04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (4933)

122. mál, þýsk ríkismörk

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég mun skýra lítið eitt nánar þá ósk, sem ég hefi borið fram um frestun á þessu máli. Ég vil taka það fram, að eftir mínu áliti liggur þetta þannig fyrir, að ef tekin er ábyrgð á þessu nú, þá leiðir það fyrr eða síðar til þess, að einnig yrði að taka ábyrgð á andvirði allrar annarar vöru, sem ekki teldist unnt að selja utan Þýzkalands, t. d. síldar, sem ekki væri hægt að selja á öðrum stöðum, og fleiri tegundir, sem eins væri ástatt um. Ég get ekki séð, að nokkur minnstu rök leiði að því, að hægt væri að neita um slíkt eftir að gengið hefði verið inn þessa ábyrgð. Þess vegna tel ég þessa ábyrgðarbeiðni þannig vaxna, að hún sé varhugaverð. Í fyrra gekk það þannig til með Þýzkalandverzlunina, að þar söfnuðust allmiklar innstæður síðari hluta ársins, en hinsvegar var fyrri hluta ársins greitt töluvert til Þýzkalands í lausri valútu, sem kom til af því, að Íslendingar áttu þá ekki innieignir þar. Þess vegna tel ég, að fyrsta sporið í þessu eigi að vera það, að jafna úthlutun gjaldeyrisleyfa til Þýzkalands á þann tíma, sem við leggjum mest inn á þýzkan markað. Ég hefi þegar gert ráðstafanir til þess að þrýsta gjaldeyrisleyfum til Þýzkalands á þá sömu mánuði og útflutningsviðskiptin falla á. Þessar ráðstafanir og einnig það, að vanda sig meira í að velja vörur frá Þýzkalandi og hafa meiri fyrirhyggju um það, hvaða vörur sé hægt að kaupa þar, er það, sem ég tel, að eigi að reyna til brautar áður en gripið er til annara ráða, hvort sem svo til þeirra þarf að taka á sínum tíma eða ekki.

Viðskiptin við Þýzkaland eru okkur vitanlega mikils virði vegna þrengsla á öðrum erlendum markaði, en ég tel hinsvegar, að þessi ábyrgð geti leitt allmargar aðrar slíkar á eftir sér, og þær allar þannig vaxnar, að þær séu varhugaverðar, og þess vegnu eigum við að reyna allar aðrar leiðir. — Ég skal taka það fram út af ummælum hv. þm. Vestm., að það er náttúrlegt, ef þær vörur, sem greitt er með, reynast ekki hæfar fyrir útflutningverðlaun, að þá sé erfiðara við þau viðskipti að eiga, sem ganga í gegnum, þá reikninga, heldur en þau, sem ganga gegnum annan reikning. En ég vil benda á, að í fyrra voru þessar vörur ekki hæfar fyrir útflutningsverðlaun, og var þó hægt að koma þessum viðskiptum í lag, en það gekk of seint, og veit, að menn urðu að bíða of lengi eftir andvirði fiskjarins, og það, sem ég álít nauðsynlegt, er að leggja allt kapp á að eyða þessum mörkum eins fljótt og auðið er. (Rödd í salnum: Er ekki nóg til af mörkum í Þýzkalandi?). Það er búið að veita gjaldeyrisleyfi fyrir þeim. Það er þegar búið að áætla úthlutun gjaldeyrisleyfa fyrir september og október með það fyrir augum, að þá sé farið að koma inn á þennan reikning, en óvissan um það, hvort þær vörur, sem gegnum þann reikning fást, séu hæfar fyrir útflutningsverðlaun, er erfiður þröskuldur. Ég tel, að ef þessi ábyrgð væri veitt, þá gæti það dregið mjög alvarlegan dilk á eftir sér, og fyrst eigi að taka til yfirvegunar og reyna, hvort ekki sé hægt að koma viðskiptunum í hagkvæmara horf.

Þá vil ég benda á annað í þessu sambandi, sem er ákaflega stórt atriði. Vegna þess að við þurfum að kaupa vörur fyrir allt það, sem flutt er til Þýzkalands, þá eru þau viðskipti erfiðari en flest önnur milliríkjaviðskipti, og þess vegna er það takmarkað, sem við þolum, að flutt sé til Þýzkalands, og þess vegna er það svo í reyndinni, að það er æskilegast, að þangað séu ekki fluttar nema þær vörur, sem ekki er hægt að selja á öðrum markaði. Ef hinsvegar er gengið inn á þá braut að veita ábyrgð ríkisins fyrir og greiðslu á þessum vörum, þá minnkar á huginn fyrir því að selja vöruna annarsstaðar, og verður þeim mun meiri ástæða að selja til Þýzkalands, og það getur orðið til aukinna vandræða í utanríkisverzlun, sérstaklega eins og nú er háttað með úthlutun gjaldeyrisleyfa. Meiri hl. innflutnings fer fram snemma á árinu og áður en ráðið er um útflutning, og það verður því erfiðara að eiga við þetta sem meira er af Þýzkalandsviðskiptum. Ég lít því svo á, að við eigum að reyna að ná sem mestum viðskiptum utan Þýzkalands, þar sem hægt er að fá þau á hagkvæmari og þægilegri hátt fyrir okkur, og ennfremur að það eigi að gera vandaðar tilraunir til að koma jöfnuði á viðskiptin áður en þessi till. er afgr. — Ég tók svo eftir upplýsingum hv. þm. Vestm., að peningarnir væru ekki greiddir inn í banka í Þýzkalandi fyrr en 4 vikum eftir löndun. (JJós: Ég sagði það ekki upp á víst). En hv. þm. sagði þá, að það væri venja, og ef byrjað er að selja í ágúst, þá eru peningarnir ekki komnir í þýzku banka fyrr en í september, og þá ekki liðið frá þeim tíma nema á annan mánuð, þegar þing kemur saman aftur, og þá er komið betra og frekara yfirlit en nú. (JJós: Þá eiga menn að byrja). Stjórnin veit þá meira, og betur hægt að gefa upplýsingar þá en nú.