11.03.1935
Sameinað þing: 4. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (4920)

54. mál, öldubrjótur í Bolungavík

Flm. (Jón Auðunn Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og hv. þm. er kunnugt, bar ég fram á síðasta þingi till. um fjárframlag til þess að endurbæta öldubrjótinn í Bolungavík eftir þær miklu skemmdir, sem á honum urðu í ofviðrinu 26 og 27. október síðastl. haust. Fjvn. tók þannig í málið, að hún vildi ekki gera ákveðnar uppástungur um fjárframlög í þessu skyni, vegna þess að ekki lá fyrir niðurstaða af rannsókn á skemmdunum, né áætlun um það. hvað þessar endurbætur mundu kosta. Var till. um fjárframlag þetta því felld á þinginu. Þegar ég bar fram þáltill. þess, nú fyrir hálfum mánuði, var ekki búið að rannsaka skemmdirnar. Síðan hefir vitamálaskrifstofan sent kafara vestur til Bolungavíkur til þess að rannsaka skemmdirnar. Við nána rannsókn hefir það komið í ljós, að endurbæturnar muni kosta nokkuð yfir 40 þús. kr. Brimbrjóturinn er sprunginn á fjórum stöðum og gat er í gegnum nökkvann undir sjávaramáli, en nökkvinn er fremsti hluti brimbrjótsins. Mikið af því grjóti, sem var í nökkvanum, er komið inn í varirnar, og manngegnt er undir þilfari nökkvans á stóru svæði, af því að burt hefir dregizt uppfyllingargrjótið úr honum. Vitamálaskrifstofunni hefir enn ekki unnizt tími til að gera áætlun um kostnað, sem af endurbótunum mundi leiða, en sú áætlun mun verða gerð svo fljótt sem hægt er. Nú sem stendur eiga þeir svo annríkt í vitamálaskrifstofunni, að þeir geta ekki gert þessa áætlun fyrr en í n. næstu viku.

Það má fullyrða, að hæstv. Alþ. hefir jafnan litið með velvild til þessa mannvirki, þó að svo hafi viljað til, að kostað hafi verið miklu meiru til þess en þurft hefði að vera, vegna þess að framkvæmd á þessu verki hefir að ýmsu leyti verið þannig, að hún hefir verið — ég vil ekki segja óforsvaranleg, en mjög misheppnuð að stórmiklu leyti. Árin 1925—1926 voru framkvæmdar æðimiklar framlengingar á brimbrjótnum, en það verk var unnið þannig, að verra var en ógert. Til þess var því kostað yfir 50 þús. kr. Þetta verk var eyðilagt eftir eitt ár. Það var danskur verkfræðingur, sem sendur var til þess að hafa umsjón þessa verks. Ég álasa ekki vitamálaskrifstofunni fyrir að hafa sent hann, því að maðurinn var áður talinn hafa fullkomna þekkingu, og hafði hann unnið við slík verk áður. Hans vinna var verri en ónýt. af því að brotin úr öldubrjótnum lágu inn með öllum fjórum, og varð að hreinsa þau í burtu, sem kostnaði mörg þús. kr.

Ég veit, að víða hafa orðið skemmdir af ofviðrinu 26. og 27. okt. í haust, norðanlands. víðar en þarna í Bolungavík, en þar var þá það mesta flóð og brim, sem komið hefir í manna minnum. Það var mikið lán, að menn höfðu andvara á sér og gátu þess vegna bjargað nær öllum skipum sínum undan briminu.

Nú er svo ástatt, eins og hv. þm. mun kunnugt, að þetta hreppsfélag Hólshreppur, sem þarna á hlut að máli, stendur undir ákaflega þungum skuldaböggum vegna byggingar öldubrjótsins. Það er búið að borga af skuldum vegna þessa fyrirtækis nokkuð mikið á annað hundrað þús. kr., en hreppurinn skuldar um 60 þús. kr. Hreppsfélaginu er því algerlega um megn — nema að litlu leyti — að standa undir kostnaði þeim, er af endurbótum á öldubrjótnum hlýtur að leiða. Í þessari till. minni er ekkert ákveðið um, eftir hvaða hlutföllum kostnaðinum skuli vera skipt niður á ríkissjóð og þetta hreppsfélag. Ég dreg ekki dul á það, að hreppsfélagið mun ekki geta bogað 2/3 kostnaðarins, né heldur helming hans, eins og síðast. Þó að það vildi gera það, þá er vandséð, að það fengi lán til þess. En að sjálfsögðu verður hreppsfélagið að greiða einhvern hluta kostnaðarins.

Hér er um bráða þörf að ræða, þannig, að ekki verður hægt að komast hjá að endurbæta öldubrjótinn á komandi sumri. Verði það ekki gert, er það álit allra, bæði vitamálaskrifstofunnar og sömuleiðis annara, sem til þekkja, að þá sé nökkvinn farinn og lendingin eyðilögð. Ef nökkvinn brotnar, þá fer efnið úr honum í næstu bátalendingar fyrir innan, og ekki verður hugsað til að gera aftur höfn í bráð í Bolungavík eftir að svo er komið. Það mundi kosta marga tugi þús. kr. að hreinsa lendinguna, ef nökkvinn verður látinn brotna. Bátaútvegur þarna er byggður á því, að lendingunni verði haldið við. En þann útveg vantar alveg lendingu þarna. ef skjólsins af öldubrjótnum missir við.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að máli þessu verði vísað til fjvn., að þessari umr. lokinni. En það vil ég biðja þá n. að athuga, að áliti þarf hún að skila um málið áður en þessu þingi verður frestað. Það er náttúrlega óviðkunnanlegt á þessum tímum að leggja fram fé úr ríkissjóði án þess að heimild sé til þess, þegar jafnþröngt er í búi eins og nú er hjá ríkissjóði. En nauðsynin er hér svo brýn, að hjá því verður ekki komizt að leggja fram fé til endurbóta á þessu mannvirki.