29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Guðrún Lárusdóttir:

Hv. þm. S.-Þ. gleymdi alveg að svara fyrirspurnum mínum (JJ: Ég mátti aðeins bera af mér sakir). Hann sagði, að ég lítilsvirti ræktunarstarfið. Ég sagðist unna ræktun af alhug, en sýndi hinsvegar fram á, hversu hann lítilsvirðir andlega starfsemi prestanna með brtt. sinni. Hann sagði, að prestarnir væru ríkir menn, og fór að vitna í Nýjatestamentið. Vill hann nú halda því fram í alvöru, að margir prestar hér á landi hafi safnað auði? Einstöku prestar geta máske kallazt bjargálnamenn, af því að þeir voru þá búmenn og kunnu að hagnýta jarðir sínar, en um auðlegð er ekki að ræða hjá íslenzkum prestum yfirleitt, allra sízt nú orðið.

Mér þótti annars leitt, að hv. þm. skyldi ekki svara fyrirspurnum mínum. (JJ: Ég sagði aðeins mína persónulegu skoðun). Nei, hv. þm. bar fyrir sig meiri hl. þjóðarinnar. Annars býst ég við, að hv. þm. sjálfur vildi helzt enga presta hafa. Okkur mun því ekki þýða að deila um þetta mál öllu lengur. Hann vill enga presta, en ég vil hafa þá sem flesta og sem bezta.