04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (4895)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég ætla eins og sá hv. þm., sem síðast tók til máls, aðeins að segja fá orð, af því að ég er honum samdóma um það, að greiða þurfi fyrir ýmsum fleiri málum, sem hér eru.

Ég ætla samt sem áður að segja lítið eitt um það, að þeir, sem halda því fram, að það hafi jafnvel verið eldri samningar um það, að Sigurður Jónasson tæki þetta að sér, og að það hafi verið í ráði, þegar löggjöfin var sett, að þeim skjátlast. Mér er kunnugt um, að þegar stj. fór fram á það við Sigurð, að hann tæki þetta að sér, þá var hann ófús til þess og vildi heldur vera laus við það, þar sem þetta legði á hann mikla vinnu. Þessi einkasala var sett á bókstaflega vegna kreppunnar, til þess að afla ríkissjóði tekna. En um leið eru ekki aðeins andstæðingar stj., heldur líka stuðningsmenn fýsandi þess, að þegar svona fyrirtæki er stofnað, sé ekki bætt við neinum óþarfa kostnaði, og með þessu móti, sem undirbúið er í sjálfu frv., hverfur alveg forstjórakostnaðurinn. Þetta er í samræmi við það, sem launamálanefndin leggur til, þar sem hún hugsar sér, að hin mörgu einkasölufyrirtæki landsins séu sameinuð undir einn mann. Ég gæti trúað því, að sumir, sem hafa hallmælt þessari ráðstöfun, hefðu máske tekið jafnhátt undir það, ef ráðinn hefði verið maður með 24 þús. kr. launum, eins og hver forstjóri hefir hjá fisksölusamlaginu. (JakM: Hvernig er það í Sambandinu?). Þar hefir enginn 24 þús. kr. laun, en það er líka lífseigara heldur en fisksölusamlagið, þar sem hver situr á svikráðum við annan og svara ekki bréfum, af því þeir trúa ekki hver öðrum til neinna góðra hluta. — Það er þess vegna áreiðanlega í þökk allra sæmilegra borgara landsins, að þessi ráðstöfun var gerð með þeirri ráðdeild, að fenginn var til yfirstjórnar þessa fyrirtækis einn af duglegustu „business“-mönnum þessa bæjar, og það án sérstakrar borgunar.

Hv. 2. landsk. hefir sýnt fram á, að það hefir með miklum drengskap verið stofnað til undirbúnings Sogsvirkjunarinnar einmitt af þeim mönnum, sem að þessu fyrirtæki hafa staðið. Og það er rétt að taka það fram, að það er enginn maður á landinu, sem hefir gert svipað eins mikið og Sigurður Jónasson til þess að hrind. Sogsmálinu áfram. Hann var sterkasti maðurinn í Alþfl. í þessu máli, og það var hann, sem hjálpaði Jóni heitnum Þorlákssyni til þess að fá lánið í Stokkhólmi, því hann kom honum í samband við þá menn, sem leystu þetta mál. Það er yfirleitt verk Sigurðar, að Sogið er virkjað. Það var hann, sem hóf þá sterku öldu, sem knúði aðstandendur Morgunbl. seinast til þess að vera með, þegar þeir voru að skolast undan. Og það var í öðru lagi hans verk og verkfræðinga þeirra, sem á hans vegum voru, að finna staðinn, þar sem virkjað er. En þeir menn, sem fyrir bæjarstj. Rvíkur höfðu verið að leita að staðnum, fóru alltaf villur vegar.

Þess vegna er það svo, að því lengur, sem málið er þreytt á þingi eða í blöðum, því verri verður málstaður íhaldsins í bæjarstj. og á þingi. því málið er þannig, að það getur ekki orðið til annars en að lyfta þeim manni, sem hér er mest verið að áfella.

Hvað viðvíkur ræðu hæstv. forseta SÞ., þar sem hann segir frá því, að í sínum flokki séu einstakir menn óánægðir með þessa ráðstöfun, líkt eins og Morgunbl. og rafmagnskaupmennirnir, þá get ég vel trúað, að svo sé. En ég vil aðeins segja, að það er ekki nema eðlilegt, þegar fleiri flokkar standa að stjórn. Það hlýtur alltaf svo að vera, meira að segja innan sama flokks, að menn séu ekki alltaf samdóma. Á sama hátt og sumir jafnaðarmenn eru óánægðir með þennan fyrrv. samherja sinn, Sigurð Jónasson, eins erum við framsóknarmenn óánægðir með ýmsar ráðstafanir, sem hæstv. atvmrh. hefir gert um mannaval. En um það tölum við öðruvísi en opinberlega. Yfirleitt er það svo um okkur framsóknarmenn, að okkur líkar ágætlega við hæstv. atvmrh. eins og jafnaðarmönnum líkar vel við hæstv. fjármráðh. En það útilokar ekki það, að ekki geti verið einhver meiningarmunur um þau mörgu framkvæmdaratriði, sem stj. verður að hafa með höndum. Þess vegna er það, að þó við hæstv. forseti Sþ. séum ekki að öllu leyti sammála, þá erum við í aðalatriðunum mjög vel ánægðir með stj. og treystum henni vel og óskum því, að hún haldi áfram. Við vitum, að það er nauðsynlegt fyrir land og lýð. Og þess vegna óskum við, að þessi fjarstæða órökstudda þáltill. verði drepin hér í dag.