04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (4887)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Reykv. úr Sjálfstfl. hafa séð ástæðu til þess að bera fram þáltill. út af forstöðu raftækjaeinkasölu ríkisins. Mér skilst till. eiga að vera einskonar dulbúið vantraust á mig fyrir framkvæmd þessa verks, og verð ég að segja, að mér þykir fyrirsögn till. ómyndarlega orðuð. Ég er hissa á því, að þeir, sem að þessu stunda. skyldu ekki hafa mannskap í sér til þess að orða það, sem þeir meintu, og hafa till. þannig, að hún lýsti vantrausti á þeim manni, sem framkvæmdi þetta voðalega hneyksli, að þeirra dómi. Hinsvegar verð ég að segja það, að mér þótti raunverulega nokkurs um það vert að heyra inngang ræðu hv. 3. þm. Reykv., þar sem hann sagði, að núv. ríkisstj. hefði framkvæmt ýmislegt slæmt síðan hún tók við völdum, en þetta væri þó langhneykslanlegast og verst af því öllu saman. Ég verð bara að segja, að ef þetta, sem hér liggur fyrir, er það lakasta, sem núv. stj. hefir framkvæmt, að dómi hv. þm., þá virðist hann ekki hafa mikið út á gerðir stj. að setja, og mun ég sýna fram á það á eftir, hvernig því lakasta er varið, sem stj. hefir gert í augum þessa hv. þm. Hann sagði, að tildrögin til þess, að stofnuð var þessi einkasala, hefðu ekki verið þau, að ríkissjóður ætti að græða á henni, heldur þau, að þurft hefði að bjarga einhverju fyrirtæki, sem „vinir stj.“ eins og hv. þm. orðaði það, hefðu átt og væri að verða gjaldþrota. Ég verð að segja það, að þessi rök hljóma einkennilega í munni þessa hv. þm., þar sem aðalröksemd hans og annara hv. þm., sem mæltu gegn einkasölunni á síðasta þingi og eru andstæðir einkasölum yfirleitt, eru þau, að einkasölur svipti menn atvinnu og gróðamöguleikum. En nú álíta þessir hv. þm., að það sé bjargráð við verzlunareigendur að nota einkasölu til þess að losa þá við verzlunina. Þetta er einkennileg röksemdafærsla og þessum mönnum einum samboðin. Ég man t. d. eftir því, að nýlega var drepið á það annaðhvort í Morgunbl. eða vísi í sambandi við þetta mál, hvað þetta gæti verið harðsnúið, því að þeir menn, sem verzlað hafa með raftæki, hefðu verið ágætir gjaldendur til bæjarins. Þar er það harmað mjög, að þessir góðu gjaldendur geti ekki borgað bæjarfélaginu. En hvernig hafa þessir menn getað orðið góðir gjaldendur, ef það á svo að vera greiði við einstaka menn að taka af þeim þennan möguleika til þess að græða og geta borgað útsvar?

Hvað snertir efnahag þessa fyrirtækis, sem hv. þm. talaði sérstaklega um og taldi vera mjög bágborinn, þá ætla ég ekki að fara langt út í umr. um það atriði að sinni, en ég vil þó geta þess í sambandi við það, sem hv. þm. sagði um efnahag fyrirtækisins, að forstjóri þess hefir farið í mál út af því atriði, og mun upplýsast undir meðferð málsins, hvað satt er í þessu, enda skiptir það ekki miklu máli. Mér var annars ekki vel ljóst það atriði í ræðu hv. þm., í hverju þessi björgun við þetta fyrirtæki átti að vera fólgin, því hefir verið haldið fram utan þings, að þessi björgun væri í því fólgin, að ríkiseinkasalan ætti að kaupa af hinu fyrirtækinu úreltar vörubirgðir, og að forstjóri einkasölunnar, sem líka er forstjóri þessa fyrirtækis, sem á að leggja niður, ætti að semja við sjálfan sig um verð á birgðunum. Í einkasölureglugerðinni er ekki gert ráð fyrir því, að keyptar verði neinar birgðir. (JakM: Ég sagði þetta ekki). Nei, en ég vil bara nota tækifærið til þess að benda á, að þetta atriði, sem er meginárásarefnið á þessa einkasölu utan þings, er rangt. Það er gott, að það upplýsist, því að það er svo fjarstætt, að hv. 3. þm. Reykv. treystir sér jafnvel ekki til þess að halda því fram. Ég vil í þessu sambandi ítreka það, að einkasalan á ekki að kaupa neinar vörubirgðir. Það eina, sem getur komið til mála í þessu efni, er, að hún taki þær birgðir, sem fyrir eru, í umboðssölu, ef um umboðssölulaun semst, og þau verða ákveðin í samráði við fjármálaráðuneytið þá ætti þessi björgun að dómi hv. þm. að vera fólgin í því, að einkasöluforstjórinn gæti, eftir því sem um semst, þvingað viðskiptamennina til þess að kaupa varning frá þessu fyrirtæki, sem nú á að leggja niður. Það leiðir af sjálfu sér, að slíkt er bara endileysa. Það er augljóst mál, að fyrirtæki hljóta á hverjum tíma að hafa á boðstólum þær vörur, sem eru fyllilega samkeppnisfærar við þær vörur, sem hægt er að útvega, og ef einhverjar vörur væru þannig gerðar, að þær væru ekki samkeppnisfærar, þá mundu viðskiptamennirnir alls ekki kaupa slíkar vörur; en ef það væru svo miklar nauðsynjavörur, að ekki væri hægt að komast af án þeirra, þá yrði vitanlega að flytja aðrar vörur inn. Það, sem hv. þm. sagði í þessu sambandi, er því ekkert annað en rangfærslur og getsakir einar.

Þá breiddi hv. þm. sig allmjög út yfir það, að það væri stærsta hneykslið í þessu máli, að forstöðumanni raftækjaverzlunar hefði verið falin forstaða fyrir hinni væntanlegu raftækjaverzlun ríkisins. Ég skil hreint og beint ekki hugsanaganginn í þessu hjá hv. þm., því að ég hefði haldið, að það væru frekar meðmæli með manni til þess að veita forstöðu þessu væntanlega ríkisfyrirtæki, að hann hefði starfað að verzlun í sömu grein áður. Og það var einmitt það, sem réði mestu um val þessa manns til þess að veita fyrirtæki þessu forstöðu, að hann hafði sérþekkingu á verzlun einmitt í þessari grein, því að stj. vildi ekki fara að leggja í þann kostnað, að hafa sérstakan forstjóra fyrir heildverzlun þessari. Að það varð forstjóri tóbakseinkasölunnar, sem endanlegu varð fyrir valinu, var því tilviljun ein.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að minna á það, að 1932 var nákvæmlega leikinn sami skollaleikurinn og nú. Þessi sami maður, sem nú er ráðizt á, hafði þá veitt forstöðu stærstu tóbaksverzlun þessa lands, en var þá falin forstaða, tóbakseinkasölunnar. Sjálfstfl. gagnrýndi þetta mjög, sagði t. d. eins og nú, að maður þessi myndi kaupa svo og svo mikið af sjálfum sér. Að sjálfsögðu féll þetta allt niður, alveg eins og til þess var stofnað. Að ég nefni þetta nú, er til þess að sýna fram á, að það er ekkert einsdæmi, sem stj. hefir gert nú. Það hefir verið gert áður, að reyna að velja forstöðumenn fyrir ríkisfyrirtæki, sem hefðu sérþekkingu á því, sem verzla á með. Að halda því fram, að það geri menn ómögulega til þess að standa fyrir fyrirtækjum, að þeir hafi veitt samskonar fyrirtækjum forstöðu áður, er beinlínis andstætt heilbrigðri skynsemi. Þetta, sem ég nú hefi tekið fram, get ég látið nægja sem svar gegn því í ræðu hv. þm., sem laut að vali forstöðumann, fyrirtækisins. En í ræðu sinni vék hv. þm. að ýmsum atriðum, sem snertu einkasöluna sjálfa, er ég skal þessu næst víkja að. Hann sagði m. a., hv. þm., að með þessari einkasölu væri verið að setja inn sérstakan millilið. Ég gæti skilið, að hv. þm. héldi þessu fram, ef engar heildsöluverzlanir væru til í þessari grein, en það er ekki alveg því að heilsa, þar sem þar eru a. m. k. þrjár fyrir.

Þá minntist hv. þm. á, að borizt hefðu mótmæli gegn þessari ráðstöfun minni á hinni væntanlegu raftækjaverzlun. Þetta er rétt. Mér hafa borizt bréf frá stj. rafvirkjafélagsins og frá stj. rafvirkjameistarafélagsins. Í bréfum þessum er verið með hinar sömu dylgjur út af vali forstöðumannsins og hv. þm. hefir verið með nú, og sömu dylgjurnar í garð hans sjálfs.

Það, sem mér virtist þessir iðnaðarmenn finna mest að, var það, að álagningin á vörurnar gæti orðið svo gífurlega há. Út af þessu vil ég benda á, að álagningu er ákveðin mjög mismunandi, frá 5—75%. Það er vitanlega ekki hægt að selja inn í reglugerðina ákvæði um vissa álagningu á hvern hlut, þar sem vitað er, að hlutir þeir, sem verzlað er með, eru mjög misjafnir. Með þessum umkvörtunum er líka verið að gefa í skyn, að einkasalan muni verða mjög dýrseld, en vitanlega eru allar slíkar tilgátur út í loftið og hafa við engin rök að styðjast.

Ég mun hafa gleymt að minnast á eitt atriði, sem kom fram áðan í ræðu hv. þm. og snerti forstöðu verzlunarinnar. Hann var eitthvað að hafa á því, að ef til vill myndi raftækjaverzlun Íslands halda áfram að reka smásölu og verzla við hina nýju einkasölu. Hvað hv. þm. á við með þessu, vildi ég gjarnan fá upplýst.

Ég tel mig nú hafa svarað þeim atriðum, sem hv. 3. þm. Reykv. beindi til mín og þáltill. fjallar um, og tel mig jafnframt hafa sýnt fram á, að ásökunarefnin hafi við engin rök að styðjast.