01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (4709)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Magnús Guðmundsson:

Í till. þeirri frá hæstv. stj., sem hér er til meðferðar, er lagt til, að þau 150 þús. kr. útgjöld, sem ég hygg, að allir séu sammála um, að ríkið verði að taka á sig til greiðslu verðuppbóta á kjöti, verði jöfnuð með því að taka 10% af fé til nýrra akvega, og nemur það ca. 40 þús. kr. Minni hl. fjvn. lítur hinsvegar svo á, að leitt sé að ráðast á þessa fjárveitingu. Telur hann, að varla sé um nokkurn lið að ræða, sem eins óheppilegt sé að ráðast á, þegar litið er á það, að það, sem mest þjakar okkar nú, er atvinnuleysi og skortur á erlendum gjaldeyri til kaupa á erlendu efni. En það er kunnugt, að til vegagerða þarf mjög lítið erlent efni. Hér um bil allur kostnaðurinn er innlend vinna, sem dreifist milli landsmanna um land allt, ef undantekin eru 1 eða 2 sýslufélög, sem urðu útundan á síðasta þingi um framlög til nýrra vega.

Hinsvegar getur minni hl. fallizt á síðari hl. till., um að draga 50 þús. kr. af framlagi til Búnaðarbankans, sem samkv. fjárl. 1935 átti að verja til samvinnubyggða á því ári. Ég er viss um, að aldrei hefði til þess komið, að þetta fé yrði lagt fram, og er því enginn skaði, þótt ákvæðið sé fellt niður.

En til þess að vega upp á móti þessum sparnaði á vegafé, leggjum við til, að fellt verði niður að prenta umræðupart Alþingistíðindanna. Annars lítum við svo á, að stj. hafi fengið fram talsverðan sparnað á ríkisfé með frv. því, sem nú er orðið að 1., um að landbúnaður og sjávarútvegur skuli greiða kostnað við skipulagningu á sölu landbúnaðar- og sjávarafurða. Þessi sparnaður nemur, eftir því sem hæstv. landbrh. sagði í Ed., ca. 100 þús. kr. á ári. En niðurfelling á prentun umræðuparts Alþt. myndi nema um 45 þús. kr. á ári, eða um 90 þús. kr. fyrir árin 1934 og '35. Þó vil ég taka það fram, að ég efast um, að þessi kostnaður yrði svona hár. Og ég tel skylt að benda á, að nokkuð dregst frá þessum sparnaði, með því að rekstrarafgangur Gutenbergsprentsmiðju minnkar, ef þessi prentun verður niður felld. Hversu mikið dregst hér frá, fer auðvitað eftir því, hvort horfið verður að því að hafa umræðupartinn í 1 eða 2 vélrituðum einstökum, eins og till. hafa komið fram um í fjvn.

Ef hætt verður við það í þetta sinn að prenta umræðupartinn, álít ég, að því ætti að halda áfram. Ég hefi áður greitt atkv. með því á þingi, en þá mætti málið mikilli andstöðu. Annars mun ég ekki teygja umr. um þetta mál og læt því hér staðar numið og mun ekki taka aftur til máls nema fram komi andmæli, sem ég tel nauðsyn á að svara.