01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (4676)

22. mál, landhelgisgæsla

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, og hefi ég litlu við það að bæta, sem hv. 6. landsk. hefir tekið fram um þetta efni. Fyrirvari okkar stefnir að því, að tryggt verði, að fullkominn árangur náist af þessari mjög svo þörfu rannsókn, sem hér um ræðir, ef einskorðað yrði, að ekki mætti veita einn eyri til þess að leysa starfið af hendi. Vitanlega væri æskilegt að þurfa ekki að baka ríkissjóði útgjöld, sem neinu næmi, með framkvæmd þessarar þáltill., en hér er samt sem áður um svo merkilegt mál að ræða, að í sjálfu sér er ekki í þann lítilfjörlega kostnað horfandi, sem kynni að leiða af því að ganga rækilega frá þessu máli. Sumir þeirra liða, sem hér er um að ræða, kosta ríkissjóð mikið fé í fjárlagafrv. því, sem liggur fyrir þessu þingi. Til landhelgisgæzlu eru ætlaðar 350 þús. kr., og það er nokkurn veginn víst, að sú upphæð er of lítil. 1932 var varið til gæzlunnar 500 þús. kr., 1933 655 þús. kr., og ef halda á úti varðskipunum, má gera ráð fyrir, að útgjöldin nemi um 800 þús. kr. Leitað var til forstjóra þessara stofnana, sem um er að ræða, en svör þeirra voru mjög misjafnlega ýtarleg, og sum voru þannig vaxin, að ekki er beinlínis mikið á þeim að græða. Ég skal taka það fram, að það kom fram hjá forstjóra Fiskifélagsins, að hér væri um svo óskyld mál að ræða, að ekki mætti blanda þeim saman, þ. e. a. s. björgunarmál og landhelgismál, og um 3. lið þáltill. tekur hann það fram, að það séu svo óskyld mál, að það sé vafasamt, hvort þann lið beri að ræða í sambandi við það, sem till. að öðru leyti fjallar um. Það, sem fyrir till. mönnum vakti, var að rannsaka, hvort ekki væri unnt að finna hagkvæmara samband milli þessara starfsgreina en hingað til hefir verið, og ef það mætti finna með starfi nefndarinnar, þá hyggjum við, að ekki sé horfandi í smávegis kostnað í því sambandi.

Annars get ég sætt mig við, að þessi þáltill. verði samþ. með þeirri breyt., sem hefir komið fram á þskj. 262, í því trausti, að hér muni vinnast nokkuð á í þá átt, sem fyrir till. mönnum vakti.