12.10.1935
Sameinað þing: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

Kæra um kjörgengi

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hér er ekki um það að ræða, hvað maður vildi helzt, að stæði í l. eða yrði numið úr l. Hér er um það deilt, hvort styðja skuli ákvæði stjskr. og kosningal. gagnvart því atriði, sem hér liggur fyrir. Það er gefið, að samkv. þeim ákvæðum eru landskjörnir og kjördæmakjörnir þm. settir á misjafnt réttarstig, eins og bent hefir verið á áður í þessum umr. og ekki hefir verið hrakið.

Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, get ég ekki stillt mig um að koma með nokkrar aths. því hefir sem sé verið haldið fram hér, að Magnús Torfason væri ekki kominn úr Bændafl. Ég skil ekki, að þessi hv. þm. skuli halda fram öðru eins og þessu, þó að ég geti vel skilið, að Magnús Torfason haldi því fram. Hann heldur því fram, að hann hafi ekki sagt sig úr Bændafl., þó að hann hafi slitið allri samvinnu við flokkinn. Hinsvegar sagðist hann einn vera Bændaflokksmaður. Hann hefir því slitið samvinnu við sjálfan sig, en heldur svo uppi annari samvinnu við Framsókn og sósíalista. Þetta er slíkur hundavaðsháttur í röksemdafærslu, að ekki er hægt fyrir hv. 6. landsk. að taka undir það, þó að það slysaðist úr munni hv. fyrrv. 2. landsk.

Þá eru það sakir þær, sem hv. fyrrv. 2. landsk. hér á Bændafl. Hann sagði í því sambandi, að flokkurinn gæti ekki framfylgt stefnuskrá sinni með öðru móti en samvinnu við þá flokka, sem á hverjum tíma hefðu meiri hl. á þingi. Við, sem fórum úr Framsfl. og stofnuðum Bændafl. áttum kost á að vera með meiri hlutanum, en við vildum það ekki, og er af því sýnilegt, að Bændafl. hefir ekki sett sér þá stefnu að fylgja alltaf meiri hl. Hann ætlar sér þvert á móti að berjast einarðlega fyrir málefnum sínum, þangað til hann fær sjálfur meiri hl., og það fær hann.

Um ýmsar erjur, sem orðið hafa milli okkar í flokknum, ætla ég ekki að fjölyrða, en ég skal gera hv. 2. landsk. fyrrv. það til geðs að bjóðast til að ferðast um landið á komanda vori og halda bændafundi í hverju kjördæmi. Má þá vita, hvers hlutur kemur upp. Getur hann þá ef til vill sagt, að hann standi einn, en hann stendur þá a. m. k. ekki einn í Bændafl.

Hv. síðasti ræðumaður hélt því líka fram, að öll ákvæði stjskr. og kosningal., sem nefnd hafa verið hér, fjölluðu einungis um það, hvernig menn gætu orðið þm. Það hefir verið tekið fram, að ákvæði 133. gr. geta hrundið úrskurði landskjörstjórnar. — Það er fjarstæða, að ræða um það, hvað Bændafl. í Danmörku kom til hugar, þegar þeirra flokksmenn áttu í hlut. Um það gilda önnur lög en hjá okkur.

Það er ekki verið að ræða um það hér, hvað ætti að vera, heldur hvað stendur í kosningal. og stjskr. Þeir, sem kosnir eru á þing, lifa og starfa skv. þeirri aðstöðu, sem l. skapa þeim, og það er ekki hægt að ætlast til þess, að um okkar mál verði úrskurðað eftir dönskum l. Ég get líka bent á það, þessu til viðbótar, að það eru litlar líkur til þess, eftir því, sem fyrir liggur, að Bændafl. hafi ætlað að styðja sósíalistastj. í landinu. Ég get bætt því við, að á flokksfundi Bændafl. sá hv. þm. till. og gerði engan ágreining um hana. Ég man ekki, hvort hann greiddi henni atkv., en hann greiddi áreiðanlega ekki atkv. á móti henni, því hún var samþ. með shlj. atkv. — Það er dálítið broslegt, að heyra frásögn hv. þm. (MT) um það, hvernig hann varð frambjóðandi í Árnessýslu. Ég skal ræða lítillega um það, hvernig það bar að, að hann varð frambjóðandi flokksins í Árnessýslu. Það er rétt, að það leið nokkur tími frá því, að ákveðið var að styðja að kosningu hans og þangað til ákveðið var, að hann yrði í kjöri fyrir Bændafl. Og sá dráttur stafaði af því, að það var erfitt að fá Bændaflokksmenn í Árnessýslu til þess að fylgja honum. En Tryggvi Þórhallsson vildi gefa þessum gamla flokksmanni sínum kost á að vera í kjöri, en honum gekk svona illa, þrátt fyrir sína miklu hæfileika til þess að sameina hugi manna, að fá Bændaflokksmenn í Árnessýslu til þess að fylgja honum. Um nánari afskipti okkar af þessu innan flokksins, ræði ég ekki, en ég mun standa við það boð mitt, að ræða þetta ásamt honum við flokksmenn úti um land, og getum við þá séð, hvor hefir fleiri með sér.

En það, sem hér kemur til greina, er, að hv. þm. á ekki lengur rétt til þingsetu. Hv. þm. veit, að það hefir verið mikill ágreiningur um það, hvaða fyrirkomulag ætti að vera á þessu í stjsk. og kosningal. Um það hafa a. m. k. verið uppi 2 stefnur. Ég get sagt fyrir mig, að ég hefði kosið, að það hefðu engir uppbótarþm. verið. Og þannig gæti ég haldið áfram að telja upp einstök atriði, sem meiri og minni ágreiningur hefir orðið um. En við förum ekki eftir því, sem við hefðum kosið að væri, heldur verðum við að fara eftir því, sem er. Og þó það sé á móti því, sem við höfum haldið fram, þá viljum við samt beygja okkur fyrir því, sem orðið er.