23.10.1935
Neðri deild: 55. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (4120)

132. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Flm. (Jónas Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að fylgja þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum, því að grg. sú, er fylgir frv., er bezta framsöguræðan fyrir því.

Þetta frv. er eitt af þremur frv., sem mþn. sú, sem ég gat um áðan, stendur að, þótt það sé samið af landlækni. Frv. sameinar í sér alla þá löggjöf, sem áður var fyrir hendi um ríkisframfærslu sjúkra manna - berklaveikra, holdsveikra og þeirra, sem haldnir eru af kynsjúkdómum og geðveiki. Auk þess hafa fávitar verið teknir upp í þessa löggjöf og aðrir, sem þjást af langvinnum og alvarlegum sjúkdómum. Ennfremur nær löggjöfin samkv. frv. til málhaltra barna og örkumla manna, sem þurfa gervilimi.

Það er auðsætt, að mikill vinningur er að því, að fá samræmda heildarlöggjöf um þetta efni. Hitt skal ég ekki segja um að sinni, hvort frv. gangi nægilega langt, en ég ætla, að þeir, sem þekkja landlækni, treysti honum til að hafa gengið vel og vandlega frá frv. að því leyti.

Hinsvegar er það ekki til fulls rannsakað enn, hverjar fjárhagslegar afleiðingar ákvæði frv., ef að lögum verður, kunna að hafa fyrir hin einstöku sveitarfélög. Samkv. frv. á ríkissjóður að greiða 4/5 framfærslukostnaðarins, en sveitarfélag 1/5. Hingað til hefir því hinsvegar verið svo háttað um berklavarnir - en framfærsla þeirra sjúklinga hefir kostað langsamlega mest fé -, að sýslusjóðir hafa greitt ákveðið gjald til þeirra móti framlagi ríkissjóðs. Í stað þess eiga nú sveitarfélögin að greiða 1/5 á móti ríkissjóði. Um það, hversu þetta komi niður á hreppsfélögunum, liggja engar skýrslur fyrir, enda yrði þessi framfærslukostnaður sjálfsagt harla misjafn í hinum ýmsu sveitarfélögum.

Annar ágalli á frv. er það, að frv. tekur nær eingöngu til sjúklinga í sjúkrahúsum. Þetta kemur mjög hart niður á sveitarfélögunum, þegar um er að ræða geðveika menn og fávita, sem ekki fæst hælisvist fyrir. Þau hreppsfélög, sem geta komið sjúklingum sínum í sjúkrahús, þurfa eigi að greiða nema 1/5 framfærslukostnaðar þeirra, en heimasjúklingana verða þau að kosta að öllu leyti. Auðvitað er gert ráð fyrir, að í framtíðinni verði hægt að veita öllum þeim sjúklingum, sem löggjöfin nær til, viðtöku í hælum, en eins og stendur er þó ekki því að heilsa.

Ég vildi aðeins benda á þessi tvö atriði, áður en málið fer til n. Að öðru leyti fer ég ekki út í efni frv., enda tel ég landlækni dómbærari um þessi mál en mig.