12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í C-deild Alþingistíðinda. (4341)

191. mál, þingsköp Alþingis

Pétur Ottesen:

Mér skilst, að hæstv. forseti taki á þann veg í þau tilmæli, sem hér hafa verið borin fram, að taka nokkru meiri tíma en þetta þing hefir yfir að ráða til að athuga og undirbúa þetta mál. Ég skildi hann þannig, að hann vildi beita sér fyrir því, þegar þetta mál hefði gengið í gegnum þessa umr. hér í d., að málið væri þá fært yfir á þá braut, sem við höfum bent á og óskað eftir, og kæmi þá ekki frekar til aðgerða þessa þings. Þetta tel ég vera tvímælalaust þá heppilegustu lausn á þessu máli eins og það horfir nú við. Mér þykir vænt um, að hæstv. forseti mun nú hafa gengið inn á þetta, því að það felur vitanlega í sér fulla viðurkenningu frá hans hendi á því, að mikið sé undir því komið fyrir þá, sem stjórna þingfundum, að hafa þar löggjöf að fara eftir, sem afgr. hefir verið án þess að hún hafi á sér einkenni flokkabaráttu á Alþingi. Ég skil þess vegna þá afstöðu, sem hæstv. forseli hefir tekið hér til þessa máls, að hann ætlar að beita sér fyrir því að þessari umr. lokinni, að þessu máli verði skotið á frest og falið þeirri n., sem kosin var í öndverðu til þess að athuga þessi mál, og henni falið að athuga það betur, og sjálfsagt hefði hún þá lokið afgreiðslu málsins svo tímanlega, að það yrði borið fram snemma á næsta þingi.

En út af því, sem hæstv. forseti sagði um aths. mína við brtt. hans við reglurnar um útvarpsumr., að brtt. væri í samræmi við síðustu ákvæði í reglunum um útvarpsumr., að forseti skuli skera úr ágreiningi, þá er þetta viðurkenning hæstv. forseta fyrir því, að ekki sé hægt að koma þessu við öðruvísi en að ganga á svig við ákvæðin um þann heildartíma, sem ætlaður er til útvarps eftir útvarpsreglum þeim, sem nú gilda og samkomulag hefir orðið um. Ég vil benda á, að það getur verið dálítið óheppilegt ákvæði, þó að það geti verið réttmætt í sjálfu sér, að utanflokkamaður fái tækifæri til að láta til sín heyra við slíkar umr. Það gæti orðið óheppilegt fyrir forseta að vera falið að ákveða þá tímalengd, sem þessi utanflokkamaður fengi til ræðuhalds, því að samkv. reglunum er það alveg ákveðið, hvað hver flokkur má verja löngum tíma í þessar ræður, og þeim einum ætlaður allur tíminn. Afstaða þessa utanflokkaþm. gagnvart flokkunum gæti verið þannig, að hann væri ekki alveg hlutlaus gagnvart flokkunum, og þess vegna gæti orðið talsverður vandi fyrir forseta að eiga að úrskurða, hversu langan ræðutíma slíkur maður mætti hafa. Ég gæti trúað, að það væri betra fyrir forseta í hvert skipti að vera laus við að bera ábyrgð á þeim tíma, sem slíkum manni yrði úthlutað. Þess vegna tel ég, að ef á annað borð er gengið inn á að úthluta utanflokkamanni ræðutíma við útvarpsumr., þá ætti hann að vera alveg einskorðaður í þessum reglum, alveg eins og nú er um tíma hvers flokks. En þar sem hæstv. forseti hefir nú tekið vel í að láta málið fá frekari athugun, þá kemur þetta þar einnig til athugunar ásamt öðrum atriðum frv., áður en það verður gert að l. — Mér þykir því, eftir því sem um er að ræða, góð úrslit þessa máls, ef málinu verður nú skotið á frest til nánari athugunar og látið niður falla að ganga frá því þangað til á næsta þingi. Mér skilst, að málið gæti þá komið fram strax á öndverðu næsta þingi, og tækist samkomulag um málið í n. milli þinga, gæti málið fengið fljóta afgreiðslu, og þá jafnvel hlotið staðfestingu undir eins og frá því hefði verið gengið, og þyrfti því í sjálfu sér ekki að vera nema tiltölulega lítill frestur á því, að Alþingi starfaði undir því nýja fyrirkomulagi, sem breyt. á þessum l. kæmi til með að fela í sér.