22.03.1935
Efri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í C-deild Alþingistíðinda. (4459)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég gat því miður ekki verið viðstaddur þessar umr. í gær, er hv. 1. þm. Reykv. hélt sína aðra ræðu, en mér er sagt, að hann hafi verið að gagnrýna það, sem ég hélt fram í gær, að tilgangurinn með þessu frv. væri ekki eingöngu sá, að fá betra eftirlit með því, að heiðarlega væri með sjóðina farið, heldur ennfremur að vinna að því að skapa grundvöll fyrir því, hvernig og til hvers fé þessara sjóða verði varið, að því leyti sem það er ekki fastbundið í skipulagsskrám Sjóðanna: Hann hélt því fram, að þetta gæti ekki staðizt, þar sem í frv. væru engin bein fyrirmæli, er fengju eftirlitinu þetta vald. Ég hygg, að þessi hv. þm. hafi misskilið mig. Þó ekki séu í frv. bein ákvæði um það, hvernig eigi að ráðstafa fé þessara sjóða, þá er eftirlitinu gefinn kostur á að hafa áhrif á grundvallarreglur um þetta, m. a. með því, að eftirlitinu er falið að rannsaka það, hvernig fé þessu er nú varið. Auk þess er í 9. gr. frv. skipað fyrir um það, að ráðh. geti sett reglugerð um ávöxtun sjóða á tryggan hátt og á þeim stöðum, þar sem féð gerir mest gagn, vitanlega þó með tilliti til ákvæða skipulagsskránna, því að sjálfsögðu vakir það ekki fyrir mér, að farið verði í bága við þau skilyrði, sem einstakir gefendur hafa sett, heldur er hér meint, að ávaxta skuli féð þar, sem það gerir mest gagn, að svo miklu leyti sem skipulagsskrárnar heimila.

Ég vil taka það fram í sambandi við frv. um vaxtalækkun á fasteignaveðslánum landbúnaðarins, sem allir eru sammála um hér í hv. d., að í því frv. er ákveðið, að árlega skuli verja nokkru af fé opinberra stofnana, sjóða o. fl. til kaupa á jarðræktarbréfum. Sama hugmynd er á bak við þetta frv., og ætti ekki fremur að verða ágreiningur um þessa sjóði, að fé þeirra verði veitt í þá farvegi, þar sem það verður til mestra nytja, bæði með því að skapa fastan grundvöll um kjör á fasteignalánum landbúnaðarins og annara hliðstæðra atvinnugreina, sem kunna að verða settar á stofn, og ýmislegs annars sem heppilegt þykir að hafa féð til. Ég ætla ekki að fara út í smærri atriði þessa máls við þessa umr., því tækifæri til þess gefst sjálfsagt við næstu umr., og mun ég því ekki lengja mál mitt fram úr þessu.