12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í C-deild Alþingistíðinda. (4339)

191. mál, þingsköp Alþingis

Pétur Ottesen:

Hv. þm. G.-K. hefir að mestu leyti tekið það fram, sem ég fann ástæðu til að fara inn á. Ég vildi sérstaklega leggja áherzlu á um afgreiðslu þessa máls, að þess verði freistað að fá sem bezt samkomulag um breytingar á þingsköpum. Mér skilst það hafa ákaflega mikla þýðingu í framtíðinni að fá samkomulag um þau lög, sem báðar þingdeildir og Sþ. eiga að starfa undir. Mér skilst, að það sé dálítill skilsmunur á þessu eða venjulegum málum, sem hér eru afgr., en eiga að afgreiðast undir þessum lögum. Þess vegna er mikils virði, til að undirbúa gott starf í þinginu, og er nauðsynlegt, að þessi lög beri sem minnstan blæ af því, að hér hafi átzt við meiri og minni hl., því þá er hætt við, að endalaust logi í þessum kolum, ef meiri hl. vildi afgr. án tillits til minni hl. Mér skilst, að ef nægur tími er til að bræða sig saman, mætti afgr. þingsköpin með góðu samkomulagi. Annars er hætta á, að þess gætti í starfi við afgreiðslu laga í framtíðinni, svo hætta stafaði af.

Því fremur er ástæða til að leita samkomulags, þar sem á þinginu 1934 var kosin nefnd manna úr öllum flokkum til þess að taka þingsköpin til athugunar, en þessi nefnd hefir, að ég ætla, ekki unnið að undirbúningi þessa frv.

Ég vildi því skjóta til hæstv. forseta, sem er flm. þessa frv., og annara ráðandi manna í stjórnarflokkunum, hvort þeir geti ekki fallizt á að fresta nú endanlegri afgreiðslu þessa máls og láta þessa nefnd taka málið að nýju til meðferðar milli þinga. Ég vildi aðeins skjóta þessu fram, og vildi benda á sem dæmi, að ekki sé allt þrauthugsað sem skyldi, brtt. á þskj. 716, frá hæstv. forseta, er snertir reglur um útvarpsumr. frá Alþingi, þar sem hann leggur til, að niður falli ákvæði í 35. og 37. gr. þingskapa um málfrelsi ráðherra. Er þetta sjálfsögð leiðrétting, því að í útvarpsumr. geta þeir ekki notið ótakmarkaðs málfrelsis. — Annað atriðið í brtt. hæstv. forseta skilst mér, að ekki geti samrýmzt reglunum um útvarpsumr. Það er þar sem segir svo: „Forseti veitir þm. utan flokka, ef sérstaklega stendur á, færi á að eiga þátt í útvarpsumr. að einhverju leyti“. Mér skilst, að í reglunum um útvarpsumr. sé tíminn einskorðaður við flokka, og því sé enginn tími afgangs, nema tekið sé upp í reglurnar eða bætt við tíma, sem verja megi til handa þingmanni eða þingmönnum, sem kunna að vera utanflokka. En eins og

þetta er orðað, er það ósamrýmanlegt reglunum um útvarpsumræður. T. d. er sagt svo um útvarp á frh. 1. umr. fjárl., sem kallað er eldhúsumr., að tíma skuli skipt jafnt milli flokka. Skal ég lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Við framhald 1. umr. fjárlaga mega ræður í fyrstu umferð vara eina stund, en síðan hálfa stund þrjár umferðir, og enn aðrar þrjár stundarfjórðung. Skal þá útvarpi umræðna um fjárlög að fullu lokið“. Eða m. ö. o., innan þessara takmarka er ekki minnzt á annað en að flokkarnir hafi þennan ákveðna tíma. Ég sé því ekki, hvernig utanflokkaþm. getur fengið ræðutíma, nema gengið sé á snið við þau takmörk, sem sett eru um jafnan ræðutíma flokkanna.

Um útvarp á framsöguræðu fjmrh. er gert ráð fyrir hálfrar stundar ræðum af hálfu annara þingflokka, og sést því, að þar er öllum tíma ráðstafað milli flokka og enginn tími ætlaður utanflokkaþingmönnum. — Þetta er aðeins sem bending um, að líka frá þessu sjónarmiði, formsins hlið, geti verið ástæða til þess að slá þessu máli á frest til nánari ath., en aðalatriðið er vitanlega það, að afgreiðsla þessa máls þurfi ekki að bera með sér nein einkenni þess, að þetta sé knúið fram af meiri hl. Alþingis með sérstöku tilliti til þess að gera meiri hl. léttara fyrir um að koma sínum málum fram, og minni hl. geti litið þannig á, að á hans rétt sé gengið. Framhjá þessu skeri álít ég að megi sigla, en eins og komið er, er ekki hægt að gera það, nema lengri frestur fáist til undirbúnings en hægt er að gera ráð fyrir, að geti orðið áður en þessu þingi lýkur. Ég vil því vænta þess, að hæstv. forseti taki þessi ummæli mín til vinsamlegrar athugunar og ræði a. m. k. um það við hina ráðandi þingflokka áður en gengið er frá því og vinni að því, að það verði ekki knúið fram gegn ákveðinni andstöðu nú á þessu þingi.