12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Ólafur Thors [óyfirl.]:

það er aðeins ein setning í fyrri ræðu hæstv. ráðh., sem mér þótti ástæða til að gera að umtalsefni, sérstaklega af því, að mér þótti þar gæta misskilnings á eðli málsins. Hæstv. ráðh. sagði, að það þýddi ekki að vera að draga neina fjöður yfir það, að útflytjendur hefðu átt friðland með sölu í Þýzkalandi, og þess vegna eðlilegt, að þeir, sem vörur þurfi að kaupa, kaupi þær þar. Þetta er frá mínu sjónarmiði grundvallarskekkja. Sannleikurinn í þessu máli er, að það er eðlilegt, að útflytjendur fái, að öðru jöfnu, að selja vörur sínar þar, sem þeir fá hæst verð fyrir þær. Ég skal ekki að svo stöddu kveða upp neinn dóm um það hvort gengið hafi verið svo langt sem heppilegast hefði verið í því að reyna að beina vörukaupum íslenzkra notaþarfa til Þýskalands. Um það þori ég ekki að dæma, en hitt veit ég, að eftir því sem maður, sem ætti að vera þessu langkunnugastur — hv. þm. Vestm. —, segir, að mönnum hafi verið meinað að kaupa vörur frá Þýskalandi, þá er það satt. Verðlagið á okkar voru í Þýzkalandi er hærra en í nokkru öðru landi. Það kemur greinilega fram á fisksölunni. Ég hygg, að ekki sé ofmælt, að verð á íslenzkum fiski í haust hafi verið fjórum sinnum hærra en fengizt hefir fyrir þá vöru í Englandi. Það er af þeim ástæðum, að þessar vörur eru í raun og veru fyrsta flokks vörur. Það eru þess vegna hagsmunir íslenzkra framleiðenda annarsvegar að beina vörukaupum sem mest til Þýzkalands, og hinsvegar að forðast til hins ýtrasta hverja þá ráðstöfun, sem þýzk stjórnarvöld skyldu taka upp sem tilraun til þess að draga úr eðlilegum viðskiptum milli þessara landa. Ég hefi í þeim efnum tilhneigingu til að hlusta á, hvað hv. um. Vestm. segir, því að mér er kunnugt, að það er fyrir óvanalega samningalipurð hans, hve Íslendingar njóta einstaklega góðra kjara í Þýzkalandi nú sem stendur. Og hvað sem öðru líður, þá veit ég, að íslenzkir togaraútgerðarmenn eru honum mjög þakklátir fyrir það, hvernig honum hefir tekizt að efla markað fyrir íslenzkan fisk. — Ég vil svo aðeins segja það — út af þeim ummælum hæstv. ráðh. í sambandi við það, að það væri eðlilegt, að umboðsmenn sjávarútvegsins ynnu saman í n., sem fjallaði um ákvarðanir í þessu efni, en að það væri fiskimálan., en ekki fisksölusamlagið —, að mér er óhætt að fullyrða, að útvegsmenn eru þar á öðru máli. Og ég er alveg sannfærður um, að eins og komið er stjórn og framkvæmdastjórn fisksölusamlagsins, þá er þeim aukakostnaði, sem leiðir af fisksölun. og bætt er á framleiðendur sjávarafurða, algerlega á glæ kastað og ætti að verða aflétt sem allra fyrst.