07.11.1935
Efri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Brtt. þær, sem ég hefi borið fram á þskj. 475, eru í samræmi við það, sem ég sagði ber þegar þetta mál var til 2. umr. Ég lýsti því þá sem minni skoðun, að ef átti að herða þannig á þeim böndum, sem eru nú á sölu á ýmsum vörum til útlanda, þá yrði um leið að tryggja, að það stjórnarvald, sem færi með þessi mál, væri þannig skipað, að fulltrúar þeirra, sem voruna eiga, væru þar til staðar. Ég hygg, að ég hafi þá beinlínis skýrt frá því, hvernig ég hefi hugsað mér, að sú n., sem hefði með þessi mál að gera, yrði skipuð, og það er í samræmi við þessar brtt., sem ég ber hér fram.

Ég hygg, að ríkisstj., sem hefir haft þessi mál með höndum, hafi oft og einatt ráðgazt við innflutnings- og gjaldeyrisn. um þessi mál, og það er ekki nema eðlilegt, því að hún verður að hafa það yfirlit og kunnugleika á þessum málum öllum, sem nauðsynlegt er fyrir þá, sem hafa þessi mál með höndum.

Þar að auki er sá kostur við að fela þessari n., eða nokkrum mönnum úr henni, meðferð þessara mála, að það mun að sjálfsögðu geta orðið kostnaðarminna. Þessi n. hefir allmikla skrifstofu, og ég hygg, að hún mundi geta annazt þessi aukastörf, og e. t. v. án mikils aukakostnaðar.

Ennfremur er, eins og hæstv. ráðh. sagði við síðustu umr. þessa máls, ekki ástæða til að fjölga nefndum, heldur er réttara að fela þeim n., sem fyrir eru og hafa skrifstofur, að annast þessi nýju störf, sem þarf að inna af hendi. Ég sé ekki neina ástæðu til þess, að fulltrúar bankanna, sem eru í innflutnings- og gjaldeyrisn., væru í ráði um þessa hluti, því að það er að sjálfsögðu vegna gjaldeyrisspursmálsins, sem þeir eiga sæti í þessari n., og sé því ekki ástæðu til að hlaða á þá þessum aukastörfum, enda yrði n. þá svo fjölmenn og þar af leiðandi starfa þyngra, eins og fjölmennar n. gera yfirleitt.

Ég hefi því gert þá till., að í stað þeirra tveggja fulltrúa, sem eru í innflutnings- og gjaldeyrisn. af hálfu bankanna, komi tveir fulltrúar, sem tilnefndir eru af eigendum vörunnar. Það er að sjálfsögðu landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn, sem þarna hafa hagsmuna að gæta. Þá er um að ræða, hvaða fulltrúar þessara tveggja atvinnuvega eru eðlilegastir til þess að útnefna þessa tvo menn. Ég hefi farið þá leið að velja Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og Samband ísl. samvinnufélaga til þess að velja þessa fulltrúa. Ég held, að það orki varla tvímælis, að þessir tveir hlutaðeigendur eru eðlilegastir aðiljar. Sambandið hefir svo mikla sölu á landbúnaðarafurðum til útlanda, að það verður að teljist eðlilegur aðili, og sjávarútvegsmenn gætu sjálfsagt vel unað því, að Union útnefndi mann af þeirra hálfu. Það mætti reyndar hugsa sér, að annar maðurinn væri skipaður af verzlunarráðinu, en þó virðist eðlilegra, að sölusambandið skipi hann. Eins og kunnugt er, er stjórn sölusambandsins orðin mjög víðtæk. Í henni sitja 7 menn, kosnir víðsvegar á landinu. Ættu því hjá sölusambandinu að vera saman komnir fulltrúar fyrir alla hagsmuni útvegsins.