03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (4370)

195. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég vil þakka hv. frsm. fyrir svör hans, þar sem hann lýsti því yfir, að meiningin væri að fá fé til þessa fyrirtækis að mestu leyti erlendis, og að það myndi vera tryggt, að það fengist. Og upphæðin, sem gert er ráð fyrir að taka að láni, mun nema 11/2 millj. kr. Nú get ég ekki látið vera, þegar ég hefi fengið þessar upplýsingar, að minnast á annað fyrirtæki, sem ég hefi haft nokkur kynni af, en það er hafnargerð á Sauðárkróki. Það lá fyrir í haust tilboð frá þekktu verkfræðingafélagi í þetta fyrirtæki, en það gerði þá kröfu, að það fengist ríkisábyrgð fyrir 270 þús. kr., ef það tæki verkið að sér. Það fóru því sendimenn frá Sauðárkróki á fund ríkisstj. og óskuðu eftir, að hægt væri að fá samþykki ríkisstj. til þess að ábyrgjast greiðsluna til þessa verkfræðingafélags. En þess var enginn kostur. Og mér skildist það á nefndarmönnunum, að stj. hefði lýst því yfir, að hún gæti ekki gengið í ábyrgð fyrir neinu erlendu láni. Bæði ég og aðrir tóku þetta gott og gilt og töldu, að þetta myndi rétt vera. En nú fæ ég þær upplýsingar, að þó að ríkisstj. hafi neitað að ganga þarna í ábyrgð fyrir tiltölulega lítilli upphæð, þá ætli hún sér nú að taka lán, sem nemur 11/2 millj. kr. Ég vil nú fá upplýsingar um það, hvernig á þessu stendur. Annaðhvort hafa sendimennirnir, sem komu hingað í góðri trú, verið hlekktir, eða verið er að fara með blekkingar að því er þessa lántöku snertir, og að stj. sjái sér í rann og veru ekki fært að taka þessa 11/2 millj. kr. að láni. Ef stj. getur ekki gengið í ábyrgð fyrir 270 þús. kr. handa stóru og þörfu mannvirki, þá ætti hún ekki frekar að geta tekið erlent lán, sem nemur 11/2 millj. kr. Ég vildi fá upplýsingar um þetta frá hæstv. fjmrh., því mér hefir heyrzt hann lýsa því yfir, að ekki væri hægt að taka lán.