14.11.1935
Neðri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (4179)

161. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það eru nú komnar hér fram breyt. við kjötsölulögin, sem samþ. voru á þinginu 1934. Þessar breyt. eru vitanlega fram komnar af því, að það hefir verið allmikil óánægja út af þessum l., eða réttara sagt út af framkvæmd þeirra, enda er það svo með þessi l., að þau eru ekki annað en rammi, sem settur er utan um framkvæmd l., sem er mestur meginhluti þessarar löggjafar. Það var þess vegna séð fyrirfram, að ávinningur þessarar löggjafar mundi fara eftir því, hvernig tækist til um framkvæmd hennar. Og nú hefir, eins og ég hefi sagt, verið talsverð óánægja út af framkvæmd l., eins og þau bréf, sem birt eru í grg. frv., og þær raddir, sem um þetta hafa heyrzt að undanförnu víðsvegar að af landinu, bera með sér. En því er þannig varið með mig, að ég hefi ekki aðstöðu til þess að dæma um það, á hvað miklum rökum þessi óánægja er reist, nema á tiltölulega takmörkuðu svæði, og þá aðallega á verðlagssvæði Reykjavíkur, þar sem ég er kjötframleiðandi. Þar að auki hefi ég haft aðstöðu til þess að kynnast þessum málum, þar sem ég á sæti í stjórn Sláturfélags Suðurlands, sem fer með mjög mikinn hluta af því kjöti, sem framleitt er á verðlagssvæði Reykjavíkur. Það, sem ég því segi um þetta mál, er mest miðað við það og sagt út frá því, hvernig framkvæmd þessarar löggjafar hefir verkað gagnvart Sláturfélagi Suðurlands og þeim mönnum, sem fela því sölu á sinni kjötframleiðslu.

Ég sagði það í upphafi, að það hefðu komið fram breyt. við þessi l. Ég fyrir mitt leyti hefi ekki talið ástæðu út frá mínum kunnugleika á þessu máli að bera fram breyt. við þessa löggjöf í því formi, sem þær eru bornar fram hér. Eins og ég sagði áðan, þá veltur mest á um framkvæmd þessa máls. Ég hefði því, ef ég hefði komið fram með breyt. við þessa löggjöf, sem ég hefi mjög í hyggju í samráði við ýmsa menn, sem hér eiga hagsmuna að gæta, látið mér nægja að bera fram breyt. við stjórn kjötsölunefndarinnar. Á fyrri hluta þessa þings var líka gerð allveruleg breyt. um stjórn þessara mála, sem var í því fólgin, að láta framleiðendur eina borga allan þann kostnað, sem leiddi af starfi kjötverðlagsnefndar. Þangað til hafði þetta verið borgað í hlutfalli af ríkissjóði og af framleiðendum. Eðlileg afleiðing af því, að kostnaður n. var þannig færður yfir á framleiðendur að öllu leyti, hlaut að vera sú, að framleiðendur tækju í sínar hendur alla framkvæmd þessarar löggjafar, því það samrýmist tæplega við hagsmuni þeirra að greiða af sinni framleiðslu fyrir starf annara manna heldur en þeirra, sem þeir fela að fara með þessi mál fyrir sína hönd. Af þessari breyt., sem var gerð á öndverðu þessu þingi, og einnig af því, að ýmsir árekstrar í framkvæmd þessarar löggjafar hafa verið raktir til þess, að aðrir heldur en framleiðendur sjálfir hafa haft hér hönd í bagga, var það í fyllsta máta eðlilegt, að framleiðendur færu upp á sitt eindæmi með þessi mál. Sú breyt., sem ég því hefði viljað gera í þessu efni, var það, að fela framleiðendum alla framkvæmd þessarar löggjafar og að þeir skipuðu menn í kjötverðlagsnefnd. Ég hefi hugsað mér fyrirkomulag á þessu, sem mér virðist ætti að geta samrýmzt við það, að hér er um landslög að ræða, þ. e. a. s. lög, sem ekki taka til einstakra svæða á landinu, heldur landsins í heild. Ég hefi hugsað mér n. skipaða þannig, að 2 menn séu tilnefndir af S. Í. S., kaupfél. Borgfirðinga og Sláturfélag Suðurlands tilnefni sinn manninn hvort, en allsherjarfélagsskapur bænda, Búnaðarfélag Íslands, tilnefni formann n. Þessi skipun n. hygg ég, að geti fullkomlega samrýmzt við það, að hér er um löggjöf að ræða, sem tekur til landsins í heild, því það er vitað, að S. Í. S. hefir verzlað mikið með þessa vöru um land allt, og að Búnaðarfélagið er allsherjarfélagsskapur bænda og því sjálfkjörið til þess að skipa formann í slíka n., enda var það svo, þegar þessi löggjöf var samin, að n., sem til þess var skipuð, gerði till. um það, að Búnaðarfél. skipaði einn mann í þessa n., en því var svo breytt af ríkisstj. með samþykki meiri hl. þings. Það getur þess vegna vel komið til mála, að á síðara stigi þessa máls beri ég fram brtt. um skipun á stjórn kjötverðlagsnefndar, sem yrði í aðalatriðunum eins og ég hefi nú lýst.

Þá vildi ég víkja nokkuð að hv. 2. þm. N.-M. Sú skýrsla, sem hann gaf hér á dögunum um framkvæmd þessarar löggjafar á verðlagssvæði Reykjavíkur, gefur mér tilefni til þess að fara nokkuð inn á það atriði. Það, sem sér í lagi hefir verið fundið að framkvæmd kjötsölul. hér á þessu verðlagssvæði, er það, að framleiðendur hafa ekki talið sig njóta þess öryggis á markaðnum, sem ætlazt hefði verið til með l., og í öðru lagi það, að framkvæmd þessarar löggjafar hafi verið þannig, að verðið, sem sett var, hafi með ráðstöfunum n. verið dregið mjög niður frá því, sem verið hefði, ef öðruvísi hefði verið að þessu búið. Þar á ég við, að á síðasta hausti var þeim, sem frystu kjöt til sölu á Reykjavíkurmarkaðinn, ekki leyft að leggja á nema að nokkru leyti fyrir kostnaði, sem leiddi af frystingu og geymslu kjötsins. Af þeim ástæðum, að menn álitu, að lítið öryggi væri á markaðinum, var mönnum gert að skyldu að greiða verðjöfnunargjald, sem fyrst var ákveðið 6 aurar af kg., en síðan fært upp í 10 aura. Þar á móti áttu þeir að fá þá vernd, að ekki yrði flutt svo mikið kjöt inn af öðrum verðlagssvæðum á þetta markaðssvæði, að það yrði til að draga niður kjötverð bænda eða til þess, að söfnuðust upp birgðir, er orsakað gæti verðfall á markaðssvæðinu. Og til þess, að kjötverðlagsn. hefði vald á því, að menn fengju þetta öryggi fyrir verðjöfnunargjaldið, voru þau ákvæði sett í 10. gr. l., að n. geti bannað innflutning á kjöti af öðrum verðlagssvæðum, svo að markaðurinn eyðilegðist ekki og bændur fengju not fyrir alla framleiðslu sína.

Nú hefir verðjöfnunargjaldið, bæði í fyrra og eins í haust, verið innheimt eins og l. standa til, en n. hefir hinsvegar ekki gripið í taumana til að sporna á móti innflutningi af öðrum verðlagssvæðum á þetta markaðssvæði hér. Ég veit, að þetta er rétt, því að ég hefi það eftir fulltrúum úr n., þeim sem eru fyrir Sláturfélag Suðurlands og kaupfél. Borgfirðinga. En eins og ég kem betur að síðar, þá hefir þetta atriði - að hvorki haustið 1934 né heldur í haust hefir verið gripið í taumana í þessu efni - leitt af sér talsverðan ótta, sem kemur fram á tvennskonar hátt. Annarsvegar óttast menn það, að offylltur markaður verði til þess að skerða sumarmarkaðinn, sem er bezti markaður fyrir þá bændur, sem hafa ástæður til að geta notið hans. Og í öðru lagi, að safnist fyrir birgðir af kjöti, sem ekki er hægt að selja á því verði, sem ætlazt var til, eða samsvarar því verði, sem borgað er til bænda fyrir þetta kjöt. Þannig er um Sláturfélag Suðurlands, að þó að byrjað væri hálfum mánuði seinna að slátra í sumar en venja er til, þá var samt byrjað of snemma til þess að búið væri að selja dilkakjötið, sem fyrir var. Það endist fram í ágúst. Og þannig varð meginhluta ágústmánaðar að halda niðri slátruninni, af því að fyrir var dilkakjöt, sem varð að koma út fyrst. Auk þessa sat Sláturfélag Suðurlands uppi með óseldar 26 smálestir af sauðakjöti og kjöti af geldum ám, og verður nú að nota mikinn hluta af því til að vinna upp kjötið af rýrustu lömbum og gamalám, er borgað var út með 1 kr. kg., eða sama verði og bezta dilkakjöt, og búizt var við, að seldist góðu verði. Af þessum birgðum verður Sláturfélag Suðurlands fyrir allmiklum skaða.

Þetta hvorttveggja, minni sumarslátrun og meiri birgðir, er afleiðingin af því, að n. hefir ekki gætt þeirra fyrirmæla I. að flytja ekki af öðrum verðlagssvæðum inn á markaðinn meira en hann leyfði.

Hv. 2. þm. N.-M. gerði nokkra grein fyrir því, hvernig sumarslátruninni hefði verið háttað hér síðasta sumar og undanfarið, og henti gaman að því, að bændur kvarta yfir, að illa sé farið með þá með því að gera sumarslátrunina minni en áður. Hv. þm. kom með þær upplýsingar, að byrjað hafi verið að slátra 11. ág. Það er ekki rétt. Sláturfél. Suðurlands byrjaði ekki fyrr en 15. ágúst, en það skiptir ekki miklu máli. En þá röskun taldi hv. þm. smámuni, að 1934 byrjaði slátrunin 1. ág., 1933 15. júlí eða fyrr, en nú ekki fyrr en um miðjan ágúst, og hann gerðist meira að segja svo djarfur að henda gaman að umkvörtunum bænda í þessu máli. Hann sagði, að í ágústmánuði undanfarið hefði verið slátrað 2000-3000 fjár. Ég sé af ræðu, sem hann hefir birt í Tímanum, að hv. þm. hefir verið farinn að fá eftirþanka, því að þar færir hann töluna upp í 3000-4000. - Ég hefi aflað mér upplýsinga um slátrunina hjá Sláturfél. Suðurl. nú í sumar og eins sumarið 1934, og hjá fleiri aðilum, sem flutt hafa fé á sumarmarkaðinn í Reykjavík. Hjá Sláturfélagi Suðurlands var slátrað í ágúst 1934 3412 dilkum, m. ö. o. nokkru meira hjá þessu eina félagi en hv. 2. þm. N.-M. sagði, að öll slátrunin á Reykjavíkurmarkaðinn hefði verið þetta ár. Hjá kaupfél. Borgfirðinga fór slátrunin niður um hér um bil helming, og víðar hefir hún fallið nokkuð niður frá því í fyrra. Þetta sannar, að hv. 2. þm. N.-M. fer á hundavaði með þær upplýsingar, sem hann hefir gefið hér í deildinni um sumarslátrunina í Reykjavík. En til frekari skýringar á því, hvernig Sláturfélag Suðurlands varð fyrir barðinu á offylltum markaði með sumarslátrunina, vil ég benda á það, að sumarslátrunin 1934 var 6000 fjár, en 1935 2495, og hefir því minnkað um meira en helming. Hjá kaupfélagi Borgfirðinga hefir sumarslátrunin minnkað í svipuðu hlutfalli, og eins annarsstaðar.

Þessi rýrnun á sumarslátruninni er komin fram sem afleiðing af því, að kjötverðlagsn. gerði ekki skyldu sína, samkv. 10. gr. l., að fyrirbyggja það, að kjötmarkaðurinn offylltist, og tryggði því ekki það öryggi, sem bændur borguðu fyrir með verðjöfnunargjaldinu. Þessar tölur, sem ég hefi nefnt, eru teknar úr bók Sláturfél. Suðurlands, og þær sýna, að umkvartanir bænda eru fullkomlega á rökum reistar. Og það er síður en svo ástæða til fyrir mann, sem á að gæta réttar bænda og er starfsmaður í Búnaðarfél. Íslands, að vera að hafa í flimtingum umkvartanir bænda og draga dár að þeim á sjálfu Alþingi, eins og hann gerði hér í skýrslu sinni fyrir þremur dögum.

Þá gaf hv. 2. þm. N.-M. skýrslu um, hvernig háttað væri kjötbirgðum Reykjavíkur nú, og gerði samanburð við haustið 1934. Hvortveggja þessi samanburður er miðaður við kjötbirgðirnar fyrst í nóvember. Það, sem tekið er til samanburðar hér, er frosið dilkakjöt, sem hefir verið á markaðinum undanfarin haust. Þm. sagði, að þessar kjötbirgðir hefðu verið haustið 1934 254 smálestir. Þetta er alrangt. Þessar birgðir voru þá 180 smálestir, eða 74 smálestum minni en hv. 2. þm. N.-M. sagði í skýrslu sinni fyrir þrem dögum. Hann sagði, að birgðirnar núna væru 260 smálestir, en ég vil benda á, og það skiptir nokkru máli um kjötbirgðir Sláturfélags Suðurlands, að það hefir útibú á Akranesi og lætur slátra þar allmiklu fé, en þó nokkuð mismunandi, eftir því hvort bændum hentar betur að flytja kjötið á Akranes eða til Reykjavíkur. Ef ekki er hægt að selja kjötið á haustin; er það fryst á Akranesi. Á síðasta ári voru af kjöti á Akranesi fluttar 8 smálestir til Reykjavíkur, og ætti að réttu lagi að bæta þeim við þær 180 smálestir, sem voru kjötbirgðirnar í Reykjavík haustið 1934, og þá gerðu þær 188 smálestir. Nú er það svo, að haustslátrunin á Akranesi hefir verið meiri í ár en 1934, en þó ekki meiri en stundum hefir verið slátrað þar. Forstjóri Sláturfélagsins hefir gefið mér upp, að með hliðsjón af kjötsölunni á Akranesi undanfarið og þó tekið sé tillit til nokkurrar aukningar, þá verði fluttar til Reykjavíkur um 30 smálestir, og má þá bæta þeim við kjötbirgðirnar hér nú, sem eru 260 smálestir. Niðurstaðan verður þá sú, að kjötbirgðir Sláturfél. Suðurlands haustið 1934 voru 188 smálestir, en eru nú 290. Mismunurinn er því 102 smálestir. Birgðirnar eru nú 102 smálestum meiri en haustið 1934. Þetta eru því alveg öfug hlutföll við þær tölur, sem hv. 2. þm. N.-M. gaf upp um kjötbirgðir Reykjavíkur. Hann sagði, að þær væru nú nálega 50 smálestum minni en þá var, en í stað þess eru þær 102 smálestum meiri. Þetta er þó miðað við það, að aðrar skýrslur hans séu réttar, en þar sem svo hefir nú borið út af í skýrslu hv. þm. um kjötbirgðir Reykjavíkur, þá getur eins hallað annarsstaðar. En ég dæmi ekki um það að svo stöddu, en það væri ástæða til að rannsaka sérstaklega.

Ég hefi hér sýnt, að miðað við afleiðingarnar af of miklum kjötbirgðum á Reykjavíkurmarkaðinum 1934, sem kom fram í því hjá Sláturfél. Suðurlands að útiloka það frá meira en hálfri sumarslátruninni, og auk þess hefir það setið eftir með birgðir, sem mjög mikið verðfall verður á, þá er rétt að athuga, hvert viðhorfið verður nú, þegar birgðirnar á kjötmarkaðinum hafa mikið aukizt. Ég segi ekkert um það, hvernig úr þessu kann að rætast, en það sýnir okkur, að það hefir skort mikið á, að kjötverðlagsn. væri á verði um aðflutningana á Reykjavíkurmarkaðinn frekar nú í ár en haustið 1934.

Hv. 2. þm. N.-M. vildi draga úr kjötbirgðum Reykjavíkurmarkaðinum með því að segja, að hér hafi verið frystar hjá Sláturfél. Suðurlands 90 smálestir til útflutnings. Þetta er rangt, það eru 80 smálestir, og var þó hv. þm. vorkunnarlaust að fara hér rétt með, því að kjötverðlagsn., sem hann er formaður í, gefur sjálf upp 90 smálestir, sem frystar séu á enskan markað. Auðvitað fer nokkuð af kjöti á Norðurlandamarkað, en það eru samskonar aðferðir við það og á innlenda markaðinn, en hv. þm. átti við enska markaðinn, og það eru 80 en ekki 90 smálestir, sem frystar eru á hann.

Þá hélt hv. þm. því fram, að búið myndi að gera samning við verzlanir í Borgarnesi um útflutning á töluverðu kjötmagni. Satt er það, að samkv. fyrirmælum kjötverðlagsn. voru kaupmönnum í Borgarnesi sett þau skilyrði, að af því þeir keyptu utan Reykjavíkurmarkaðs mættu þeir ekki selja meira en 25% á erlendan markað. Nú hafa þeir selt nokkuð meira, svo að þeir verða að útvega sér kjöt annarsstaðar til að geta uppfyllt skilyrðin að selja á erlendan markað, svo að hlutföllin raskist ekki. - En það, sem skiptir máli í þessu efni, eru 10 eða 11 smálestir, 5 smálestir til kaupfél. Borgf. og annað eins til annara verzlana í Borgarnesi. En á móti þessu kemur kjöt af Akranesi, að vísu ekki dilkakjöt, en þetta rýrir ekki nema að litlu leyti það kjötmagn, sem finnst hér á Reykjavíkurmarkaðinum. Ég læt þetta koma hér fram, því að hv. 2. þm. N.-M. lagði svo mikla áherzlu á, að það gæti farið svo, að þetta kjöt yrði flutt út að talsverðu leyti og þar með minnkuðu birgðirnar á Reykjavíkurmarkaðinum. En ástæðan til þess, að Sláturfél. Suðurlands verkar nokkuð af kjöti til að hafa tilbúið á enskan markað, er sú, að forstjórar Sláturfél. hræðast, að félagið brenni inni með birgðir, sem ef til vill verður ekki hægt að selja innanlands, og vilja því hafa vaðið fyrir neðan sig. Sem sagt, það hefir verið flutt mikið inn á þetta markað svæði af kjöti af öðrum verðjöfnunarsvæðum, og út af því hefir óánægjan sprottið. Hv. 2. þm. N.-M. sagði frá, út af því, sem sagt er í grg. frv., að hann hefði farið um 12 sýslur á landinu og talað við 4. hvern bónda, og aðeins 5 einstaklingar hefðu látið í ljós óánægju yfir framkvæmdum kjötlaganna. Ég skaut því þá fram í, að hann hefði ekki lagt leið sína um nærsýslur Reykjavíkur, því að ég vissi af óánægjunni þar. Í því sambandi vil ég benda á það, sem sýnir almennan hug manna á því, að hollar framkvæmdir mættu takast í þessu efni:

Á aðalfundi Sláturfél. Suðurlands síðasta vor, þar sem komnir voru saman fulltrúar úr fimm sýslum, mismunandi margir úr hverri sýslu, eftir því hver félagatala Sláturfél. er í hverri sýslu, var rætt um framkvæmd kjötsölulaganna. Þar voru samþ. nokkrar till., og skal ég hér sem svar við því, sem hv. 2. þm. N.-M. bar fram, lesa upp tvær till., sem samþ. voru einróma af fulltrúunum á þessum aðalfundi Sláturfél. Suðurlands. Önnur till. hljóðar svo:

„Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands skorar á kjötverðlagsnefnd að gera ráðstafanir til, að eigi verði framvegis flutt af öðrum verðlagssvæðum inn á 1. verðlagssvæði (Reykjavík og Hafnarfjörð) meira kjöt, til viðbótar því, sem þar er fyrir, en markaðurinn þolir“.

Þessi till. var samþ. með shlj. atkv., og vitanlega fram komin vegna þess, að viðhorfið var þannig, að Reykjavíkurmarkaðurinn yrði offylltur. Enda hægt að rökstyðja það með ábyggilegum tölum. - Hin till. er svona:

„Um leið og aðalfundur Sláturfélags Suðurlands lýsir óánægju sinni yfir þeirri ráðstöfun kjötverðlagsnefndar, að heimila ekki verðhækkun á síðasta hausti á frystu kjöti, svo að nægði fyrir frysti- og geymslukostnaði, þá skorar fundurinn á nefndina að heimila slíka verðhækkun eftirleiðis“.

Þessi till. er fram komin fyrir sá sök, að tilhögun kjötverðlagsnefndar hafði í för með sér mikinn skaða fyrir Slf. Sl. á öllu frystu kjöti, sem það hafði til sölu á Reykjavíkurmarkaði. Það liggja fyrir útreikningar frá forstjóra Slf. Sl. um, hvað mikið þurfi að leggja á frysta kjötið til þess að bera uppi allan kostnað við geymslu, vaxtatap og ýmislegt, sem því fylgir. Og sýnir reynslan, að til þess þarf að leggja 20 aura á kg. Þetta er byggt á fleiri ára athugunum. En kjötverðlagsnefndin framkvæmdi þetta þannig, að fram að miðjum okt. mátti ekkert leggja á það kjöt, sem þurfti að frysta á þeim tíma. M. ö. o. varð að selja það með skaða. Þá loksins leyfði n. að hækka verðið um Í aura pr. kg., í stað 20 aura, sem hefði þurft að vera frá byrjun. Þetta verðlag stóð frá 15. okt. til 15. jan. allan þennan tíma verður Slf. að selja með 13 aura tapi hvert kg. Svo 15. jan. leyfir kjötverðlagsnefndin að hækka álagninguna upp í 15 aura pr. kg., en frekari hækkun fékkst ekki, svo enn var á aura skaði á hverju kg. - Af þessari meðferð kjötverðlagsnefndar á frysta kjötinu hefir leitt, að Slf. og allur almenningur hefir liðið mikið tjón. Af þeim sökum hefir Slf. t. d. ekki getað bætt upp verð á gærum frá 1934, sem hefði þó átt að vera 24 aur. pr. kg. En allt það fé, um 28 þús. kr., varð að nota til þess að jafna hallann, sem félagið beið við meðferðina á frysta kjötinu. Ég hygg því, að allir sanngjarnir menn finni, að sú óánægja, sem kemur fram í fundarályktun Slf., sem ég hefi lesið hér upp, sé ekki ástæðulaus.

Ég skal einnig geta þess, að stjórnir Slf. Sl. og kaupfélags Borgfirðinga hafa gert ítrekaðar tilraunir, með bréfum og sendinefndum, til þess að kjötverðið yrði ekki rýrt eða dregið niður. En ekkert af þessu hefir borið hinn minnsta árangur, en verið gersamlega að vettugi virt.

Fulltrúar K. B. og Slf. Sl. hafa staðið einir móti sameinaðri andstöðu hinna nefndarmannanna.

Ég get líka bent á, út af samanburði, sem oft hefir verið gerður á kjötverðinu 1934 og 1933, að lækkunin á kjötverðinu haustið 1933 á innlenda markaðinum var bein afleiðing af verðlagi á erlendum markaði haustið 1932. En eins og eðlilegt er koma verðbreytingar innanlands alltaf á eftir, og því fór kjötverðið alstaðar lægra haustið 1933 en áður.

Í áframhaldi af þessu skal ég benda á muninn á afkomu Slf. samkv. reikningum árin 1933 og 1934. Í árslok 1933 var ágóði af ársrekstrinum 83 þús. kr. Þar af er greitt til uppbótar á gærur 41 þús., eða 30 aurar pr. kg. Samt eru eftir 42 þús. kr. En 1934 er útkoman þannig, að til þess að sýna rekstrarágóðann ekki alveg í núlli, varð að offra allri gæruuppbótinni. Með því sýndu reikningarnir 17 þús. kr. ágóða. En þar við er að athuga, að síðan hefir komið verðfall á 26 smálesta birgðum, sem félagið sat með í haust. En við reikningslok í fyrra varð ekki séð fyrir, hvernig reiddi af um söluna, þó fyrirsjáanlegt væri, að eitthvað yrði eftir á markaðinum.

Í framhaldi af því, sem ég nú hefi sagt, er ljóst, hversu langt er frá því, að þeir, sem selja á Reykjavíkurmarkað, hafi notið þeirra hlunninda, sem þeir gátu notið, ef l. hefðu verið framkvæmd í samræmi við tilgang löggjafans. Í annan máta hefir þessi framkvæmd laganna komið mjög hart niður á fleiri deildum Slf., einkum Vestur-Skaftfellingum. Haustið 1933 slátruðu þeir hér í Reykjavík 4500 fjár. Nú eiga þeir, sem slátra í Vík, ekki annars úrkosti en salta kjötið til útflutnings, og þótti því fýsilegt að selja nokkuð af því á Reykjavíkurmarkað. En l. hafa verið framkvæmd á þann hátt, að V.-Skaftafellss. er utan verðjöfnunarsvæðis Reykjavíkur og þar með algerlega hægt frá markaði þar. Verðlagssvæðið tekur því ekki út yfir allt það svæði, sem byggir upp Slf. Sl.

Á síðastl. hausti, þegar stj. Slf. raðaði niður slátrun, þótti henni ekki tiltækilegt að leyfa Skaftfellingum slátrun hér. Var það byggt á þeirri reynslu, að ekki höfðu verið lagðar neinar hömlur á innflutning frá hinum verðlagssvæðunum, sem hlaut að bitna mest á stærsta aðilanum hér sunnanlands, sem er Slf. Sl. Var þess vegna gripið til þess neyðarúrræðis að bægja sínum eigin félagsmönnum frá. Enda hafði þá Slf. enn sterkari aðstöðu til að standa á móti innflutningi kjöts annarsstaðar frá, ef það var búið að ganga á móti óskum sinna eigin félaga.

Í haust var því ekki slátrað nema 100 kindum úr V.-Skaftafellssýslu hér í Reykjavík, í stað 4500 haustið 1934 (PZ: Hvað sannfærði aðalfund?). Það er ekki aðalfundur, heldur stj. félagsins, sem hefir með það að gera. En þetta sýnir aðeins, að þurft hefir að grípa til neyðarúrræða. því þrátt fyrir þessar ráðstafanir eru nú meiri birgðir hér á markaðinum en í fyrra á sama tíma. Sýnir það, hve mikið er flutt að af öðrum verðlagssvæðum. Að vísu er kjötmagn tiltölulega meira en í fyrra miðað við sláturfjártölu, því féð var vænna. En einkum stafa þessar auknu birgðir af aðflutningi kjöts frá öðrum verðlagssvæðum.

Þá skal ég benda á, að það kom fyrir í sumar og var látið afskiptalaust, sem lítil brögð hafa verið að áður, að kjöt streymdi hingað á markaðinn norðan úr sýslum. Byggist þetta á því, að undanfarin ár hefir S. Í. S. alltaf keypt af Slf. kjöt til þeirra búða hér, sem það birgir að kjöti. En í sumar brá svo við, að S. Í. S. gekk frá öllum viðskiptum við Slf., en flutti kjötið að af öðrum verðlagssvæðum, einkum af Norðurlandi. Þetta er nú svo, að auk þess, sem Sunnlendingar hafa orðið fyrir barðinu af því, hve slátrun hófst seint, og halla á óseldum birgðum, kemur svo til viðbótar, að nú er strax svo eða svo mikið flutt norðan úr landi inn á markaðinn. - Ég skal skjóta því hér inn í, af því ég sé hv. 4. landsk. hér í d., að ég hefi heyrt, að þegar þetta mál var til umr. í Ed., hafi þessi hv. þm. látið þau orð falla, að verðjöfnunargjaldið hefði verið sett til þess að kaupa Norðlendinga út af markaðinum. En kjötið hefir verið flutt hingað til sölu eins og áður, en við þurft að greiða verðjöfnunargjaldið. Vænti ég, að við höfum fengið góðan liðsmann þar sem er hv. 4. landsk., til þess að sækja rétta aðila til sakar um þessi mál. Þessu varð ég að skjóta inn í af því ég sá hv. 4. landsk.

Ég hefi þá tekið fram þau aðalatriði, sem ég finn ástæðu til að gera að umtalsefni nú að sinni um framkvæmd kjötsölulaganna, nema frekara tilefni gefist til, vænti ég, að þau gefi nokkrar upplýsingar um, hvernig framkvæmd þeirra hefir farið úr hendi að því er snertir þetta verðlagssvæði, og að hv. þm. viðurkenni, að þær óánægjuraddir, sem þaðan hafa heyrzt, séu ekki ástæðulausar, en fullkomlega þess verðar, að þeim sé gaumur gefinn af kjötverðlagsnefnd og hún taki tillit til þeirra. Það er svo, að menn voru nokkurnveginn sammála um, að nauðsyn bæri til að setja l. um þetta efni. En jafnframt var ætlazt til, að l. yrðu framkvæmd samkv. anda þeirra og tilgangi. Og gagn l. og hve lengi þau standa, fer vitanlega eftir því, hver not verða af þeim til hagsbóta fyrir bændurna. Það verður að gæta þess við framkvæmd l., að hagsmunir bænda á þessu verðlagssvæði verði ekki fyrir borð bornir. Ég vil svo ítreka, að ég vænti, að kjötverðlagsnefnd líti sanngjarnlega á þessar umkvartanir, sem fram hafa komið, enda hefi ég heyrt frá fundi hennar í gær, að hún hafi þá gengið nokkuð til móts við kröfur bænda hér og heimilað að leggja meira á fyrir frysti- og geymslukostnaði en í fyrra. Ef það er rétt, má það skoðast sem viðurkenning frá n. um, að þær kröfur, sem gerðar voru í fyrra í þá átt, hafi verið á fullum rökum reistar. Af því ég ber umhyggju fyrir hag íslenzkra bænda og vil, að l. nái þeim tilgangi sínum að verða þeim til hagsbóta, vænti ég þess, að kjötverðlagsnefndin framkvæmi þau á þann hátt, að eigi þurfi að valda óánægju hér né annarsstaðar. En ég hefi jafnframt sýnt fram á, að þær umkvartanir, sem fram hafa komið frá sunnlenzkum bændum, hafa verið á rökum reistar. Nú er vitanlegt, að kjötbirgðir eru miklu meiri en í fyrra, svo ekki er við góðu að búast nema einhver breyting verði. Við, sem berum umhyggju fyrir hag framleiðendanna, óttumst, að niðurstaðan verði sú, að verðið skerðist, einkum ef þrengt er að sumarmarkaðinum. Vænti ég því, að kjötverðlagsnefndin sjái um, að ekki verði flutt meira inn á Reykjavíkurmarkað en nú er orðið. Ég vildi nota tækifærið til að spyrja hv. 2. þm. N.-M., hvort verðlagsnefndin muni leyfa meiri innflutning af kjöti á verðlagssvæði Reykjavíkur en nú er orðið. Þar sem hv. þm. er formaður n., býst ég við, að hann viti nokkurnveginn um hug hennar í málinu. Hann svarar þá aðeins fyrir sig, ef hann telur sig ekki geta svarað fyrir hönd n. Ég þarf náttúrlega ekki að taka það fram, að fulltrúar kaupfél. Borgf. og Slf. Sl. hafa alltaf staðið á verði fyrir hagsmunum bændanna og að skapa þeim það öryggi, sem er tilgangur laganna. Hafa þeir háð þrotlausa baráttu til verndar hagsmunum bænda, en borið lægri hlut.