03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (4369)

195. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég var ekki allskostar ánægður með þær upplýsingar, sem hv. frsm. gaf. Ég skil ekki, að þær skýrslur, sem fyrir liggja í þessu máli, séu svo umfangsmiklar, að ekki sé hægt að prenta þær. En þó að skýrslurnar séu svo umfangsmiklar eins og hv. þm. vill vera láta, þá ætlar hann samt öllum þm. að nota þetta eina eintak til þess að kynna sér málið. Ef málið er svo margbrotið, að ekki eru tiltök á að prenta skýrslur um það með þingtíðindunum, þá vil ég spyrja, hvernig öllum ætti að vera kleift að nota þetta eina eintak. Það er engin ástæða til þess að láta það undir höfuð leggjast að koma þessum skýrslum fyrir sjónir manna, nema þá að hv. flm. vilji ekki láta þær koma fyrir almenningssjónir. Það getur alls ekki verið skaðlegt fyrir málið, að það sé athugað. Ég verð að halda fast við þá skoðun mína, að það sé skylt að láta þær koma fyrir almenningssjónir.

Ég get minnzt á það, að mér virðist, að það hafi ekki verið nægilega athugað, hvort sá kalksandur, sem til er í landinu, sé það mikill, að engin ástæða sé til að óttast um að þurrð verði á honum. Því hefir verið haldið fram, að þar væri um nokkurnveginn óþrotlega námu að ræða. En mér er ekki kunnugt um það, að athugun hafi farið fram á því, hvað birgðirnar eru miklar, eða hvort þær eru allar jafngóðar. Ég óska sérstaklega eftir að fá upplýsingar um þetta í hendur, og fá aðgang að skýrslum þeim, sem til eru um þetta, svo að ég geti fengið upplýsingar um þetta út frá þeim rannsóknum, sem farið hafa fram.

Ég viðurkenni réttmæti þessa máls, og það myndi ekkert gleðja mig meira en ef hægt væri að fullnægja eftirspurn landsmanna að því er þessa vöru snertir, og bæta þannig viðskipti okkar við aðrar þjóðir, ef það nú líka væri hægt að flytja eitthvað út. Við megum engu tækifæri sleppa til þess að reyna að bæta viðskipti okkar við aðrar þjóðir.

Þá hefir það komið fram, sem ég bjóst við, að örðugleikar væru á því að ná í þessi viðskipti, vegna baráttunnar um markaðinn. Ýms félög eru búin að koma sér saman um hann og skipta honum á milli sín, án nokkurs ófriðar sín á milli. Mér er því spurn, hvort ekki myndi vera ástæða til þess fyrir okkur að óttast um það, að erfitt væri að fá markað fyrir framleiðslu okkar, og að þau félög eða þær verksmiðjur, sem nú selja hingað áburð, myndu hafa horn í síðu okkar, ef við færum að setja upp slíka verksmiðju. Ég get ekki séð mikinn mun á því, hvort eitt land gerir þetta eða tvö lönd í samvinnu á þann hátt, að það sé til hagnaðar fyrir bæði og að verksmiðjan fullnægi þörfum beggja landanna, þó að það væri ekki nema annað landið, sem tæki beinan þátt í stofnun og rekstri hennar, en hitt yrði kaupandi og tryggði þannig verzlun sína við þetta ríki. Danir eiga örðugt með að standa jafnfætis okkur í viðskiptunum milli þessara tveggja þjóða, því við kaupum svo miklu meira af þeim. Danir hafa ekki getað aukið kaup sín frá Íslandi að neinu verulegu leyti, þó að ætla megi, að þeir hafi fullan vilja á að taka vörur frá okkur, jafnvel þó að það séu transítvörur eða vörur, sem þeir verða að flytja út aftur. Ég hefði gjarnan í gegnum þessa rannsókn viljað kynnast þessu eins og öðru viðvíkjandi málinu.

Ég vil svo undirstrika það enn einu sinni, að ég vænti þess, að álit þetta fái að koma fyrir almenningssjónir og verði prentað með áliti n., því það er ekki vansalaust, að fyrir svona stóru máli komi aðeins grg., þar sem drepið er á nokkra punkta, án þess að rökstyðja það, sem fram er talið.