18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (4385)

197. mál, fóðurtryggingarsjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég þarf ekki miklu að svara, en þó aðeins hv. 7. landsk. Fyrst og fremst vil ég taka það fram, að við 2 flm. frv. erum úr landbn., og þar sem sagt er í nál., að n. hafi ekki unnizt tími til þess að fara yfir það í einstökum atriðum, þá er það meint þannig, að það hafi ekki verið gert á sameiginlegum fundi að lesa það lið fyrir lið og gagnrýna það. Það liggur í hlutarins eðli með okkur tvo, að við höfum farið oft yfir það, áður en við lögðum það fram, og í öðru lagi hefðu hinir nm. ekki skrifað undir nál., hefðu þeir ekki verið búnir að kynna sér það og ræða það okkar á milli, þótt ekki væri það á formlegum fundi. Það hefir verið bent á, að þetta mætti bíða þangað til á þinginu, sem kemur saman eftir áramótin, því að þá yrði hægt að taka það fyrir á sýslufundum áður. En í því sambandi vil ég benda á, að fyrstu sýslufundirnir eru haldnir um miðjan febrúar og svo fram í maí. Verði því ekkert gert í málinu nú, þá er fyrirsjáanlegt, að það dragist um eitt ár, að nokkuð verði gert í því. En verði þessi l. samþ. á þinginu nú, þá verður stj. um þessi áramót að semja reglugerð, eins og gert er ráð fyrir, og tilkynna sýslun., hve miklu þær geti átt von á. Ef þetta nær ekki fram að ganga fyrr en á næsta þingi, þá verður afleiðingin sú, að þessum framkvæmdum verður að fresta um eitt ár, því að ef þetta kæmi fyrir næsta þing, gengju l. ekki í gildi fyrr en eftir að þingi væri slitið, og þá væru sýslufundir yfirleitt búnir, nema e. t. v. í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Austur-Skaftafellssýslu. Nú veit ég, að bæði þessi hv. þm. og þm. A.- Húnv. vilja þessu máli vel, og ég veit, að báðir vilja, að málið komi sem fyrst til framkvæmda. Við sjáum, að fóðurbirgðafélögin, sem starfa innan hreppanna, hafa síðustu tvö árin verið í miklum uppgangi, og tel ég það vott um vaxandi skilning bænda á því, að þeir þurfi að hafa varaforða. Ætti þetta því að mælast vel fyrir og verða notað. Hygg ég því rétt, að mál þetta verði afgr. áfram á þessu þingi. Ég tel ekki vafa á því, að landbn. muni fyrir 3. umr. reyna að halda fund um málið og ræða það sameiginlega, sem ekki hefir verið gert, heldur aðeins manna á milli, eins og fram kemur í nál. Ég mæli því með því, að málið verði samþ. á þessu þingi, en ekki látið sofna.