13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég fer ekki að því, hvað hæstv. ráðh. heimtar, því að það er ekki hægt að fullnægja honum án þess að lítilsvirða þingheim. Ef hann getur ekki skilið það, sem ég hefi sagt, þá er ekki hægt að gera honum þennan hlut skiljanlegan. Hæstv. ráðh. er að verja sig með því, að ekki hafi verið hægt að leyfa 50% í haust, því að það hafi ekki verið hægt að sjá þá, hvort hægt væri að nota þessi 25%. Þvílík endileysa og fjarstæða, að halda því fram, að þessi 25% skipti svo miklu máli, að ekki hafi verið hægt að gefa út leyfið fyrir 50% strax. Þetta er svo mikil fjarstæða, að það er ekki frambærilegt, og ekkert annað en veikburða tilraun til að klóra í bakkann, þegar hæstv. ráðh. er kominn út á hálan ís. Hann er hér að klóra yfir það, sem verið hefir misnotað. Þegar hæstv. ráðh. segir, að þessi 23% séu svo stór liður, að við höfum orðið að vinna tíma til þess að vita, hvað fengist útflutt af vörum, þá er það ekkert annað en yfirklór.

Það er í sjálfu sér ekki mælikvarði á það, hvað flutt er út nú, þó að ég nefndi áðan tölurnar frá 1933. Landbúskapurinn hefir þess fulla þörf, að notað sé hvert markaðsland á hverjum tíma. Það er rétt, að það hefir verið gert mikið að því að útvega markað, en það hefði verið gert miklu meira, ef þessi hindrun hefði ekki verið. Og þessi ráðstöfun er óréttmæt gagnvart landbúnaðinum, eins og ég hefi sýnt fram á með rökum, því að þessi framleiðslugrein hefir keypt vörur frá Þýzkalandi fyrir allt, sem hefir fengizt útflutt, og það er ekki ógætilega áætlað um hlutföll milli sveita og kaupstaða, að vörurnar skiptist þannig, að sveitirnar beri sitt hlutfall, sem svarar útflutningsverðinu á þessum vörutegundum.