21.11.1935
Efri deild: 75. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í C-deild Alþingistíðinda. (4632)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ástæðurnar, sem gegn frv. eru færðar, eru ekki aðrar en þær, sem komu fram í niðurlagsorðum hv. 1. þm. Reykv., að það sé fjarstæða að setja löggjöf, ef engin ástæða er til hennar. En þá er næsta broslegt að sjá svo brtt. þessara manna, eins og frá hv. þm. N.-Ísf., um það, að ráðh. skuli heimilt að banna sölu á almennum skotvopnum handa yngri mönnum en 18 ára. Þeir greiða ekki atkvæði á móti frv. til að fella það, heldur koma með brtt. við það. Hvers vegna gera þeir þetta? Í öðru orðinu segja þeir, að það sé ástæðulaust að setja bannið, en í hinu orðinu segja þeir, að bann eigi að setja við því, að unglingar geti alstaðar keypt vopn, eins og nú á sér stað. Hér sýnir sig, að hv. þm. N.-Ísf. er ljós hættan, sem af þessu stafar, og viðurkennir hana með brtt. sinni. — En jafnframt vil ég spyrja: Er ástæða til að láta misindismenn ná í skotvopn til að verja sig með fyrir lögreglunni, þegar hún er að gæta laga og réttar? Er ástæða að leyfa þeim að fara inn í hverja búð og kaupa skotvopn eftir geðþótta? Og það hefir komið fyrir a. m. k. þrisvar sinnum, að innbrotsþjófar hafi verið vopnaðir skammbyssu, þó að það hafi ennþá ekki komið að sök. Auðvitað myndi mönnum, sem þekktir eru að því að brjótast inn hvað eftir annað, ekki leyft lengur að bera vopn. Og það er fullkomin nauðsyn að hafa löggjöf, sem tekur vopnin úr höndum svona manna, sem bera vopn til að verja sig með fyrir lögreglunni. (MJ: Myndu þeir lýsa yfir því, um leið og þeir keyptu vopnin, til hvers þeir ætluðu að nota þau?). Þetta er ekki annað en útúrsnúningur. Lögreglan hefir skrá yfir marga af þessum mönnum, og þeir fengju vopn ekki keypt. Vitanlega gæti það komið fyrir, að þeir nái ef til vill í vopn á annan hátt, en þeim yrði það þó örðugra. Það er viðurkennt af hverjum sanngjörnum manni, að það sé nauðsynlegt að fyrirbyggja, að menn geti náð í vopn ótakmarkað, og hv. þm. N.-Ísf. hefir líka viðurkennt þetta með þeirri brtt., er hann flytur um að banna unglingum innan átján ára aldurs að kaupa vopn.

Hvað kollumálið snertir, þá er nú lítil ástæða til að vera að rifja það upp við þessar umr. En hv. 1. þm. Reykv. virðist vera farinn að ryðga í þessu máli, því að vitnisburðurinn gekk í rauninni út á að sýna, hvað ég væri mikill skotmaður, en hv. þm. vill nú hafa af mér þann heiður. Eins og menn ef til vill muna, var vitnisburðurinn sá í málinu, að ég hefði tekið byssu af tveimur unglingum, brugðið henni upp, hleypt af og skotið hefði farið gegnum miðja kolluna. En þegar þeir áttu að sverja framburð sinn, var hræðslan þó svo mikil, að þeir fóru fyrst til prestsins og sögðu sig úr þjóðkirkjunni. — Svo var það aftur 1. des., í stormi úti á hafnargarði, að ég átti að hafa skotið. Menn sáu kolluna, hún fór lágt, en ég brá upp byssunni og hún steinlá. Og þeir, sem sóru í málinu, voru þekktir ofbeldismenn, sem höfðu ráðizt á menn á götunum og a. m. k. tvisvar sinnum komizt í hendur lögreglunnar, og hæstiréttur vildi ekki taka framburð þeirra trúanlegan. En það var hægt að rekja feril þessa máls til sjálfstæðismanna, sem stóðu að baki þessum mönnum, enda mistókst þetta hrapallega.