20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í C-deild Alþingistíðinda. (4262)

175. mál, landssmiðja

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég vil vekja athygli á því, að hv. frsm. svaraði hv. 5. þm. Reykv., er hann lét í ljós ótta um það, að þessi aðstaða ríkissmiðjunnar yrði notuð til þess að setja hærra verð á vöruna heldur en ef hún væri í samkeppni, með því, að engar ráðstafanir hefðu verið gerðar til þess að skapa smiðjunni slíka aðstöðu. En með þessu frv. er einmitt verið að skapa smiðjunni slíka aðstöðu. Og þess vegna var svar hv. frsm. ónýtt. (EmJ: Það var um reksturinn áður). En nú er verið að tala um, hvernig það verður, ef frv. er samþ. Hv. þm. sagði, að það væri ekki ætlazt til þess, að hún væri látin vinna, nema hún væri samkeppnisfær. En það er ætlazt til, að ríkisstofnanir láti hana vinna fyrir sig án tillits til þess, hvort hún er samkeppnisfær eða ekki. Það er ekki spurt um, hvort smiðjan er samkeppnisfær, þegar hún á að vinna fyrir ríkið. Sá fyrirvari, sem er í frv. um það, að vinna smiðjunnar eigi að vera sambærileg við vinnu hjá einkafyrirtækjum, er ekki fyrir ríkið sjálft.

Hv. þm. sagði, að ríkisstofnunin, sem við smiðjuna skiptir, og sá, sem er fyrir smiðjunni, verði að undirskrifa reikningana, áður en þeir séu borgaðir. En þessu er þannig varið, að sá, sem er fyrir smiðjuna, hefir töglin og hagldirnar, því sá, sem kaupir, verður að skipta við hana og engan annan. Umboðsmaður kaupanda hefir því ekki aðstöðu til þess að „þrykkja“ verðinu niður. Ég vil nú spyrja hv. frsm. að því, hvort ekki sé hægt að komast að samkomulagi um það, að fella burtu ákvæðið um þessa sérstöðu smiðjunnar til þess að fá vinnuna, án tillits til þess, hvort hún er samkeppnisfær eða ekki. Hv. þm. svarar hv. 5. þm. Reykv. því, að þessu verði ekki til að dreifa. En mér svarar hann því, að enginn þurfi að óttast, að smiðjan verði ekki samkeppnisfær. En ef svo er, þá þarf ekki að tryggja hana með sérstöku lagaboði. Ég vona því, að við getum orðið sammála um að lagfæra frv. svo, að smiðjan sé jafnt sett og aðrar stofnanir í þessari grein.