13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Eysteinn Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil benda hv. ræðumanni á það, að hann hefir ekki svarað því, sem ég spurði hann að, því, sem hér var aðalatriðið, hvort hann ætlaðist til, að vörur, sem ekki væri hægt að selja annarsstaðar en á Þýzkalandi, væru látnar liggja eftir óseldar, til þess að hægt væri að selja þangað ull og gærur. Hann hefir ekki svarað þessari spurningu, og meðan hann hefir ekki svarað þessu, er umr. ekki lokið.

Hv. þm. sagði annars, að einn maður úr gjaldeyrisnefnd hefði sagt, að það yrði séð um, að einhverjir ákveðnir menn gætu ekki borgað eins hátt fyrir íslenzkar afurðir og í fyrra. En þessi ummæli eru ósönn, ég veit, hvað hv. þm. á við, og sýnir það bezt, hvað heiðarlegur hann er. Eins og mönnum er kunnugt, þurfti ekki í fyrra leyfi til að selja til Þýzkalands, og var markaðurinn því notaður mjög misjafnt af útflytjendum. Einn útflytjandi seldi t. d. gærur eða ull að fullu, en aðrir komust svo ekki að. Af þessu varð mesti glundroði, líka hvað snerti verð á þessum vorum. Það er þess vegna, að ef form. gjaldeyrisn. hefir sagt nokkuð um þetta atriði, þá hefir hann átt við það, að útflytjendur með gærur og ull ættu að hafa jafnrétti til að nota markaðinn. Það fyrirkomulag, sem við höfum nú tekið upp, verður til þess, að markaðinum er réttara skipt. Ég hygg, að það sé ekki til nokkur maður hér í hv. d., sem finnist það óeðlilegt, þó að útflytjendur skipti jafnt með sér markaðinum til Þýzkalands. Síðan þetta fyrirkomulag var tekið upp, hafa verið látin ganga jafnmörg % yfir útflytjendur, svo að markaðurinn væri notaður sem jafnast.

Þetta litla dæmi sýnir, hvernig þessi hv. þm. notar málin og ætlar sér að snúa út úr ummælum, ef einhver hafa verið, eða hann hefir sagt ósatt sér í vil eða til að ásaka stj. Hann er að reyna að koma því inn, að þessi ráðstöfun hafi verið gerð til að lækka vöruverð bænda. Ég öfunda hv. þm. satt að segja ekki af þessu fleipri hans. Hann fær engan til að trúa því, að ríkisstj., sem styst að miklu leyti við bændur, hafi áhuga á því að lækka vöruverð þeirra.

Ég krefst þess að fá skýrt svar hjá hv. þm., hvort hann ætlast til þess, að vörur séu látnar liggja hér óseldar, en þýzkalandsmarkaðurinn notaður fyrir vörur, sem hægt er að selja annarsstaðar.