13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að það er erfitt að ræða þetta mál við hv. þm., því þegar búið er að ganga frá einu atriði, þá hleypur hann yfir í annað nýtt, og gerir þetta það að verkum, að umr. verða langdregnari en æskilegt er. Hv. þm. sagði, að ég hefði vísvitandi farið með ósatt. Ég gat nú ekki vel séð það af ræðu hans, í hverju þau ósannindi væru fólgin, en mér skildist helzt, að hann ætti við það, að ég hefði sagt, að gjaldeyri hafi ekki verið beint til Þýzkalands til vörukaupa árið 1934. Þetta sagði ég aldrei.

Ég sagði ekki annað en það, að útflytjendur íslenzkra afurða hefðu ekki getað keypt út á sína vöru, ef þeir hefðu átt að sjá einir um það. Árið 1934 var það svo, að útflytjendur landbúnaðarafurða gátu ekki notfært sér Þýzkalandsmarkaðinn, vegna þess að þeir gátu ekki fengið mörkin innleyst. Ég vil benda á, að Samband ísl. samvinnufélaga, sem er einn stærsti útflytjandinn, gat ekki nema að litlu leyti notfært sér markaðinn við Þýzkaland, vegna þessa örðugleika. Og get ég útvegað sannanir í þessu máli, ef tóm gefst til. En úr því að farið er út í að ræða, hvernig þetta var í fyrra og hvernig það er nú, þá skal ég benda hv. þm. á, að í fyrra var þetta skipulagt þannig, að framan af árinu var greidd stór upphæð í frjálsri „valutu“ til Þýzkalands fyrir innfluttar vörur, og var það vegna þess, að þá var ekki kominn útflutningur frá okkur, svo að við ættum þar innstæðu, því að viðskiptum okkar við Þýzkaland er þannig háttað, að innflutningur okkar þaðan er nokkuð jafn allt árið, en útflutningur okkar þangað kemur aðallega á seinni hluta ársins. Í fyrra var það þannig, að framan af árinu var borgað í pundum, en seinni hluta ársins sátu mörkin föst. Nú í ár hefir þetta verið skipulagt þannig af Landsbankanum, að ríkisstj. hefir útvegað leyfi í Þýzkalandi til þess að skulda þar framan af árinu, eða þangað til útflutningsvörur okkar koma á móti, svo að við þurfum ekki að borga innfluttu vörurnar í frjálsri valutu. Þetta hefir orðið til þess, að nú er hagt að selja landbúnaðarvörur þangað og fá mörkin leyst inn.

Að lokum vil ég segja það, að ef hv. þm. á eftir að taka til máls, þá svari hann fyrirspurn minni, því henni er ósvarað ennþá, en hún er aðalatriðið í þessu deilumáli okkar.