12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í C-deild Alþingistíðinda. (4342)

191. mál, þingsköp Alþingis

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Eins og hv. þm. Snæf. tók fram hér fyrir nokkru síðan, þegar þetta mál var hér fyrst til umr., þá vildi ekki svo vel til, að þetta mál fengi athugun í allshn., þar sem hv. form. n. heimtaði, að það yrði afgr. frá n. án þess að það væri lesið saman og án þess að það væri rætt, hvorki almennt eða einstök atriði þess. Það er því ekki við því að búast, að frá þeirri hlið hafi fengizt samkomulag um þetta mál. Sú dagskrá, sem hér hefir verið borin fram, hefir því fullan rétt á sér, þrátt fyrir það, að allshn. gæti ekki komizt að niðurstöðu um málið, þar sem ekki fékkst um það rætt.

Þau ummæli, sem hæstv. forsrh. lét falla hér á dögunum um það, að ekki væri hægt að búast við neinum árangri frá þeim mönnum, sem sérstaklega voru nefndir af flokkunum til þess að ræða um málið, þar sem allshn. hefði ekki getað komizt að samkomulagi, og samskonar orð koma frá hæstv. forseta einnig hér um daginn, eru því byggð á röngum forsendum, því að allshn. hefir enga tilraun gert til þess að komast að samkomulagi um þetta mál. Þess vegna er af þeirri ástæðu ekki útilokað, að samkomulag geti fengizt, enda sé ég ekki, að neitt væri því til fyrirstöðu, að hægt væri að ná samkomulagi um ýms atriði í málinu, vitanlega þó að því atriði undanskildu, sem auðsjáanlega brýtur í bág við stjórnarskrána. Og þótt hv. 3. þm. Reykv. hafi tekið þar allt fram, sem þurfti að taka fram að mínu áliti til þess að sannfæra hvern mann, sem á hlýddi, um það, að í frv. eru ákvæði, sem brjóta í bág við stjskr., þá vil ég þó að nokkru leyti endurtaka og undirstrika það, sem hann sagði um það atriði. Það er eins og menn vita, að engin þau lagafyrirmæli, sem fara í bág við stjskr., geta haft nokkurt gildi, og þó að slík l. séu samþ., þá eru þau þýðingarlaus og marklaus gagnvart því, sem lagabókstafnum er ætlað að koma að gagni. Væri stöðugt hægt að leggja undir dómstólana, hvort lagafyrirmæli brjóta í bág við stjskr., og fá þannig vernd gegn löggjafanum, ef svo vildi til, að löggjafinn færi út fyrir ramma stjskr. — Ég vil nú benda á það, sem stendur í 40. grein stjskr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar Alþingi skipar eina málstofu, þarf meira en helmingur þingmanna úr hvorri þingdeild að vera á fundi.“

Þetta getur ekki misskilizt. Það er t. d. ekki nóg, að á fundi í Sþ. mæti 8 menn úr Ed., því að það er ekki meira en helmingur. Það verða a. m. k. að vera 9 menn úr Ed. á fundi og a. m. k. 17 menn úr Nd. til þess að hægt sé að gera lögmæta ályktun um mál. Þetta er ákvæði stjskr., hvort sem það er heppilegt eða skynsamlegt. Þetta eru orð, sem stjskr.gjafinn hefir að yfirlögðu ráði haft, þegar hann stílaði 40. gr. stjskr. Og það er engin tilviljun, að þetta er sett, því að það lá vitanlega miklu nær að ákveða þetta eins og það er í deildunum, að það yrði meira en helmingur þm. að vera á fundi í Sþ. til þess að hægt væri að gera löglegar samþykktir. Það er því af ráðnum hug, að þetta er sett í gr. — Hinsvegar stendur í 10. gr.: „Þá er Alþingi, sem nú segir, skipar eina málstofu, þarf, til þess að gerð verði fullnaðarályktun um mál, meira en helmingur þingmanna að vera á fundi og eiga þátt í atkvæðagreiðslu“. Þessi ummæli þingskapa brjóta ekki að því leyti í bága við stjskr., að þetta getur farið saman við það, að meira en helmingur úr hvorri þd. sé á fundi. En ef 10. gr. á að takmarka 40. gr. stjskr., þá er þetta ógilt, því að þá mundi eftir 10. gr. frv. og 26. gr. þingskapa vera hægt að gera ályktun í Sþ., þó að enginn væri þar úr Ed., ef aðeins væru þar nógu margir úr Nd. til þess að mynda meiri hl. alls þingheims. En slíkt getur ekki átt sér stað, því að það brýtur í bága við 40. gr. stjskr., og því mundu þær ályktanir, sem gerðar væru á slíkum fundi, vera ógildar. Það væri því vitanlega misskilningur að setja slíkt ákvæði, því að hvað sem þingsköpin í þessu tilliti segðu, þá hefði það ekkert að segja, þegar það gengi á móti stjskr. Þær ályktanir, sem þannig væru gerðar, mundu því ekkert gildi hafa, og enginn dómstóll gæti tekið tillit til þeirra. Því væri vitleysa að leggja áherzlu á að fá slíka gr. samþ. óbreytta. — Ég hygg, að ekki geti verið ágreiningur um þetta atriði, því að að þessu leyti er 40. gr. stjskr. alveg skýlaus, og það er ekki hægt að lesa neitt annað í málið en þar stendur.

Og svo er hitt atriðið, sem bæði hæstv. forseti og hv. 1. landsk. hafa verið að tala um, og að nokkru leyti hv. 2. landsk., að það, að vera staddur á fundi, en greiða ekki atkv., megi skiljast þannig, að þeir menn, sem þannig er ástatt um, geti talizt með meiri hl. Ég get ekki séð, hvernig á að fá þetta út úr 40. og 48. gr. stjskr., því að hvað sem hv. 1. landsk. segir um það, hvernig þessi atriði hafi verið skilin og „praktiseruð“ í Danmörku, þá skiptir það engu máli, þegar dæma skal um það, hvort sá skilningur brjóti í bága við skýlaus ákvæði stjskr. Það bætir engan veginn úr skák, þó að Alþingi fari með almennum l. að koma sér saman um einhvern skilning á gr. stjskr, ef hann brýtur alveg í bága við hrein og bein ákvæði stjskr. Það eru 2 gr. í stjskr., sem fjalla um þetta mái, og eru þær orðaðar á nokkuð mismunandi hátt. Önnur þeirra er 48. gr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvorug þingdeildin getur gert samþ. um mál, nema meira en helmingur þingdeildarmanna sé á fundi og greiði þar atkvæði“.

Eins og þessi orð eru skilin í venjulegu máli, þá er ekki hægt að leggja aðra meiningu í þetta en þá, að þm. taki þátt í atkvgr. með því að rétta upp hendina, eða þá segja já eða nei, þegar nafnakall er. En það er vitanlegt, að það verður að skilja bæði 40. og 48. gr. stjskr. á sama veg. Og mér skilst, að þótt hæstv. forseti og hv. 1. landsk. hafi sínu máli til stuðnings lagt meira upp úr 40. gr. en 48. gr., þá finnst mér þeir ekki lesa þar nógu langt til þess að fá þennan skilning úr gr., sem þeir vilja vera láta. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar Alþingi skipar eina málstofu, þarf meira en helmingur þingmanna úr hvorri þingdeild að vera á fundi og eiga þátt í atkvæðagreiðslu til þess að fullnaðarsamþykkt verði lögð á mál“. Þarna er það, sem ég minntist á áðan, að til þess að Sþ. sé ályktunarfært, —það er fyrra skilyrðið, og hitt skilyrðið er að eiga þátt í atkvgr. Nú vill hv. 1. landsk. segja, að það, að eiga þátt í atkvgr., sé aðeins það, að vera á fundi. En ef lesið er lengra, þá stendur þar: „Ræður þá atkvæðafjöldi úrslitum“. — Í 3. mgr. 40. gr. stendur, að þegar Alþingi skipar eina málstofu, þurfi meira en helmingur þingm. úr hvorri deild að vera á fundi og eiga þátt í atkvgr. til þess að fullnaðarsamþykkt verði lögð á mál, og ræður þá atkvæðafjöldi úrslitum um einstök málsatriði. 48. gr. er jafnótvíræð um þetta efni að því er deildirnar snertir: Meira en helmingur þingdeildarmanna verður að vera á fundi og greiða þar atkvæði. En „atkvæðafjöldi“ getur ekki komið fram, ef atkvæði eru ekki greidd. Áframhald 3. mgr. í 40. gr. er svo: „En eigi ná þó lagafrv., önnur en frv. til fjárlaga og fjáraukalaga, fullnaðarsamþykki, nema tveir þriðjungar þeirra atkv., sem greidd eru. séu með þeim“. Þarna er þetta tekið „pósitívt“ fram. Og þetta er ekkert undantekningaratriði. Forseti hefir skilið þetta á sama hátt og tekið það upp, en hann gerir þó greinarmun á því, hvort um er að ræða samþykkt þáltill. í Sþ. eða lagafrv., sem ekki hafa náð samþykki beggja deilda. Ég skil ekki ástæður hans fyrir því að gera þar upp á milli.

Ég held, að meiri hl. sé engu bættari, þótt hann fengi þetta frv. samþ. Þeir, sem þyrftu að leita réttar síns vegna fyrirmæla, sem samþ. verða eftir þessum reglum, myndu leita til dómstólanna, og ég er þess fullviss, að dómstólarnir myndu ógilda slík lög. Meiri hl. er engu nær þótt hann geti samþ. löggjöf, sem siðar verður metin ógild. Því verður það heppilegast og sæmilegast að afgr. þetta mál með samkomulagi milli flokkanna. En Sjálfstæðisfl. getur ekki samþ. lög, sem ótvírætt ganga í bága við stjórnarskrána.