02.11.1935
Neðri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (4092)

113. mál, heimild til að kaupa Ás í Kelduneshreppi

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Frv. þessu var á fyrri hluta þessa þings vísað til landbn., sem hefir haft það til athugunar og orðið sammála um afgreiðslu þess.

Aðalefni frv. þessa er tekið fram í 1. gr. þess, þar sem gert er ráð fyrir að heimila ríkisstj. að kaupa jörðina Ás í Kelduneshreppi fyrir allt að 4000 kr. Rök þau, sem færð eru fyrir því, að æskilegt og hagkvæmt sé fyrir ríkið að eignast jörðina, eru þessi: Í fyrsta lagi, að þessi jörð sé sérstaklega vel fallin til þess að reka á henni samvinnubúskap. Um þetta er það að segja, að ríkið á mikið af jörðum og vantar ekki jarðir til slíkra nota. Sú löggjöf, sem sett hefir verið um það, er ekki komin til framkvæmda enn, og alveg er óvíst, hve miklu fé ríkið getur varið til stofnunar slíkra býla. - Önnur ástæðan er sú, að áfast við heimaland jarðarinnar Áss sé jörð, sem ríkissjóður á, Ásbyrgi, og þá jörð vanti tilfinnanlega beitiland. En það liggur ekkert fyrir frá ábúanda þessarar jarðar um það, að hann finni til slíkrar vöntunar; og þó að svo væri, að beitiland Ásbyrgis væri í minna lagi, þá væri það ekki næg ástæða til að bera það fram sem rök fyrir till. um kaup á jörðinni Ási allri, enda þótt ósk kæmi fram um viðbót við beitiland Ásbyrgis frá ábúanda. - Í þriðja lagi er það fært fram því til stuðnings, að ríkið kaupi Ás, að jörðinni fylgi vatnsréttindi í Jökulsá á Fjöllum og þar með 1/8 úr Dettifossi, að mér skilst. Það út af fyrir sig, að ríkið eignist Dettifoss, gæti verið æskilegt. En þó að ríkið ætti að eignast hann, þá væri samt engin lausn á því máli fengin, þó að ríkið aðeins eignaðist þann 1/8 hluta hans, sem þessari jörð tilheyrir. Auk þess er hér ekki um aðkallandi nauðsyn að ræða, þar sem segja má, að ekkert liggi fyrir um það, að þessi stóri foss verði virkjaður.

Enn er fært fram þessu máli til stuðnings, að í heimalandi jarðarinnar sé skóglendi, sem skilyrði hafi til þess að geta orðið mjög gott skóglendi. Það er mjög víða, sem finna má slík skilyrði, og þarna er um engan verulegan skóg að ræða, heldur aðeins kjarr. Og ef ríkið sæi sér fært að leggja fram fé til þess að friða þennan blett eða einhvern annan skógarblett, þá er ekki síður af ríkisins hálfu hægt að komast að samningum um það við eiganda þessarar jarðar, Kelduneshrepp, heldur en einstaklinga.

Loks er fimmta ástæðan, sem hér er tilfærð fyrir því, að ríkið eigi að kaupa Ás, sú, að í heimalandi jarðarinnar sé sérkennilegur staður. Hljóðaklettur. En þar sem jörðin er nú þegar í eign sveitarfélags og því engin ástæða til að ætla, að þessum sérkennilega stað verði misþyrmt, kletturinn sprengdur eða þess háttar, þá þykir n. ekki heldur ástæða til að kaupa jörðina aðeins vegna þess.

Landbn. hefir af greindum ástæðum orðið sammála um að leggja til, að málið verði afgr. með svo hljóðandi rökst. dagskrá, sem lesa má í nál. hennar á þskj. 443:

„Þar sem augljóst er, að jörðin Ás í Kelduneshreppi, sem er eign Kelduneshrepps, er jafnvel fallin og væntanlega jafnaðgengileg til skiptingar í nýbýli eða til samyrkjubúskapar, hvort sem hún er eign hreppsins áfram eða yrði eign ríkisins, og þar sem eigi þykir ástæða til að efast um, að umsjá og forræði nefndrar jarðar sé í hvívetna vel borgið í höndum núverandi eiganda, telur deildin eigi þörf aðgerða í þessu efni og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“