21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í C-deild Alþingistíðinda. (4456)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði núna síðast um það, að ýms ákvæði frv. mundu þurfa endurbóta við, þá vil ég aðeins geta þess, að þar sem ég tók þá afstöðu að leggja til, að málið yrði ekki afgr. öðruvísi en með rökst. dagskrá, þá taldi ég ekki neina ástæðu til þess að gagnrýna einstök atriði frv., enda þótt ég í minni fyrri ræðu benti á nokkur atriði, sem ég álít þörf á að lagfæra.

Það er t. d. að taka þetta yfirlit yfir sjóðina, sem á að semja og gefa út árlega. Mér er það ljóst, eins og hv. 1. þm. Skagf., að það hlýtur að hafa stórkostlegan kostnað í för með sér. Eins og sá hv. þm. skýrði frá, var hætt að birta reikninga þessara sjóða í Stjtíð., af því að það var of kostnaðarsamt. Hvað taka þessir reikningar mikið rúm í Stjtíð.? Það þarf ekki stóran slíkan reikning til þess að hann taki hálfa til heila blaðsíðu í Stjtíð.; sumir þeirra taka kannske meira rúm. Þessir sjóðir eru, eins og kunnugt er, mörg hundruð, þar af um 360 gjafasjóðir, sem fengið hafa konungsstaðfestingu á skipulagsskrá. Svo er hér um ýmsa sjóði að ræða, sem ekki hafa fengið slíka konungsstaðfestingu. Þetta yfirlit verður því mörg hundruð blaðsíðna bók. Og það kostar nú alltaf talsvert mikið að gefa út slíkar bækur; ekki sízt hefir það orðið kostnaðarsamt hjá ríkinu. (Fjmrh.: Kannske mætti semja um þetta ákvæði á milli flokkanna). Já, ég er nú að geta um þetta af því, að svona er þess ákvæði í frv. eins og það nú er. En ég býst ekki við, að hæstv. stj. geri það að fráfararatriði, þó að þessu ákvæði frv. verði breytt. En ég get þessa til þess að benda á, hve lítið hefir verið hugsað um þetta við samningu frv., því að hér er um kostnað að ræða, sem sennilega mundi skipta mörgum þús. kr. á ári, — ég gæti trúað sem svaraði vöxtum af hálfri til heilli millj. kr. á ári. Þetta er ekki lítið fé, sem efalaust mætti verja á heppilegri hátt. (Fjmrh.: Er það ritið?). Þetta er ritið og annar kostnaður allur við þetta eftirlit.

Þetta ákvæði og frv. í heild verður nú sennilega samþ. En mér kæmi þá ekki á óvart, þó að við sæjum það báðir, hæstv. fjmrh. og ég, eftir nokkur ár, að þessi kostnaður verður geipilegur, og að við og aðrir sannfærumst um það þá, að það borgaði sig mörgum sinnum betur, þó að einhver sjóður upp á nokkur hundruð krónur hefði alveg týnzt og glatazt heldur en að setja alla þessa stofnun til þess að leita hann uppi.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að sinn fyrirvari á síðasta þingi hefði stafað af því, að skýrslusöfnun þessu viðvíkjandi hefði þá ekki verið lokið. Hv. þm. Dal. hefir sagt mér, þó ekki hafi verið í þingræðu, að enn mundi alls ekki vera lokið þessari skýrslusöfnun. En það, sem hún hefði sýnt, væri ekkert annað en það, að einhverjir fleiri sjóðir væru til en menn áður vissu um. En skýrslusöfnunin hefir ekki leitt í ljós nein stórkostleg mistök á stjórn sjóðanna.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að n. yrði kannske að ráða sér starfsmann framvegis. Þetta er sem sagt alveg í sömu óvissunni enn eins og það var á síðasta þingi. Og ef hæstv. ráðh. hefir ekki treyst sér til að útbúa löggjöf um þetta fyrir þremur mánuðum, þá ætti hann nú að vera með því að samþ. dagskrártill. minni hl. um að slá samningu þessarar löggjafar á frest, því að aðeins örlítið liggur meira fyrir nú til upplýsinga í málinu heldur en lá fyrir á síðasta þingi. Hinsvegar er líklegt, að ettir 2—3 ár liggi fyrir mjög skýr reynsla um þetta allt saman. Það getur engin hætta verið á því, að þeir sjóðir, sem sæmilega hafa tórt að þessu án eftirlits, fari í hundana á 3—4 næstu árum, þeim tíma, sem þarf til þess að leiða í ljós, hvað gera þarf raunverulega í þessu máli. Hæstv. ráðh. sagðist sjá, að það hafi verið betra að bíða þangað til nú með að setja löggjöf um þetta efni. Ég veit, að hann sér það eftir 2—3 ár, að það hefði verið betra að bíða þangað til með að setja löggjöfina, til þess að láta safnast reynsluþekkingu á því, hvernig bezt er og eðlilegast að haga þessum málum.

Þá er endurgreiðsla kostnaðarins (sbr. 15. gr. frv.). Hæstv. ráðh. sagði, að sparisjóður, sem hann hefði reitt forstöðu, hefði greitt „rigtuglega“ 2—3 kr. vegna þessa eftirlits, og ég trúi hæstv. ráðh. til að segja þetta satt. En einmitt þessar upplýsingar, að þetta gjald sé 2—3 kr. frá litlum sparisjóði, sýna, að ef sjóðurinn borgar ekki, þá eru engin tök á að ná svona lítilli upphæð, því að kostnaðurinn við það mundi miklu meira en gleypa svona litla upphæð. Í landsreikningunum fyrir árið 1925 sé ég, að skýrt er frá, að endurgreiddur hefir verið hluti af kostnaði við eftirlit með bönkum og sparisjóðum, 6060,52 kr., en það ár var sá kostnaður alls 16—17 þús. kr. Ég má segja, að aths. hafa verið hvað eftir annað gerðar um, að þess háttar hefir verið að finna í landsreikn., hverjum eftir annan. En við þeim aths. hafa þau svör komið, að ekki borgaði sig að innheimta þær smáupphæðir, sem mismunur áðurtaldra og samsvarandi upphæða í öðrum landsreikningum samanstanda af.

Aðalatriðið í þessu máli er, hvort löggjöf sú, sem hér er um að ræða, sé nauðsynleg eða ekki. Ég sé ekki mikinn mun á því, hvort sjóðirnir borga sjálfir kostnað við eftirlit með þeim eða ríkissjóður gerir það. Þessir sjóðir eiga allir þarft verk að vinna, og verður því að telja það mjög svo vafasama endurbót að fara að taka frá þeim. Það er ákaflega hætt við því, þó að ég nefndi það ekki í minni fyrri ræðu, að hér sé um bitling að ræða, sem einhver útvalinn þurfamaður stjórnarflokkanna á að fá. Nú sem stendur er ríkissjóður tómur, og því ekkert þar að hafa í bitlinga. Þá er bara að ganga á röðina og byrja á sjóðum þessum. Það má þó alltaf reyta úr þeim handa einum — tveimur — þremur — fjórum — fimm. Þetta er oft og einatt siðurinn, að þegar ekki þykir fært að setja upp á ríkiskostnað ný embætti, þá er rokið í banka eða sjóði til þess að ná í peninga í bitlinga.

Hæstv. fjmrh. hélt ræðu um þetta mál sem mér þótti eftirtektarverð. Hann sagði, að það væri mikið ósamræmi hjá mér í ræðu minni, þar sem ég talaði um, að þessir 3 þingkosnu endurskoðendur gætu innt þetta af hendi, en samt héldi ég, að sjóðaeftirlitið mundi kosta einhver ósköp. Hæstv. ráðh. virtist ekki koma auga á annað en þetta ósamræmi, sem hann áleit vera. Ég hefi ekki komið auga á þetta ósamræmi, sem hæstv. ráðh. talaði um. Frá því fyrsta hefir verið dreginn fjöldi af störfum undir sjóðaeftirlit ríkisins; t. d. er smalað öllum sjóðum, sem hafa konungsstaðfestingu á skipulagsskrá. Svo eiga allar sjálfseignarstofnanir, sem enn eru ekki komnar undir sjóðaeftirlit, að vera teknar með í safnið.

Það fólst í ræðu hæstv. fjmrh., að hann áliti aðaltilgang þessa frv. vera að tryggja, að ríkið hefði eftirlit með því, hvernig lánað væri úr þessum sjóðum. Það á m. ö. o. að taka ráðin og völdin, sem gefendur sjóða hafa ætlað öðrum að hafa yfir þessum sjóðum, og fá þau ríkisvaldinu. Þetta er auðvitað firra, sem ekki á að eiga sér stað, og ég get ekki séð neitt ákvæði í frv. um þetta atriði. (MG: Jú, í 10. gr.). Ég get ekki séð, að hún sé beint um þetta.

En mér skildist á hæstv. fjmrh., að hann ætlaði hreint og beint að ráða, hverjum ætti að lána. Það yrði eftir reglu hæstv. ráðh. ríkið, sem alltaf er í fjárþröng, sem nyti þar þess að fá lán. Ef svo yrði, þá kæmi mér það ekki á óvart, þó að ríkið legði þessa sjóði svo undir sig, eins og það gerði um sáttmálasjóð á sínum tíma. Það tók hann og skammtaði sjálfu sér vextina. Ég held, að hægt sé að verja þessum sjóðum á miklu betri hátt en að sökkva þeim í ríkissjóðinn og ýmsar hans framkvæmdir. Þetta er sjálfsagt meiningin nú; þegar ríkissjóður er í peningavandræðum, þá á líklegast sjóðaeftirlit ríkisins að kúska stjórnir sjóðanna til þess að kalla inn það fé, sem sjóðirnir hafa lánað út, og setja þá í ýms hin dæmalaust leiðinlegu fyrirtæki ríkissjóðs. Hæstv. fjmrh. tók það upp aftur og aftur í ræðu sinni, að það væri ekki aðaltilgangur frv. að tryggja það, að sjóðirnir væru ekki misnotaðir, heldur væri aðaltilgangurinn með því að tryggja það, að þessu fé yrði beint í lán til gagns fyrir þjóðarbúið.

Nú er það svo um fjölda slíkra gjafasjóða, að þeir eru gefnir heima í héraði, og að sjálfsögðu er ætlazt til, að því verði varið til framkvæmda þarfra hluta þar heima í sama héraði, eftir því sem við verður komið. Þeir eru kannske í vörzlum hreppsnefnda, skólanefnda eða annara slíkra heima í héraði, þar sem þeir voru gefnir. En það er nú eitthvað annað en að þessum sjóðum skuli verða varið til lána á því svæði, þar sem þeir hafa verið gefnir, eftir því sem hæstv. ráðh. hefir nú upplýst.

Hér stendur að vísu í 9. gr., að sjóðaeftirlit ríkisins skuli sérstaklega vinna að því, að sjóðir séu ávaxtaðir í öruggustu peningastofnunum og tryggustu verðbréfum. Og ennfremur, að fjmrh. geti sett með reglugerð ákvæði um ávöxtun fjársjóða og sjálfseignarstofnana, sem ræðir um í lögum þessum, er tryggi það, að féð verði ávaxtað í tryggustu peningaatofnunum og verðbréfum. Ég veit nú ekki, hvers vegna þarf að setja upp bákn eins og þetta sjóðaeftirlit, ef fjmrh. á að setja reglugerð um þetta, ef hún getur staðið við hliðina á gjafabréfunum. En það er rétt, eins og hv. 1. þm. Skagf. tók fram, að vilji gefenda þessara sjóða stendur hér ofar öllum lögum sem kynnu að koma í bága við hann. Það er því ekki til nokkurs hlutar að setja slík lög til þess að hnekkja þeim vilja, ef ekki á í þessu efni að traðka réttlætið undir fótum. — Ég er algerlega undrandi á hinni yfirlýstu skoðun hæstv. fjmrh. á þessu frv. Vil ég og fá að vita, hvort frv. er raunverulega borið fram í þeim tilgangi, sem hann gat um, að væri aðaltilgangurinn með því. Ég mundi vera algerlega á móti frv., ef það á að opna leið til þess, að ríkissjóður sölsi undir sig þessa sjóði, þó óbeinlínis verði. Það er alveg vitanlegt, að forráðamenn þessara sjóða eiga algerlega að ráða því, hvernig fé sjóðanna er ráðstafað.