21.03.1935
Neðri deild: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

10. mál, jarðræktarlög

Jón Sigurðsson:

Mér kom dálítið á óvart svar hæstv. forsrh. Ég var nefnilega einn í þeirri n., sem talaði við hann um þetta mál. Ein af þeim spurningum sem við lögðum fyrir hann, var stj. hvort búnaðarþingið mætti ekki vænta þess, að hann sem landbúnaðarráðh. styddi að því og fylgdi því fram, að búnaðarþingið fengi algerlega að kjósa sína stjórn. Við skildum allir svör hans á þá leið, að hann væri þessu eindregið fylgjandi. Hafi þetta nú verið meining hans, að ljá þessu máli eindregið fylgi, þá get ég ekki séð, að það komi í bág við það, þó nú sé verið að öðru leyti að starfa að því að ákveða, hvaða mál skuli heyra undir Búnaðarfélagið og hvaða mál önnur Búnaðarfélagið skuli fá til meðferðar, sem heyra undir stj. Það er óskylt þessu máli út af fyrir sig, og þess vegna eru það aðeins undanbrögð að vilja draga málið, þangað til þessi önnur atriði eru tekin fyrir. Þetta eru sérstök mál út af fyrir sig, og ég og meðnm. mínir skildu hæstv. ráðh. svo, að hann vildi vera þessu máli hlynntur, þegar n. talaði við hann, og mundi styðja að framgangi þess án allra skilmála.