25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (4702)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

hæstv. forsrh. sé bæði skilningslaus og hafi lítið vit, það veit öll þjóðin nú orðið, en að hann sé líku heyrnarlaus. Það hefir hún ekki vitað. Hér er ekki nema um tvennt að ræða, annaðhvort er hæstv. ráðh. algerlega heyrnarlaus eða þá að illgirnin hefir fullkomið tangarhald á honum, ef hann heldur því fram, að ég hafi sagt í ræðu minni, að það væri ekkert við síðari lið þáltill. að gera annað en fella hann og krefjast þess að stjórnin sæi ríkisjóði fyrir tekjum á móti kjötuppbótinni. Ég sagði, að ef hæstv. ríkisstj. fengist ekki til að skera niður útgjöld á fjárl. í þessum tilgangi á réttlátari hátt en hún leggur til í þessari till. sinni, þó yrði beinlínis að fella niður síðari hluta till. Það er engin sanngirni í því, að sá hluti af tekjum tóbakseinkasölunnar, sem á að falla lögum samkvæmt til byggingar- og landnámssjóðs, fari í aðrar bráðabirgðagreiðslur, meðan ekkert er snert við þeim hluta þessara tekna, sem á að renna til verkamannabústaða í kaupstöðum. Um eitt skeið voru þessar tekjur látnar renna beint í ríkissjóð, en ekki til byggingarsjóðanna. Nú hefir þessi skipting verið gerð á tekjunum með sérstökum lögum, og þá á hún að haldast. Ég get því með nákvæmlega sama rétti og hæstv. ráðh. kveðið hér fast að orði. Hann segir, að einungis þann hluta teknanna, sem á að, renna í byggingar- og landnámssjóðs, eigi að taka til uppbótar á kjötverðinu vegna landbúnaðarins, en ég held því fram, að landbúnaðurinn eigi að fá nákvæmlega sinn hluta af tekjum tóbakseinkasölunnar, lögum samkv., á móti því, sem rennur til bústaða í kaupstöðunum. Þess vegna á að taka jafnt af þeim hluta teknanna til að bæta upp kjötverðið eins og tekið er af þeim hluta þeirra, er rennur til byggingar- og landnámssjóðs. — Nú hefir atvinnubótafé, sem aðallega rennur til kaupstaðanna, verið hækkað í fjárl. þessa árs úr 300 þús. upp í 500 þús. kr. Í því efni hirðir hæstv. landbrh. ekki um að vera jafnnákvæmur í skömmtun, þegar um er að ræða aukin fjárframlög til kaupstaðanna, eins og þegar landbúnaðurinn og sveitirnar eiga í hlut.

Í till sínum um framlög úr ríkissjóði til landbúnaðarins, þegar einhver starfsgrein hans verður fyrir sárum, þá sker hæstv. ráðh. bótina af öðrum fætinum til þess að græða sárið á hinum. Þetta er náttúrlega bara tilfærsla úr einum vasanum í annan. Með því að taka af því fé, sem mikil þörf er fyrir í byggingar- og landnámssjóð, og færa það yfir á annað svið landbúnaðarins til uppbótar á kjötverðinu þykist ráðh. vera að létta byrðar landbúnaðarins. Þetta er svo mikill skrípaleikur, að þar er fáu hægt við að jafna. Og þó tekur út yfir allan þennan þjófabálk, þegar hæstv. ráðh. er að hæla sér af þessum afrekum.

Og svo var hæstv. ráðh. að tala um yfirboð frá mér og gerðist svo djarfur að nefna í því sambandi tillögur um vaxtakjör landbúnaðarins. — Það vorum við hv. 2. landsk., sem fluttum á síðasta þingi frv. um lækkun vaxta á fasteignaveðslánum landbúnaðarins; en hæstv. stj. og hennar lið var á ettir okkur með till. sínar í því máli. Það er rétt, að í till. stjórnarliðsins var ekki farið fram á eins mikla lækkun á vöxtunum. En það frv. verður ekki með réttu kallað yfirboð, sem flutt er á undan frv. stjórnarliðsins í þessu máli. Við flm. frv., hv. 2. landsk, og ég, fengum sitt af hverju að heyra í sambandi við þetta mál á síðasta þingi, og þá ekki síður út af frv. því, er við fluttum um nýbýli á síðasta þingi. En hvað skeður svo? Eftir að stjórnarliðið er búið að glósa um þetta frv. okkar sem yfirboð, þá er flutt á þessu þingi að tilhlutun stj. frv. um nýbýli og samvinnubyggðir, þar sem farið er fram á mun hærri fjárframlög úr ríkissjóði til nýbýlastofnana í landinu. Hér er um yfirboð að ræða í frv. hæstv. stj., og það leyfir hún sér að gera af því að hún veit, að þetta mál er vinsælt hjá þjóðinni. Þó er það öllum ljóst, að fjárhagshorfur þjóðarinnar og útlitið um afkomu ríkissjóðs er til muna erfiðara en útlit var fyrir á síðasta þingi. Og svo er hæstv. forsrh. að tala um gapaskapinn í okkur og þau yfirboð, sem við gerum í hverju máli. — Það kenndi heldur mótsagna hjá hæstv. ráðh., þegar hann sagði, að ég vildi ekki skera niður á útgjaldaliðum fjárl., en svo sagði hann aftur síðar, að ég gerði mig sæmilega ánægðan með, að tekið væri um 10% af framlögum til þjóðvega til uppbótar á kjötverðinu. Ég játa fullkomlega, að það er sárt að þurfa að gripa til þessa, og það kemur nokkuð ósanngjarnlega niður á hin ýmsu héruð. — En þegar ósanngirni hæstv. stj. er svo geipileg, að hún vill láta þessa blóðtöku eingöngu bitna á landbúnaðinum, en að engu leyti á öðrum stéttum eða atvinnuvegum, sem þó eiga að bera sameiginlega allar byrðar þjóðfélagsins, þá get ég ekki annað en lýst óánægju yfir till. ríkisstj.