14.11.1935
Neðri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (4232)

168. mál, fiskimálanefnd

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Fisksölusamlagið hefir starfað fyrr en nú með sömu forstjórum og fimm manna stjórnarnefnd, og hefir aldrei komið með nokkrar nýjar tillögur um nýjar verkunaraðferðir, svo sem herðingu og frystingu, eða öflun nýrra markaða, svo að ef öll sú mikla þekking, sem hv. þm. G.-K. talar svo mikið um, er fyrir hendi hjá forstjórunum, verður ekki annað sagt en þeir hafi farið vel með hana.

Það er alveg rétt, að gerðar hafa verið tilraunir áður með útflutning á hertum og frystum fiski, en þær tilraunir hafa endað með fullkominni uppgjöf. En nú hefir tilraun fiskimálanefndar með harðfiskinn a. m. k. gefizt svo vel, bæði hvað snertir verð og vörugæði, að mikils má af vænta í framtíðinni. Ég leyfi mér að efast um það, að samlagið hefði nokkru sinni gert þá tilraun, hvað þá meira.

En sé það sparnaðurinn einn, sem fyrir hv. þm. G.-K. vakir, væri honum bezt fullnægt með því að taka hæfilega mikið af mönnum úr vinnu hjá samlaginu, því að hv. þm. G.-K. taldi, að skrifstofumennirnir þar hefðu svo lítið að gera, að þeir gætu bætt miklum störfum á sig.

Auk þessa má benda á það, að fiskimálanefnd er allt öðruvísi skipuð og að nokkru leyti í öðrum tilgangi en stjórn samlagsins. Samlagið er allt eingöngu miðað við hagsmuni saltfiskseigenda, en hinsvegar er gert ráð fyrir, að úrslitaákvarðanir fiskimálanefndar séu bornar undir ríkisstjórnina.