08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (4212)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Ólafur Thors:

Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr. málsins, því að mér þykir sjálfsagt, að því verði vísað til n. Ég ætla ekki heldur, þó að ég hafi kvatt mér hljóðs, að fara ýtarlega út í málið við þessa umr.

Ég var ekkert hissa á þeim orðum, sem féllu af vörum hv. þm. Ísaf. í garð útgerðarmanna. Hann er þekktur að illkvittni í þeirra garð og lítilli ábyrgðartilfinningu fyrir sínum orðum. En ég kemst ekki hjá því að láta í ljós undrun mína yfir ummælum hv. þm. Hafnf., því að maður á síður af honum að venjast samskonar bardagaaðferð og hv. þm. Ísaf. Bæði af þessu, er ég þegar hefi getið um, undrar mig þessi ummæli, og eins af hinu, að hann er sjálfur í þeirri aðstöðu, að hann hefir kynnzt nokkru betur togaraútgerð heldur en hv. þm. Ísaf. Sem bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar er hann aðalráðamaður útgerðar Hafnarfjarðarkaupstaðar, en hann rekur sem kunnugt er tvo togara. Þessi hv. þm. hefir því fengið tækifæri gegnum þennan rekstur til að kynna sér þá erfiðleika, sem stórútgerðin á við að stríða, og af þeirri reynslu veit hann vel, að það er ekki viljaleysi, heldur getuleysi, sem veldur því, að stórútgerðin hefir ekki endurnýjað flota sinn betur heldur en raun ber vitni um.

Það má náttúrlega lengi rekja rætur þessara meina, sem menn nú viðurkenna, að séu fyrir hendi, þ. e. a. s. bágrar afkomu stórútgerðarinnar, en ræturnar eru að miklu lyti þær, að hið opinbera hefir búið illa að þessari útgerð. Það hefir aldrei verið spurt um gjaldgetu hennar, en nýjum sköttum og tollum verið hlaðið á hana svo að segja á hverju þingi. Það er fyrst og fremst aðbúnaði þess opinbera í garð útgerðarinnar að kenna, hvað lítið bolmagn hún hefir haft til að inna að hendi þá eðlilegu skyldu að endurnýja flotann hæfilega. Auk þessa hafa verið gerðar meiri kröfur á hendur stórútgerðarinnar um kaupgjald heldur en á hendur smáútgerðarinnar. Það upplýstist í rannsókn mþn. í sjávarútvegsmálum, að í fyrsta lagi hefðu menn, sem við stórútgerð vinna, miklu lengri atvinnu heldur en þeir, sem vinna að smáútgerð. En auk þess kom í ljós, að kaup þeirra var margfalt hærra. T. d. var kaupgjald á minnstu bátum ekki nema um 6 kr. á dag, en á stærri bátum, frá 12 og upp í 40 til 50 smálestir, var það um 13 kr. á dag, en á togaraflotanum yfir 22 kr. Þessar kröfur af hendi hins opinbera og hins vinnandi lýðs á hendur stórútgerðinni gera það að verkum, að enda þótt það sé rétt, sem hv. flm. sagði, að togararnir væru tvímælalaust beztu framleiðslutækin við sjóinn, er nú svo komið, að fyrir eigendur þessara framleiðslutækja hafa þau ekki verið arðbær undanfarin sex ár. Togararnir hafa verið reknir með allverulegum halla á hverju ári frá 1930, að því meðtöldu. Einmitt nokkur af þessum árum hefir hv. þm. Hafnf. haft með togar,útgerð að gera og veit þess vegna vel, hvað erfiðleikarnir eru miklir og þungbærir. Ég viðurkenni, að einmitt þessir örðugleikar og sú staðreynd, að útgerðin hefir ekki getað endurnýjað flota sinn af sjálfsdáðum, skapar eðlilega ástæðu til þess að varpa fram þeirri spurningu, hvort hið opinbera ætti ekki að skerast í leikinn. En í sambandi við það væri ærið tilefni til þess að biðja menn að reyna að gera sér meiri grein heldur en almennt er gert fyrir gangi þessara mála, eins og hann hefir verið á undanförnum árum. En víða hefir hann verið sá, að kaupkröfur á hendur útgerð einstaklinganna hafa verið svo óbilgjarnar, að einkafyrirtækin hafa lamazt og orðið að gefast upp. Þegar þau hafa gefizt upp, hafa íbúar hlutaðeigandi kaupstaðar, í hvaða flokki sem þeir eru, neyðzt til að viðurkenna, að atvinnubresturinn, sem varð af niðurfellingu útgerðarinnar í höndum einstaklinganna, knýr fram þörf fyrir nýjan hliðstæðan atvinnurelatur. Þá hefir nýjum atvinnurekstri verið hleypt af stokkunum, sumpart með samvinnufélögum, sem ríkið hefir styrkt að verulegu leyti með fjárframlögum og ábyrgðum, og bæjarfélögin hafa einnig styrkt á margvislegan hátt. Gleggst dæmi um það er samvinnufélag Ísafjarðurkaupstaðar, og án þess að ég ætli að rekja ýtarlega sögu þess, þá er það ekki ofmælt, að hún er einn, raunalegastur vottur um lélega afkomu íslenzkrar útgerðar. Þrátt fyrir, að sú útgerð hefir átt því láni að fagna að tryggja sér óvenjulega duglega og fengsæla aflamenn til formennsku á skipum sínum, hefir sú útgerð tapað árlega, og það þótt einstakir eigendur hennar, eins og hv. þm. Ísaf., hafi notað aðstöðu sína sem bæjarfulltrúi til þess - ja, ég þori ekki að segja á glæpsamlegan hátt, en á mjög óviðfelldinn hátt - að ívilna og hagna þessu einkafyrirtæki á kostnað bæjarfélagsins, er hann sem bæjarfulltrúi var settur til að gæta. Eftir að þetta félag þannig hefir notið styrks þess opinbera á allan hátt og sogið bæjarfélag sitt þannig, að þess eru engin dæmi, þá er það fyrsta félagið, sem skilar sér í skuldaskilasjóð, sem marðist fram sem óburður með afturfótafæðingu út úr þeim tilraunum, sem við sjálfstæðismenn gerðum til þess að koma fram lagafyrirmælum, sem fullnægðu einhverjum fleirum en hv. þm. Ísaf. Og mér er sagt, að þarna sé allveruleg upphæð í húfi. Ég vek athygli á þessu, ekki til þess að svala mér á hv. þm. Ísaf. út af þeim kaldyrðum, sem hann viðhafði í garð stórútgerðarinnar, heldur til þess að vekja löggjafann til umhugsunar um, hvaða leið þetta er. Einkafyrirtæki eru drepin niður með óbilgjörnum kröfum. Niðurfelling atvinnurekstrarins krefur áframhaldandi starfrækslu á útgerð í einhverri mynd. Það opinbera leggur fram fé til þess að koma þessum atvinnurekstri af stað. Þegar ríkið er búið að gera það, verður það að þola, að niður falli öll gjöld, sem bæjarfélögin höfðu áður af þessum atvinnurekstri, og þar til viðbótar, að fyrirtæki eins og það, sem ég nefndi áðan, beinlínis étur upp með lántökum ýmsa sjóði, sem bæjarfél. ætlaði að verja í öðrum tilgangi. Þetta er varhugavert og gefur tilefni til mikillar svartsýni um frumtíð íslenzkrar útgerðar, þegar sá atvinnurekstur, sem áður var máttarstoðin undir þörfum bæjarfélaganna, er nú orðinn þyngsti ómaginn á þeim. Það sjá allir, að með þessu er stefnt í beinan voða.

Annað form er það, sem Hafnarfjarðarbær rekur, þ. e. bæjarútgerð. Ég er ekki að harma það, þó að bæjarfélögin íslenzku reyni það eins og við einstaklingarnir, sem rekum þennan Atvinnuveg, að það er ekki alltaf gróðavegur. En það sjá allir, að það er munur fyrir bæjarfélögin að þurfa að balda uppi atvinnu í bæjarfélaginu á þennan hátt, með því að tapa og jafnframt að missa tekjur af samskonar atvinnurekstri í höndum einstaklinga. Einnig þetta gefur manni tilefni til alvarlegrar umhugsunar um framtíð íslenzkrar útgerðar. Ég segi þetta ekki til hnjóðs þeim mönnum, sem stjórna bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Mér er ekki kunnugt um, að þeir hafi gert það verr en gerist og gengur, og ég bygg, að þeir taki Ísfirðingum fram, því að ég geri ráð fyrir, að það væri varla komið jafnhörmulega fyrir þeirri útgerð á svo skömmum tíma með öllum þeim styrkjum, sem hún hefir fengið, ef vel hefði verið á haldið.

Á þessu stigi málsins vil ég ekki segja annað en það, að vanmáttur einstaklinganna til þess að endurnýja flotann hefir, eins og ég gat um áðan, skapað eðlilega aðstöðu til þess að varpa fram spurningu um það, hvort hið opinbera þurfi ekki að eiga hlut að því, að einhver endurnýjun geti farið fram. En auðvitað er það eðlilegt frá mínu sjónarmiði, ef það á annað borð þykir tiltækilegt, að hið opinbera leggi fram fé, þá sé það lagt fram til styrktar einstaklingunum, sem reka þessa útgerð. En það er eðlilegt, að sá styrkur geti ekki verið framreiddur í því formi, að þeir einstaklingar, sem reka stórfelldan atvinnurekstur fyrir sinn eiginn reikning, noti til þess rífleg framlög úr ríkissjóði. En það mætti athuga einmitt nú, hvort ekki væri hægt að gera einhverjar þær formsbreytingar á útgerðinni og eignarrétti þeirra togara, sem nú eru reknir, sem gerðu það aðgengilegra, að ríkið styrkti bana heldur en nú getur talizt, meðan ekki fleiri menn eiga þar hlut að máli. Þetta á sérstaklega við um stærstu félögin, sem eru í fárra manna höndum, sem hvorki ætlast til né vildu þiggja beinan ríkisstyrk meðan þau eru rekin sem eign þeirra fáu manna, sem nú eiga þau. En sem sagt, ef nauðsynlegt er að hefjast handa nú þegar um endurnýjun á togaraflotanum, þá verður það eðlilegast frá okkar sjónarmiði, sem trúum meira á ágæti einstaklingsframtaksins heldur en opinbera starfrækslu, að til athugunar verði tekið, hvaða formsbreytingar þyrfti að gera á útgerðarfélögunum, sem nú starfa, til þess að á einhvern hátt mætti koma aukningunni við. En hitt skilur hv. þm. Hafnf. mætavel, að ef rætt er um líðandi stund, er það ekki óeðlilegt, að hv. 6. þm. Reykv. viðhefði þau ummæli um þetta frv., að með því að bera það fram væri verið að leika loddaraleik. Hann veit vel, að fyrir tveimur árum seldum við Íslendingar til Spánar 35 þús. smálestir af fiski, eða helminginn af allri okkar fiskframleiðslu. Nú eru engar líkur til, að í ár getum við selt meira en 15 til 16 þús. smálestir þangað, og það er allt í óvissu, hvort við getum náð þeim samningum að ári eða ekki. Þarna erum við því búnir að missa markað fyrir 20 þús. smálestir eða meira. - Árið 1932 eða 1933 seldum við til Ítalíu 23 þús. smálestir. Í ár er búið að takmarka þann innflutning okkar við 10 þús. smálestir, og allt í óvissu, hvort við náum því magni að ári eða ekki. Við erum því búnir að missa markað þar fyrir 13 þús. smálestir í viðbót við þær minnst 20 þús. smálestir, sem við erum búnir að missa á Spáni. Samtals erum við búnir að missa markað fyrir um 33 þús. smálestir í þessum löndum, eða um helming af allri framleiðslu okkar. Hv. þm. Hafnf. veit, að við höfum reynt að ráða bót á þessu með því að ná í markað í Portúgal, og hefir það tekizt furðanlega vel. Nú veit hann, að einnig sá markaður er í hættu, þannig að hann með mér mundi viðurkenna, að það eru harla litlar líkur fyrir því, að við höldum honum að ári, og bendir margt til þess, að við höldum ekki helmingnum af honum. Erum við þá búnir að missa 2/3 af okkar markaði.

Dettur nú nokkrum heilvita manni í hug, að það bæti úr þessari ógæfu, að ríkið taki millj. kr. lán til þess að auka fiskframleiðsluna? Allir sjá, að ekki er til neins að gera út fleiri togara, ef ekki er hægt að selja einn ugga í viðbót við það, sem nú er. Það væri mikil óvarkárni, svo dökkar sem horfurnar eru nú, að fara að bæta á skuldabyrði ríkissjóðs nýjum kvöðum til þess að auka framleiðsluna. Það er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að það væri meira vit í þessari uppástungu, ef henni fylgdi það, að sökkva skyldi eða binda við festar nokkurn hluta togaraflotans. En þá væri sá ljóður á, að ekki myndi það bæta atvinnuvandræðin, því að almenning skiptir það litlu máli, hvort hann ynni og tæki laun sín á þessum nýju skipum eða þeim, sem nú eru rekin.

En um þann þátt frv., sem mér skilst vera grundvallarhugsun hv. flm., sem sé að tryggja það, að togaraflotinn hrörni ekki að okkur óviðbúnum, leggist ekki í rústir án þess að rönd verði við reist - um þennan þátt er það að segja, að það væri a. m. k. athugandi, hvort ekki væru til einhverjar líkur (ég segi ekki vissa) í augum hinna bjartsýnustu (ég segi ekki hinna svartsýnustu) til þess að svo kynni að fara, að við myndum síðar meir geta selt afurðir okkar, og þegar svo væri komið, hvort ekki myndi þá vera hægt að hefjast handa um endurnýjun togaraflotans, eins og allir eru sammála um, að nauðsyn beri til.

Ég vænti þess, að menn dragi rétta ályktun af orðum mínum, sem sé þá, að ekki dugi að drepa niður einstaklingsframtakið og leggja síðan þungar kvaðir á hið opinbera, til þess að hið opinbera framtak ráði bót á atvinnuleysinu. Slíkt er til lítils, þegar hið opinbera getur ekki risið undir þeim kvöðum og ekki er hægt að selja þá framleiðsluaukningu, sem þannig myndi fást. Jafnframt vildi ég vekja hv. þdm. til umhugsunar um þá eðlilegu ósk, sem fram kemur í frv. um endurnýjun togaraflotans, og er ég þess því hvetjandi, að málinu verði vísað í n. til frekari athugunar, svo að líka sé hægt að athuga málið frá fleiri hliðum en grg. gerir og þingheimur geti skoðað það í gleggra ljósi og síðan, að fengnum öllum upplýsingum, dæmt um það, hvað heppilegast muni reynast í þessum efnum.