27.11.1935
Neðri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. hefir svarað því, sem drepið hefir verið á fiskimálan., og þarf ég þar engu við að bæta. En ég get ekki látið hjá líða að svara nokkrum atriðum í ræðu hv. þm. G.-K. Hann sagði, að Íslendingar hefðu getað sagt upp Spánarsamningnum, ef þjóðin hefði óskað. Þetta hefði stj. ekki gert, heldur leitað eftir endurnýjun hans. Þetta er ekki rétt. Það var gengið frá Spánarsamningunum í júlí 1934, og hefði ef til vill mátt segja þeim upp í október þá um haustið. En það hefði eitthvað alveg sérstakt orðið að koma fyrir til þess, að hægt hefði verið að segja þeim upp svona fáum mánuðum eftir að þeir voru gerðir. Samningarnir hafa ekki heldur verið endurnýjaðir, en Sveini Björnssyni sendiherra var falið að fara til Spánar til þess að leita upplýsinga um það, hver innflutningskvóti okkur yrði tryggður samkv. gildandi samningum.

Þá vil ég leiðrétta það, sem hv. þm. sagði, að hann og ég hefðum sameiginlega lagt á fiskskattinn, og því bæri okkur að hjálpast að því að afnema hann. Fiskskatturinn var nú lagður á löngu fyrir stjórnarskiptin, í maí 1934, en stjórnarskiptin urðu ekki fyrr en 1. ágúst. Það sem stj. hefir gert, er aðeins það, að setja nánari reglur um þennan skatt.

Viðvíkjandi því, að við ættum að vinna saman að því að afnema þennan skatt, get ég sagt það, að ég myndi ekkert hafa á móti slíkri samvinnu. En eina till., sem komið hefir frá hv. þm. G.-K. í þessu tilliti, gekk út á það, að leggja þetta gjald, sem lagt hafði verið á sjávarútveginn, yfir á ríkissjóð. Á þessum grundvelli gat ekki verið um samkomulag við mig að ræða.

Hv. þm. spurði líka, hver væri ætlunin með hinni víðtæku heimild, sem stj. er veitt samkv. 5. gr. til að nota fiskimálasjóð á svipaðan hátt og markaðs- og verðjöfnunarsjóður var notaður. Ég vil benda hv. þm. á síðari málsgr. 4. gr., þar sem útskýrt er, hvernig sjóðnum skuli varið.

Fleira held ég ekki, að ég þurfi að taka fram í sambandi við ræðu hv. þm.