggjöf kæmi um þau. Því er fyllsta ástæða til að afgr. nú það mál, sem hér liggur fyrir; það er engu síður aðkallandi heldur en breyt. á hæstarétti.

Ég skal taka það fram, að lagadeild háskólans hefir einróma samþ. þetta frv. Umsögn prófessoranna er á þá lund, að skipun opinbers ákæranda með því verksviði, sem hér er markað, geti vel fallið inn í gildandi réttarfarslöggjöf, og hún geti einnig haldizt með svipuðum hætti, þó róttækar breyt. væru gerðar á þessum málum. M. ö. o., að það væri ekki ástæða til að fresta þessu máli, þó lögfræðinganefndin sæti á rökstólum. Enda er vitanlegt, að ný réttarfarslöggjöf kemst ekki í kring fyrr en eftir langan tíma, ef hún á að vera úr garði gerð eins og þarf að vera.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar; ég vænti, að málinu verði vísað til hv. allshn. og að hún taki því betur heldur en síðast.