15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í C-deild Alþingistíðinda. (4191)

161. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. N.-M. sagðist ætla að gefa mér tækifæri til að grípa fram í fyrir sér, en að það kom hik á mig, stafaði af því, að ég hélt, að þm. væri að verða brjálaður, svo hávær var hann, og ég óttaðist, að framítekt af minni hálfu myndi leiða hv. þm. lengra út á hans óhappabraut, svo að ég vildi heldur doka við. Ég vildi ekki verða til að verka þannig á þm., að hann gerði Alþ. að „bíó“, en ég býst við, af undirtektum áheyrenda, að þeir hefðu ekki sótt meir skemmtun á bíó, þó að þeir hefðu borgað 2 til 3 kr. innganginn.

Viðvíkjandi spurningunni um kjötbirgðir Sláturfél. Suðurl., þá er það örugg trygging, að ef leyfður er meiri innflutningur á verðlagssvæðið en nú er, ef haldið er áfram á sömu braut og í fyrra og nú, er það að gera hlut þeirra, er á Rvíkurmarkaðinn selja, verri. Ef sá andi, sem ríkir hjá hv. 2. þm. N.-M., fær að ráða áfram, þá gerir það hlut þeirra verri.

Hv. þm. bætti enn við um þessa hluti. Nú dró hann Sláturfél. Suðurl. inn í umr. til þess að þjóna sinni illu lund og sínum vondu ákvörðunum gagnvart þessu félagi. Hann sagði, að félagið hefði rekið starfsemi sína á kaupmannsgrundvelli, en það hefði verið gerð breyting á þessu í haust. Þetta er rangt; það hefir engin breyt. verið gerð. Félagið hefir haldið áfram að borga mönnum út eins og áður; aðeins hefir það dregið úr útborgununum, og liggur það ekki sízt í starfi hv. 2. þm. N.-M. í kjötverðlagsnefndinni, sem afleiðing af þeirri rangsleitni, sem n. hefir beitt félagið, að leyfa því ekki að leggja á fyrir geymslu- og frystikostnaði. Það er þá ekki nema afleiðingin af þeim illa hug til þessa félags og kaupfél. Borgf., sem komið hefir fram hjá hv. þm., að búið er að hrekja þau úr þeirri aðstöðu að geta borgað bændum kjötið út á haustin því verði, sem boðið er í vörurnar. Ef hv. þm. vill í stjórn sinni í kjötverðlagsn. þjóna áfram þeirri lund, sem ég hefi lýst, þá er ekkert líklegra en Sláturfél. Suðurl. verði hrakið úr þeirri aðstöðu að geta borgað bændum út kjötið strax að haustinu. En það skiptir bændur allmiklu máli, hvort borgað er út á haustin eða smámsaman.

Það er sýnt, að hv. þm. hefir vitandi vits dregið undan, þegar hann gerði samanburðinn á kjötverðinu. En þegar hann dregur bara fram verð á reyktu kjöti hjá kaupfél. Norður-Þingeyinga, en tekur svo til samanburðar heildarverð á kjöti hjá kaupféI. Borgf. og Sláturfél. Suðurl., þá er ekki hægt að komast lengra í blekkingum. En það skilst, þegar þetta er borið fram af illvilja og fjandskap gegn þessum félögum, til þess að hnekkja afkomu þeirra og spilla fyrir bændum. En þetta kemur úr hörðustu átt frá manni, sem falin hefir verið formennska í n., sem á að sjá fyrir hag bænda, og auk þess falið starf við þá stofnun, sem er almennur félagsskapur bænda, þegar slíku skýtur upp, slíkri meinvættishugsjón gagnvart félagsskap bænda í þessu landi. Bændur verða sannarlega að athuga, hversu lengi þeir hafa slíka menn í sinni þjónustu.