03.12.1935
Efri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í C-deild Alþingistíðinda. (4491)

60. mál, klakstöðvar

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi taka í sama streng og hv. síðasti ræðumaður um þýðingu þessa frv. Það er lítil byrjun á því að auka klak í landinu og leggja þannig drög til þess, að laxveiði geti orðið stór framleiðslugrein í landinu. Það er álit þeirra manna, sem fást við fiskirannsóknir hér í ám og vötnum, að það séu næstum því ótakmarkaðir möguleikar til þess að auka laxframleiðsluna.

En eins og hv. þm. getur skilið, vil ég ekki bregða fæti fyrir þetta frv., heldur vil ég óska þess, að það verði upphaf að miklu og góðu starfi — að auka að fjölbreytni og verðmæti framleiðslu landsins.

En viðvíkjandi því atriði, að hv. þm. er á annari skoðun en við um það, hvort það sé viðeigandi, að fjvn. sé spurð um útgjöld, sem ekki er hægt að ákveða fyrirfram, þá vil ég taka það fram, að í þessu liggur ekkert vantraust á hæstv. stjórn af okkar hálfu. Hæstv. stj. og fjvn. hafa unnið vel saman að fjármálunum í vetur. En hæstv. stj. óskaði eftir því að fá sem mest ákveðið í fjárl. af því, sem þarf að borga. Þá leiðir líka af því, að þegar koma ótilteknar upphæðir, sem ekki er hægt að sjá, hverjar verða, þá er það í raun og veru í anda þeirrar vinnu, sem framkvæmd hefir verið á síðustu missirum, að miða við fleiri manna ráð. Ég vildi t. d. benda á mjög hliðstætt dæmi, til þess að sýna fram á, að fjvn. gerir hvorki tilraun til þess að stöðva þetta mál né gera óeðlilegar hömlur á framkvæmd þess.

Það liggur fyrir okkur í fjvn., eftir beiðni hæstv. stj., að gera eina vissa ákvörðun í þýðingarmiklu máli, sem snertir kjördæmi hæstv. atvmrh. Um nokkur ár hefir verið heimild í fjárl. til þess að ábyrgjast litla upphæð fyrir síldarverksmiðju á Seyðisfirði. En hæstv. atvmrh. komst að þeirri niðurstöðu, að betra væri að breyta til og nota þessa upphæð á fleiri vegu t. d. til beinaverksmiðju o. fl. Í stað þess að, breyta þessu með lögum hugsar hæstv. ráðh. sér að leggja það fyrir fjvn., og ég efast ekki um, að í n. verði gott samkomulag um þetta og góð samvinna við hæstv. ríkisstj. En ég tek þetta sem bendingu gagnvart ræðu og hugsanagangi hv. síðasta ræðumanns, að þetta er gömul venja, að leita til fjvn. um minni háttar úrskurði viðvíkjandi fjárl. Það er til þess, að fjmrh. hafi fleiri menn með sér, en það er ekki nein efnisbreyting, heldur aðeins formsbreyting. Annars er hér ekki um neitt stórmál að ræða. Þó er að baki þess viss stefna, sem ég held, að allir þingflokkar séu sammála um, og hún er sú, að þegar minna er um peninga heldur en áður, þá eigi að velta þeim nákvæmar fyrir sér heldur en þegar betra er í ári. Ég man það líka, að hv. síðasti ræðumaður tók það fram, að hann áliti, að sú varasemi, sem vekti fyrir okkur í n., sé rétt, að tryggja með þessu, að þingið væri með í ráðum, ef þessar ár yrðu keyptar. Hugsaði hv. þm. sér, að ef saman gengi með kaup á þessum ám, yrði lögð fyrir vetrarþingið lánsheimild í þessu skyni. Með þessu er hv. þm. í raun og veru kominn á okkar skoðun, með að það sé nauðsynlegt að hafa samstarf um slíka hluti milli fjvn. og hæstv. ríkisstj.