25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (4703)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Til að sýna, hversu mikið innihald er í öllu þessu skrafi hv. þm. V.-Húnv., þarf ég ekki að eyða löngum tíma. Ég skal aðeins benda á nokkur af þeim atriðum, sem hann minntist á í ræðu sinni og bera vott um, að það, sem hann fer venjulega með í þessari hv. þd., er glamur og innantóm orð.

Fyrst gerði hann að umtalsefni vexti af landbúnaðarlánum og sagði, að hann og hv. 2. landsk. hefðu fyrstir komið fram með frv. um lækkun þeirra vaxta á síðasta þingi. Þannig hefði hann rutt fyrstur leiðina, en að stj. og flokkur hennar hefði komið á eftir með frv. um þetta efni.

Til þess að upplýsa málið og sýna fram á sannsögli og heiðarleika þessa hv. þm. í frásögninni, skal ég nú skýra frá því, sem honum var vel kunnugt um, að nokkrum dögum eftir að ég tók við stjórn landbúnaðarmála skipaði ég þriggja manna nefnd til þess að undirbúa og gera till. um vaxtagreiðslur af fasteignaveðslánum bænda. Hv. þm. var mjög vel kunnugt um þennan undirbúning á frv. um lækkun landbúnaðarvaxta, því að einn maður úr nefndinni talaði við hann um það. — Þá brá hv. þm. við til að semja þessa frumvarpsómynd, er hann flutti ásamt hv. 2. landsk. á síðasta þingi, í þeim tilgangi að verða fljótari til með yfirboð sín í því máli. — Þetta er nú sannleikurinn í vaxtamálinu.

Þá er það nýbýlamálið. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefir Framsóknarfl. haft það mál til meðferðar og undirbúnings á síðari árum. Og skömmu eftir að núv. stjórn tók við völdum, síðasti. sumar, var skipuð nefnd, m. a. til þess að undirbúa og semja frv. um nýbýli og samvinnubyggðir á þeim grundvelli, sem Framsfl. hafði lagt í því máli á síðastl. 2—3 árum; enda má segja, að þjóðin hafi beinlínis kallað eftir þessu frv. — Í þessu eftiröpunarfrv. frá Bændafl. er gert ráð fyrir 250 þús. kr. framlagi úr ríkissjóði árlega til nýbýlastofnunar; en í frv. Framsfl. er gert ráð fyrir árlegri fjárveitingu til nýbýla og samvinnubyggða eftir ákvörðun Alþingis. Svo að í þessu efni fer hv. þm. V.-Húnv. með sama slúðrið og glamrið og á öðrum sviðum. Það er annars leitt að eyða tíma þingsins í orðaskipti við mann, sem getur að vísu slíðrað og glamrað á fundum, en hefir aldrei getað rekið nokkurt starf að gagni. Hvar sem hann hefir drepið niður hendi hefir allt farið í handaskolum og lent í óreiðu. Ef hv. þm. kærir sig um það, þá get ég komið inn á þetta nánar við tækifæri. En það hefði sannarlega orðið bág borin eftirtekja fyrir landbúnaðinn, ef unnið hefði verið að málefnum hans eftir anda og háttalagi hv. þm. V.-Húnv.