14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2389 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

Kæra um kjörgengi

Magnús Torfason:

Umr. um þetta mál hafa farið talsvert á víð og dreif. Ég vil fyrst víkja með fáum orðum að einu aðalatriði málsins: hvort ég hafi sagt mig úr Bændafl. eða ekki. Það hefi ég ekki gert. Ég hagaði svo orðalagi á bréfi mínu til miðstj. flokksins af ásettu ráði. Ég vil biðja menn að athuga, að það er hægt að slíta samvinnu á tvennan hátt: Annaðhvort þegjandi eða með því að gefa það til kynna. Ég hafði bæði slitið samvinnu við Framsfl. þegjandi, með því að sækja ekki flokksfundi, en þó ekki gengið úr flokknum, en einnig sagt mig ákveðið úr flokknum. Ég kunni því ósköp vel bæði orðatiltækin. Og fyrst ég segi, að ég hafi lagt þennan skilning í það orðalag, sem ég notaði, tel ég mig eiga rétt á, að farið sé eftir minni túlkun.

Hv. form. Bændafl., sem er afkvæmi mitt, bar mér á brýn, að ég væri tvöfaldur í þessu máli, því ég hefði áður lýst yfir að hafa sagt mig úr flokknum. En þetta er ekki rétt. Þegar svo var komið, að ég gat ekki haft samvinnu við miðstj. Bændafl, kom út blað af Framsókn, þar sem bornar voru á mig æruleysissakir, vitanlega beint til þess að ég segð mig úr flokknum. (ÓTh: Er þá þm. kominn úr flokknum?). Ég hefi verið hrakinn úr Bændafl., en ekki sagt mig úr honum. Eða er það meining hv. þm., að einn þingfl. megi búa svo að einstökum flokksmönnum, að gera þeim óvært æru sinnar vegna að vera í flokknum, og geta þannig bolað þeim af þingi? Ég býst ekki við því. — Þrátt fyrir allt, sem búið er að segja um þetta mál, verð ég að halda því fram, að ég sé eini þm. Bændafl. á þessu þingi, sem þannig sé hægt að nefna. Og þó er af því, að ég er eini fulltrúinn, sem held stefnu flokksins, en báðir hinir hafa svikið sína stefnu. Ég er því eini þm., sem bændurnir virkilega eiga óskiptan nú á þingi. Þetta er það, sem ég vildi segja og snertir mig persónulega. Hinsvegar kemur allt það, sem sagt er í kosningalögum um aðferð kosninga og úthlutun uppbótarsæta ekkert þessu við eftir að Alþ. hefir úrskurðað kosningu. Þá hér aðeins að hlíta ákveðum stjskr. Þá var í þessu sambandi verið að brýna mig á, að ég vildi dæma eftir dönskum lögum. Er slíkt rangfærsla léleg og sízt sæmandi presti, þó hv. þm. hafi oft notað lítil rök. Hitt sagði ég, að samkv. dönskum lögum mundu uppbótarþm. ekki hafa verri rétt en þeir kjördæmakosnu. En í Englandi veit ég ekki til, að um uppbótarþm. sé að ræða. Og ekki missa menn þar þingsæti, þó þeir skipti um flokk.

Þá hefir því verið haldið fram, að ég hafi ekki unnið fyrir bændur landsins. En sannleikurinn er sá, að það hefi ég einmitt einn bændaflokksmanna mátt gera, þó hart sé að þurfa að segja, að hinir þm. Bændafl. hafi ekkert gert. Það, sem gert hefir verið fyrir bændurna, hefir verið gert fyrir mína aðstöðu og aðgerðir og þrátt fyrir framkomu hinna bændaflokksmannanna. Þeir hafa haldið því mjög fram, að ekki mætti koma nærri jafnaðarmönnum. En þó ég sé gamall, minnist ég þess, að Bændafl. hampaði mikið bændafl. norska, sem nú hefir gert samband við jafnaðarmenn. En síðan hefir líka Bændafl. lítið á norska bændafl. minnzt. En hvers vegna hafa norskir bændur gert bandalag við jafnaðarmenn? Af því þeir vita, að til þess að geta komið sínum málum fram verða þeir að fá stuðning þeirra, sem líklegastir eru til samvinnu, og er það vissulega engin goðgá.

Þá hefir því verið haldið fram, að ég hafi sagt, að það ætti að vera stefna Bændafl. að fylgja og styðja valdhafana. Þetta hefi ég ekki sagt. En ég hefi gert alveg eins og barnið mitt góða, hv. 10. landsk., þegar borið var fram vantraust á stjórnina, — við sátum báðir hjá. Ég tel sjálfsagt að hafa samvinnu um einstök mál við þá, sem eitthvað vilja fyrir þan gera. Það hefi ég gert og mun gera meðan það stríðir ekki móti minni sannfæringu. Og eins og nú er ástatt fyrir bændum landsins er ekki verjandi að hafa aðra stefnu. Það má ef til vill segja, að það sé nokkuð annað þegar allt leikur í lyndi, þá sé hægt að leyfa sér aðgerðir til framdráttar ákveðnum flokki. En eins og nú er ástatt er slíkt ekki verjandi.

Þá vil ég leiðrétta þá missögn, að mér hafi verið boðið á fund Bændafl. við Ölfusá. Þetta er ekki rétt, því hefir verið haldið fram, að mér hafi verið sent símskeyti, en það hefi ég aldrei fengið. Hitt er einnig rangt, að formaður flokksins hafi talað við mig. (ÞBr: Ég átti við form. félagsins fyrir austan). Það talaði enginn við mig fyrr en kl. undir 7 um kvöldið og það kalla ég ekki boð, því fundurinn hófst kl. 3.

Ég vona, að barnið mitt góða, hv. 10. landsk., skilji, að ég er svo mikill gikkur, að ég lét ekki bjóða mér að samflokksmenn bjóði til stjórnmálafunda í mínu kjördæmi án þess að hafa mig í ráðum með.

Þá hefir mikið verið talað um framboð mitt. Átti ég oft tal um það við form. Bændafl., Tryggva Þórhallsson, og lagði hann fast að mér um að vera í kjöri. Hinu trúi ég, að ýmsir aðrir menn í Bændafl. hafi talað nógu illa um mig.

Þessu næst skal ég þá halda mig við það, sem sagt hefir verið í umr. því hefir verið kastað fram, að ég væri ómagi á Bændafl. En ég kannast ekki við það. Ég tel mig hafa verið fullkomlega matvinnung, og mun hv. 10. landsk. ekki geta dregið úr því. Ég fékk langhæsta atkvæðatölu af frambjóðendum flokksins, þó önnur kjördæmi væru stærri. T. d. hefts bændaflokksmaðurinn í Eyjafirði átt að fá undir 700 atkv. til þess að fá sama hlutfall. Ég hefi því fært flokknum drjúgan skerf og unnið vel fyrir mat mínum. Auk þess sýndi það, að ég hafði 173 persónuleg atkv., að eitthvert traust hefir verið í mer. Ég efast ekki um, að einstaka íhaldssálir í Bændafl. hafi verið á móti mér og því ekki kosið mig. En það hefir verið sagt við mig af skilagóðum mönnum, að ég mundi aldrei á þing komast, því að Eyfirðingurinn mundi hafa miklu fleiri atkv. en ég.

Hitt veit ég, að utan Árnessýslu mun ég hafa dregið atkv. að Bændafl., þar á meðal um 20 atkv. í Reykjavík. Ég hefi því verið drjúgur liðsmaður, og sannast að segja er ég lífgjafi hv. 10. landsk. Hann hefði ekki komizt á þing, hefts ég ekki verið í kjöri. Mér finnst hann illa hafa þakkað lífgjöfina.

Bæði hv. 10. landsk. og hv. 1. þm. Skagf. hafa talað um, að flokkarnir ættu landskjörnu þingmennina. (MG: Ég notaði ekki það orð). Ættu sætið. En við þurfum allir eitthvað undir okkur til að sitja á. Ég fyrir mitt leyti vil nú algerlega neita þessu, og séstaklega því, að Bændafl. eigi nokkuð í mér, því að ég á mig sjálfur. Ég vann fyrir mer. En hvað liggur nú í því, að flokkarnir eigi sætin og eigi uppbótarþingmennina? Það hlýtur að liggja í því, að þeir eigi þá alveg eins og menn eiga kýrnar sínar og nautin og hrossin og það var einmitt það, sem var gert til forna. Þrælarnir voru eign herra sinna, og þeir höfðu leyfi til að slá þá af. Þetta er það, sem þessir herrar vilja hafa; það er argasta þrælahald, eða verra en það, argasta skepnuhald.

Þá var það annar þessara hv. þm., sem ég nefndi áðan, sem sagði það, að menn væru rækir úr flokki, ef þeir skiptu um skoðun eða flokk. Mér þótti þetta dálítið skrítið Ég hélt, satt að segja, að það mundi vera það almenna, að þingmenn skiptu um flokk af því að þeir skiptu um skoðun, og að það væri eiginlega skoðunin, sem gilti. En það kemur ekki heim við það, sem hv. þm. sagði í þessu sambandi, að eina ástæðan til þess, að þm. gætu misst kjörgengi, væri, að þeir færu úr flokki. Nú er svo langt komið að ýmsir hv. þm. vilja svo vera láta, að landsk. þingmenn eigi að missa kjörgengi fyrir að skipta um skoðun. En sé slíkt réttmætt um landsk. þm., þá nær þetta líka til hinna kjördæmakjörnu.

Þá verð ég lítillega að minnast á hann „afa“ minn. Ég hefi nú í þingbyrjun minnt hann á það, að mér virðist hann ekki vel frændrækinn. Mér fannst, þegar hann byrjaði ræðu sína, að hann ætlaði að fara að taka sig á, því að hann talaði svo fagurlega í minn garð, að ég varð mestum klökkur, sem von er um gamlan mann.

En þegar fram í sótti ræðuna, fannst mér heldur fara að breytast hljóðið Mér kom það dálítið á óvart, að hann byrjaði svona fagurlega, því að sama daginn var ég kallaður flokkssvikari í Morgunblaðinu. En ég trúi, að fátt fari þar inn, sem þessi hv. þm. hefir ekki samþ. Hann lapti hér greinina, sem skrifuð var um mig í Tímanum í kosningahita. Skal ég ekki fara neitt sem heitir út í að ræða um þessa grein. En mér fannst hún ekki rétt rakin, því að ýmislegt var þar sagt vel um mig líka. Annars hefi ég ekki yfirleitt erft það við menn, þó að þeir hafi sagt ýmislegt um mig í pólitískum hita. En ég hefi farið meira eftir því, hvernig þeir hafa að öðru leyti hagað sér í sambúð við mig. Og þessi maður, sem skrifaði þessa grein, hefir sagt margt vel um mig í Tímanum og hefir gert margt vel til mín. En mér þykir rétt að geta þess, að ég hefi aldrei orðið var við, að heimastjórnarfl. né aðrir flokkar út af honum, með Sjálfstfl. síðast, hafi nokkurn tíma gert mér nokkurn skapaðan hlut til þarfa. Svo að þarna er þó nokkur munur á.

Í þessari áminnztu ræðu var hv. þm. að minnast á einkafyrirtæki, á lyfjabúð dóttur minnar. Ég a. m. k. skildi ekki grein þessa svo, að þar væri sveigt neitt að henni. Um þetta er yfirleitt það að segja, að það hefir enginn maður nefnt við mig neitt um lyfjabúð, fyrr en hv. þm. G.-K. gengur einu sinni til mín hér í salnum og spyr mig um það, hvernig mér lítist á á koma með frv. um lyfjasölu. Ég mun hafa vísað honum til form. flokksins um það. Önnur orð fóru ekki milli mín og hans um þetta, og enginn jafnaðarmaður hefir nefnt þetta við mig né framsóknarmaður. Ég hafði yfir höfuð ekki hugmynd um, að hér lægi neitt undir steini, fyrr en í Framsóknarblaði — eftir að mér var vikið úr flokknum — var verið að dylgja um það, að ég væri að færast nær stjórnarflokkunum af persónulegum hagsmunaástæðum, og sagt, að á mér væri snöggur blettur. En ekki voru Bændaflokksmenn svo hreinskilnir að segja þetta við mig, en þó var hreinskilinn sjálfstæðismaður, sem sagði mér þetta. Þá fyrst vissi ég, að þetta hafði gengið um eins og rógur í Bændafl. Ég er mjög hissa á því, að þetta skuli vera borið upp. Það er enginn fótur fyrir þessu og þetta er blátt áfram heimska.

Það er kunnugt, að Framsfl. og jafnaðarmannafl. gerðu til mín sendimenn austur á Eyrarbakka. Þeir leituðu til mín um samninga, en ég ekki til þeirra. Ég hefi aldrei vitað það, þegar menn koma til manns til að leita samninga við hann, sem þeir eru upp á komnir, að þeir byrji á hótunum, að halda slíku fram væri heimskulegt. Ég þurfti heldur ekki að taka á móti neinum hótunum. Ég hefi það fyrir satt, að hv. þm. V.-Ísf. sé enginn einokunarhestur, og bjóst ég við, að hann mundi vera á móti einokun í þessu efni, svo að málið gat ekki komizt fram í Nd., og allar hótanir um þetta hefðu orðið fyrir gíg.

Að síðustu endaði hv. þm. með því að halda hjartnæma ræðu yfir mér og minna mig á siðferðisskyldu mína. Þetta minnir mig á smásögu eftir Mark Twain, þar sem hann lætur blaðastrák leggja lífsreglur einum af höfuðprestunum í Boston, sem þykir sérlega guðhræddur bær, og gera það vitanlega á þann hátt, að úr því verða mikil öfugmæli. Menn rífast nú um það, hvernig sögur Mark Twains séu til komnar sumar. Menn segja, að hann hafi skipt um persónur við hlutverk. Ég vil nú halda, að þessi saga um blaðastrákinn og höfuðprestinn sé ekki þannig til komin. Því nú hefir það komið fram hér á þingi, að hv. þm. G.-K. hefir tekið að sér hlutverk stráksins í sögu Mark Twain's, því að hann ætlar nú að fara að kenna mér, hvernig ég eigi að lifa.

Ég viðurkenni þörf á íhaldsflokki í landinu. Ég lít svo á, að hið pólitíska líf gangi í öldum og þess vegna þurfi, a. m. k. stundum, að komast íhald að völdum. En ég er sannfærður um það, að á meðan hv. þm. G.-K. er form. þess flokks komist sá flokkur aldrei til valda í landinu, því að þessi hv. þm. er enginn foringi. Hann komst sem stjórnmálamaður út fyrir pollinn fyrir skömmu og átti þar hlut í samningagerð. Sá hlutur var ekki betur gerður en það, að allir, sem þar hafa á vit, hafa raun af haft.

Þá vil ég ekki með öllu ganga framhjá því, að þessi hv. þm. var að minnast á krossa. Mér þótti merkilegt, að hann minntist á þetta, því að ég veit ekki betur en að hann sé „af medalíumanna tægi málsfiskur í stærra lagi“. En hann fékk engan kross fyrir norsku samningana. En til þess að kross væri settur á einhvern, var settur kross á bróður hans, svo að familían hefði þó eitthvað upp úr því. En ég finn, að maðurinn er ekki búinn að ná sér eftir þessa krossapínu sína. Og vildi ég ráða honum til að nefna ekki krossa oftar.

Viðvíkjandi siðferðiskröfunum, sem minnzt hefir verið á, er það að segja, að ég lít svo á, að bændur megi alls ekki missa mig af þingi, og því sé það siðferðisleg skylda mín að vera á þingi nú. Þess vegna get ég ómögulega látið undan þessari siðferðisrollu hv. þm. G.-K., sem hann var með hér á síðasta fundi.