25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í C-deild Alþingistíðinda. (4480)

60. mál, klakstöðvar

Bernharð Stefánsson:

Ég vil ekki hafa á móti því, sem form. landbn. sagði, að hann hefði ekkert á móti því, þó að þetta mál yrði sent fjvn. Það er annars undarlegt, að þetta er annað málið í dag, sem hv. 1. þm. Skagf. heimtar til fjvn., og það af sömu n. — landbn. Það er e. t. v. rétt að taka upp þann sið, að vísa þeim málum, sem baka ríkissjóði útgjöld, til fjvn., en ég vil spyrja hv. þm., hvort fjvn. hafi yfirleitt tekið þá stefnu að heimta öll mál til sín, sem hafa inni að halda fjárhagsatriði. Það eru í Nd. mál, sem mér virðast vera miklu stærri fjárhagsatriði í, en ég hefi ekki heyrt — en það getur raunar verið fyrir því —, að þau mál hafi verið heimtuð til fjvn. Svo vildi ég gjarnan spyrja hv. 1. þm. Skagf., úr því að hann er að gera þessar kröfur fyrir hönd fjvn., hvort hann búist við, að fjvn. hafi tíma til að bæta á sig mjög miklum störfum frá því, sem upphaflega er ætlazt til, að hún inni af hendi. Nú er það svo, að allflest mál hafa inni að halda einhver fjárhagsatriði, og gæti því farið svo, að þau yrðu allflest að athugast í þessari einu n. Ég efast ekki um, að unnið sé af miklum dugnaði í þessari n., en það má sem sagt öllu ofbjóða — líka þreki og dugnaði þessara góðu nefndarmanna.