03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í C-deild Alþingistíðinda. (4368)

195. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Flm. (Bjarni Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það voru aðeins nokkur orð til að svara þessum tveimur hv. þm., sem staðið hafa hér upp. — Hv. þm. V.-Húnv. minntist á það, hvort ekki gæti verið hugsanlegt í þessu sambandi að taka upp samvinnu við aðrar þjóðir, sem þyrftu á áburði að halda, t. d. Danmörku, og framleiðslan væri miðuð við það magn, sem hægt væri að selja innanlands og utan. Mér er kunnugt um, að þetta hefir sérstaklega verið athugað í sambandi við samvinnufélögin dönsku. Eins og hv. þm. sjálfur drap á, eru svo sterk samtök á þessu sviði erlendis, að engar líkur eru til, að þessir Norðurálfuhringar mundu sleppa nokkrum keppinautum inn á markaðinn. Af þeim mörgu, sem mál þetta var talfært við, og því áliti, sem þeir hafa látið uppi, var talið varhugavert að byggja nokkuð á því, að hægt væri að flytja nokkuð til annara Evrópuþjóða. Hinsvegar er umhugsunarvert, hvort ekki væri hægt að flytja til Ameríku áburð í skiptum fyrir korn; en á þessu stigi málsins þótti ekki rétt að byggja áburðarverksmiðjuna á því, að hægt væri að selja svo og svo mikið til útlanda, heldur þótti rétt að sníða sér stakk eftir vexti og miða við þann vissa markað, sem fyrir hendi er hjá okkur sjálfum, því að það er sýnt, að ef þetta gefst vel og markaður opnast, þá er hægt að auka framleiðsluna.

Þá voru hv. þm. að finna að því, að sú skýrsla, sem liggur fyrir frá verkfræðingnum, hefði ekki verið prentuð og verið látin fylgja frv. Þetta er svo langt mál, að okkur virtist það ekki hægt að láta það fylgja með í grg. frv. Hinsvegar er svo ráð fyrir gert, að þeir hv. þm., sem hafa áhuga á því að kynna sér þetta mál sérstaklega, geti skipt milli sín þessum skjölum, sem hér liggja fyrir. Ég held, að það sé annað eintak til af þeim. Ég fékk þetta ekki fyrr en nú fyrir skömmu, eftir að ég flutti frv., og gat því ekki látið það fylgja, enda hefði það tekið langan tíma að prenta það. En sem sagt, skjölin liggja hér fyrir, frjáls öllum þm. til afnota.

Þá kem ég að hv. 7. landsk. Hann hreyfði aths. um málið. Hann spurði, hvernig við hefðum hugsað okkur að afla fjár til fyrirtækisins.

Ég hefi það fyrir satt, frá þeim, sem hafa kynnt sér þetta mál sérstaklega, að það muni vera vissa fyrir, að hægt væri að fá lán til fyrirtækisins á grundvelli þeirra rannsókna, sem þegar hafa verið gerðar og fyrir liggja. En ég hugsa mér, að þetta verði ríkisfyrirtæki og að ríkið taki lán til starfrækslunnar. Það mætti e. t. v. segja, að réttara væri, að tryggt hefði verið fé til þessa fyrirtækis áður en farið var að gefa slíka heimild, en ég álít, að það komi í sama stað niður, hvort heimildin er gefin fyrirfram eða eftir á. Það, sem mælir með því, einmitt ef ákveðið verður að ráðast í þetta fyrirtæki, er, að þá er frekar þörf að herða á því, að fyrirtækið geti komizt upp, en það tekur sextán mánuði að reisa verksmiðjuna. (JS: Er það tekið erlendis, þetta lán?). Við höfum hugsað okkur að taka það erlendis að mestu leyti, að öðru leyti en því, að gert er ráð fyrir, að byggingin standi hér skammt fyrir innan miðbæinn, á svokölluðum Iðunnarlóðum, og að þær lóðir verði keyptar með áhvílandi skuldum; gæti það þá reiknazt sem innlent framlag, sem ekki þyrfti að taka lán fyrir. Ef þessi heimild verður samþ. á þessu þingi, væri hægt að fara að vinna að þessu í vetur, og gæti þá fyrirtækið verið komið á laggirnar, fullbúið til starfrækslunnar um það leyti, sem Sogsvirkjuninni verður lokið og nægilegt rafmagn til rekstrarins er fyrir hendi.