14.11.1935
Neðri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (4181)

161. mál, sláturfjárafurðir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég skal fyrst snúa mér að hv. þm. V.-Húnv. Hann fullyrðir, að það sé ekki rétt hjá mér, að kjötverðið í Húnavatnssýslu hafi hækkað. Ég get ekki ettir öðru farið en því, sem kaupfélagsstjórinn sjálfur hefir getið mér upp bréflega. Hvað snertir Hvammstanga, þá var munurinn á 1. fl. 2 aurar pr. kg., eins og hann er tjáður mér, og mismuninn á hinum flokkunum getur hann fengið að sjá hjá kjötverðlagsn. Á Blönduósi var meðalverðið til bænda 78,5 aurar árið 1933, en 88,4 aurar 1934. Svo má hann bítast um það við kaupfélagsstjórana, hvort þeir hafa skrökvað að mér eða ekki. En hinu gleymdi hann þó í þessu sambandi, að á erlenda markaðinum féll freðkjötið um 61/2 eyri kg. Þess ætti hann a. m. k. að taka eitthvert tillit til, þá hann talar um árangur laganna.

Hv. 6. þm. Reykv. þarf ég ekki miklu að svara. því að það var ekki margt af því, sem hann sagði, þess eðlis, að þörf sé að svara því. Þó komu þrjú atriði fram hjá honum, sem eru þess eðlis, að þörf er að benda á þau og undirstrika.

Fyrst og fremst áleit hann, að ég gæti ekki mikið vitað um það, hvað bændum hefði verið borgað fyrir kjötið í fyrra. Ég veit ekki annað en það, sem kaupfélagsstjórarnir hafa sagt mér. Ef hann vill rengja t. d. Ólaf Pálsson á Ísafirði, framkvstj. Sláturfél. Vestfjarða, Ketil Guðmundsson kaupfélagsstjóra, Ísafirði, Vilhjálm Þór á Akureyri o. s. frv., þá hann um það. Ég læt hann þar sjálfráðan, en ég treysti þeim að vita þetta betur en hann, og hann má ekki misvirða það.

Annað atriðið, sem ég vildi minnast á, var það, á hverju hann byggir samanburð sinn á kjötverðinu 1933 og 1934. Honum þykir ekki nógu öruggt að treysta kaupfélagsstjórunum víðsvegar um land, sem hafa reikninga alla við hendina. Traustari grundvöll vildi hann fá. Og hver var hann? Jú, hann hafði hann í sínum höndum. Það var innleggsnóta frá einum bónda, sem hafði lagt inn hvorki meira né minna en tólf kindur. Og verðið, sem þar var tilfært, var áætlað verð. Það var slátrað í fyrra um 400000 fjár. Áætlað kjötverð af tólf kindum hafði hann, og á því vildi hann byggja kjötverðssamanburð yfir alla línuna. Það er auðvitað misjafnt, hvað menn vilja byggja á traustum grundvelli. Á þessum grundvelli hv. þm. hefði ég ekki treyst mér að byggja. En hann má mín vegna byggja á honum hversu háar skýjaborgir sem hann vill. En ég held, að þær standist ekki andvara, hvað þá ef nokkuð verulega blæs.

Þá kem ég að þriðja atriðinu. Og það var sú merkilega fullyrðing hans, að bændafélögin í landinu hefðu algerlega getað ráðið kjötverðinu, en ekki þurft á neinni lagahjálp að halda til þess.

Það var annað hljóð í strokknum hjá hv. þm. Borgf., þegar hann var að tala um verðlagið á kjötinu og að það 1933 var lægra á innanlandsmarkaðinum en á útflutta kjötinu. Það var annað hljóð í strokknum hjá kaupfélaginu á Akureyri 1933, þegar Skagfirðingar komu þangað með svo mikið kjöt, að verðið fór á einni svipstund niður í 70 aura. Það var annað hljóð í strokknum á Ísafirði áður en Sláturfélag Vestfjarða byrjaði starf sitt, því þá komst kjötið á stundum niður fyrir allar hellur. Þar gekk það jafnvel svo langt, að menn voru farnir að bjóða heila skrokkana fyrir sama sem ekki neitt, til þess að geta losnað einhvern veginn við þá, þegar allt var skipulagslaust og vitlaust með kjötsöluna. Ég held, að hver einasti maður, sem einhverntíma hefir átt við kjötsölu, hugsað um kjötsölu eða reynt að kynnast þeim málum, hljóti að hafa séð, að félögin voru þess ekki megnug að halda upp verðinn innanlands, svo að vissa væri fyrir, að það væri nokkuð að ráði hærra en á erlendum markaði, og það er ekki heldur eðlilegt, þegar við framleiðum helmingi meira en hægt er að selja erlendis. Þá er ekki eðlilegt með þeim samgöngutækjum, sem við höfum nú orðið, að það gæti tekizt á neinum einum stað að halda verðinu fyrir ofan erlenda verðið. Það er á móti því eðlilega lögmáli, sem ríkir, að það sé hægt. Það hefði kannske verið hægt að einhverju leyti, ef öll félögin hefðu haft samtök um það sín á milli, og auðvitað ekki til fulls, því að alltaf gátu kaupmennirnir boðið kjötið niður úr öllu valdi.

Að öðru leyti þarf ég ekki að svara hv. 6. þm. Reykv., því að það, sem hann sagði að öðru leyti um málið, voru fullyrðingar, sem hann reyndi ekki að rökstyðja neitt. Það var svipað og þegar börn eru spurð, hvers vegna þau geri þetta eða hitt, og þau svara: „Af því.“ Þannig voru rök hans.

Þá er það hv. þm. Borgf., sem hélt hér langa refsiræðu, og það sem hann sérstaklega vildi sanna, var það, að menn væru mjög svo óánægðir með kjötsölulögin. (PO: Framkvæmd þeirra). Það var nú allt annað, en hv. þm. sagði nú, að menn væru óánægðir með l. sjálf, og því til sönnunar reyndi hann svo að sýna fram á, að menn væru ekki ánægðir með framkvæmd einstakra gr. laganna, enda virtist hann sjálfur ekki vera neitt óánægður með l., heldur aðeins framkvæmdina í sumum greinum.

Það, sem hv. þm. hafði þá helzt út á framkvæmdina að setja, var það, að inn á verðlagssvæði Reykjavíkur - hann sagði nú verðjöfnunarsvæði, en það er ekki til, en meinti verðlagssvæði, - hefði verið flutt allt of mikið kjöt frá öðrum verðlagssvæðum. En það er nú svona, að ég held, að það sem helzt megi ásaka kjötverðlagsn. fyrir, sé það, að hún hafi leyft mönnum á 1. verðlagssvæði, þ. e. verðlagssvæði Reykjavíkur, að selja allt sitt kjöt á Reykjavíkurmarkaðinum. Og hvers vegna? vegna þess, að Sláturfél. Suðurl., sem rekur kjötverzlunina að langmestu leyti á þessu svæði, hefir ekki getað, síðan kjötlögin voru sett, og reyndar ekki áður heldur, borgað bændum eins hátt verð fyrir kjötið og aðrir, sem hafa selt kjöt til Reykjavíkur. Í fyrra borgaði það til bænda 91 eða 92 aura kg. af 1. flokks kjöti, - það má deila um það, hvort það var 91 eða 92 aurar, en fyrir það kjöt, sem S. Í. S. seldi og hv. þm. Borgf. vill, að sé bannað á Reykjavíkurmarkaðinum, var bændum borgað á aðra krónu. Svo miklu minni er kostnaðurinn við að láta Sambandið selja en Sláturfélagið. Það, sem hv. þm. Borgf. getur því helzt álasað okkur fyrir, er, að við skulum hafa leyft Sláturfél. Suðurl. og kaupfél. Borgf. að selja allt sitt kjöt á Reykjavíkurmarkaðinum, þegar þau gátu ekki borgað hærra en þetta, annað 83 aura, hitt 92 aura fyrir það, að þau hlaða svona miklum kostnaði utan á kjötið. En fyrst hv. þm. vill fara út í umr. á þessum grundvelli, þá er honum það velkomið. Þetta er það, sem er rétt að álasa okkur fyrir, en við gerðum það af því, að við litum svo á, að þessi félög mundu smátt og smátt geta lækkað þennan tilkostnað sinn, svo að þau yrðu samkeppnisfær um sölu í bæjum við aðra aðila, er hér selja kjöt.

Það, sem hv. þm. Borgf. hefir fyrst og fremst að athuga við framkvæmd kjötsölulaganna, er það, að markaðurinn hafi verið offylltur. Í því sambandi las hann upp till., sem var samþ. á fundi Sláturfél., þar sem er skorað á okkur að sjá svo um, að ekki sé flutt kjöt til Rvíkur á meðan kjöt er til á 1. verðlagssvæði. Ég hefði nú heldur viljað, að hann hefði komið með hina till., sem var samþ. af sumum sömu mönnum, en á öðrum fundi, þar sem skorað er á okkur að fyrirbyggja allan kjötinnflutning til Rvíkur af öðrum verðlagssvæðum, því að hún sýnir berlega, hvert stefnt er. En sannleikurinn er sá, hvað sem öllum aðflutningi liður, að þegar farið var að veita sláturleyfin, þá var hverjum manni leyft að selja ákveðinn hlut af kjötmagninu, eftir því sem búast mátti við, að selt yrði á innanlandsmarkaðinum, og var þá farið eftir því, að ekki kæmi meiri kjöt á markaðinn innanlands en mundi seljast, og var miðað við söluna í fyrra. Þetta hefir líka orðið til þess, að nú er til á innanlandsmarkaðinum mun minna kjöt en í fyrra. Hv. þm. Borgf. hélt því fram, að ég hefði farið með rangar tölur um birgðirnar í Rvík, en það er náttúrlega ekki rétt hjá honum, nema að því leyti, að það upplýstist í gær, þegar hann fór að rannsaka þessi mál, að við fyrstu birgðaskýrslurnar, sem teknar voru í fyrra hjá Sláturfél., voru kjötbirgðir Hafnarfjarðar, 74 tonn, tvítaldar, því að þær voru bæði taldar fram í Hafnarfirði og eins af Helga Bergs hér. Þetta gerir því þann mun, að kjötbirgðirnar í fyrra hafa verið 74 tonnum minni en fyrst var talið. Þetta breytir þá því, að nú eru birgðirnar í Reykjavík nokkru meiri en í fyrra, eða um 20 tonnum. Þetta er rétt hjá honum, en öðru breytir þetta ekki. [Frh.].