13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég var beðinn að vera meðflm. þessa frv., en ég léði ekki máls á því, m. a. af þeim ástæðum, sem hv. samflokksmenn mínir hafa tekið fram og ég tel ekki nauðsyn á að fara langt út í. En ég er sannfærður um, að þetta frv. er fram borið af eðlilegri skömmustutilfinningu hjá hæstv. fjmrh., vegna þess kostnaðar, sem leiðir af þessu bitlingafargani, sem hann hefir fært yfir á þá illa stöddu framleiðslu. Og ég veit, að þessi tilfinning sprettur af þeim eðlilegu ástæðum, að honum er ljóst, að þeir menn, sem hann hefir falið að vinna þessi störf, þeir hafa ekki reynzt þeim vanda vaxnir. Það dettur engum í hug að bera kinnroða fyrir það, þó að ríkissjóður yrði að bera 1—2 hundr. þús. kr. kostnað vegna sölu landbúnaðfar- og sjávarafurða. Það er svo mikilsvert verk og hefir svo mikla þýðingu fyrir þjóðfélagið, að enginn þarf að fela upphæð, sem til þess er varið, þó að þar væru nefnd hundruð þúsunda. Það er ekki fyrr en sá, sem á að borga þetta, vaknar til skilnings um, að þeir, sem vinna verkið, eru ekki færir um að vinna það, að hann vill fela upphæðina.

Náttúrlega er hæstv. ráðh. það ljóst, að með þessu móti er hægra að koma fyrir meiri kostnaði, eins og hv. 5. þm. Reykv. benti á, heldur en ef það hefði staðið sem sérstakur liður á ríkisreikningunum. En hann vill vinna það til, að íþyngja enn meira en orðið er framleiðslunni, til þess að fela það í bili, hversu dýrir þeir menn eru, sem illu heilli hefir verið falið að vinna þetta starf, sem svo mikið ríður á, að vel sé unnið. Skipun síra Sveinbjarnar Högnasonar í mjólkursölunefndina er hneyksli. Það er hneyksli að sækja austur í Fljótshlíð þennan ádeilufulla og óbilgjarna klerk, þó að það kunni út af fyrir sig að hafa verið þarft verk að losa söfnuðinn við hann. Það þarf ekki að eyða orðum að því, hvílíkt skaðræði það varð bæði framleiðendum og neytendum. Það hefði áreiðanlega verið betra að borga honum 100 kr. á dag fyrir að koma ekki til Rvíkur en 10 kr. fyrir að vera í Rvík.

Það má yfirleitt segja, að mjólkursölun. hafi unnið eins og vænta mætti af lítt viti bornum og eigingjörnum mönnum, til skaðræðis öllum, sem þeir áttu að vinna fyrir. Fiskimálan. hefir ekki að sama skapi haft aðstöðu til að sýna, hversu skaðleg hún kann að reynast, en það er ekki eðlilegt, að olíukaupmenn og hafnarlóðsar eigi að vinna þau verk, sem þar eru fram undan. Ég hygg, að öllum sanngjörnum mönnum beri saman um það, að sú n. muni ekki vera því vaxin að leysa af hendi það vandasama starf, sem henni er ætlað.

Ég skal minnst segja um kjötverðslagsn. Hvort sem það er nú af því, að ég þekki minnst til hennar, þá sé ég þar minnst mörk þeirrar vitfirru, sem ríkir í stjórnarháttum eða baktjaldamakki þessa þjóðfélags. Ég segi minnst um hana, af því að ég veit minnst um hennar starf.

Ég álít, að hæstv. fjmrh. hafi ekki efni á því að vera með reiging, þó að fundið sé að einhverju við hann. Það er óþarft fyrir þennan unga mann að vera með rembing í þessum málum. Það er rétt, að hann viti það, að mikill þorri manna, bæði hér í bæ og úti um landið, veit, að þessi n., sem nú á að verða kostuð af framleiðendunum, er miklu mannfleiri en hún þarf að vera og að mörgu leyti miklu verr skipuð en vera þyrfti, — öllum til mikils skaða.

Ég skal ekki gera sérstaklega að umtalsefni það hjal hans, að það standi í grg., að sjálfsagt sé að hlaupa undir bagga með þeim framleiðendum, sem geta ekki sjálfir staðið undir sér. Mér þætti gaman að fá að vita það hjá hæstv. fjmrh. eða einhverjum öðrum af þessum spekingum, sem nú láta mest á sér bera í þjóðmálunum, hvaða framleiðsla eigi sérstaklega að standa bæði undir sjálfum sér og honum, þ. e. a. s. þeim milljónum, sem hann sem fjmrh. heimtar. Ég veit ekki, hvort ég má leyfa mér að hafa þekkingu á atvinnurekstri þjóðarinnar til jafns við hann, en ef svo er, þá lítur þetta öðruvísi út frá mínu sjónarmiði. Ég lít — svo á, að hér sé því sem næst allur atvinnurekstur rekinn með halla og sé ekki útlit fyrir betri afkomu, nema síður væri. Ég vil því gjarnan heyra frá hæstv. ráðh., hvar hann álítur tiltækilegast að halla sér að, þegar við verðum að hverfa frá þeim atvinnugreinum, sem við stundum nú. Mér þætti vænt um að fá að vita um hans álit í þessu efni, eða hvort þetta er allt saman barnahjal út í loftið.

Að öðru leyti er þetta mál hvorki stærra né minna en mörg önnur frv., sem nú liggja fyrir, sem eru meira til gamans en alvöru. Ég álít, að lítið þýði að rífast um slík mál sem þessi, en ef stj. vill það endilega, þá á hún ekki að vera með uppivöðslusemi og hroka, ef komið er með hóflega gagnrýni, og þá væri ekki rétt af stjórnarandstæðingum að skorast undan að taka þátt í þessum skrípaleik, sem stj. vill nú vera að leika hér á þingi, ef það er það eina, sem hún álítur, að þingið hafi nú að gera.