15.02.1935
Neðri deild: 2. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

8. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. sneri sér til mín síðastliðinn föstudag, sem var 8. þ. m., og beindi þeirri ósk til mín, að ég léti í ljós álit mitt um það, hvort Sjálfstfl. myndi verða með breytingu á lánsheimild þeirri, sem samþ. var til handa ríkisstj. á síðasta þingi. Um þetta ræddi svo miðstjórn Sjálfstfl. daginn eftir og komst að þeirri niðurstöðu, að þar sem hér væri aðallega um að ræða samskonar lánsheimild og samþ. var á síðasta þingi, að viðbættri heimild til þess að taka lán til greiðslu á skuld fyrir Útvegsbankann, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir, en bankinn getur ekki greitt eins og nú standa sakir, þá sæi hún sér ekki annað fært en að samþ. lántökuheimild þessa. Það vannst ekki tími til að bera þetta undir þingflokkinn í heild; þó var það nefnt á fundi flokksins í dag og sætti þar ekki andmælum. Að sjálfsögðu hafa því allir flokksmenn Sjálfstfl. óbundin atkv. um málið.

Því vil ég taka það fram, að hæstv. fjmrh. hefir gefið mér tækifæri til þess að kynnast skeytum þeim, sem farið hafa á milli ríkisstj. um lántöku þessa, og fulltrúa stjórnarinnar, Magnúsar Sigurðssonar, sem er staddur í London.