26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Hv. frsm. vek að mér nokkrum orðum í síðustu ræðu sinni. Hann gekk að vísu alveg framhjá þeirri aðalástæðu minni gegn frv., að það miðaði að því að íþyngja tveim aðalatvinnuvegum þjóðarinnar. Hann gekk alveg framhjá því, að fyrir tveim mánuðum hefði verið talið nauðsynlegt, að ríkissjóður greiddi þau gjöld, sem samkv. frv. á nú að demba yfir á atvinnuvegina, enda þótt nú væru horfurnar enn þunglegri en þá. Útlit um síldarsölu er að vísu ekki mjög slæmt, en þó jafnan mjög óvíst. Um fisksöluna vita allir, hvílíkir erfiðleikar vofa þar yfir. Ef samningar við önnur ríki takast ekki því betur, er fisksalan og þar með öll afkoma þjóðarinnar í voða. Útlitið er því enn ægilegra nú en á síðasta þingi, er talið var sjálfsagt, að ríkissjóður greiddi þessi gjöld.

Þá er það kunnugt, hve lágt verð á útfluttu kjöti hefir orðið síðastl. ár, og enn lægra en árið áður, þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið og kjötuppbót. Innanlandssalan hefir að vísu verið nokkru betri en áður, en þó hafa vonir manna um hana ekki rætzt, jafnvel á beztu sölusvæðunum, svo að fjölda bænda liggur við að gefast upp.

Það er því hin fyllsta óhagsýni fyrir ríkið að íþyngja um of atvinnuvegunum, sem eru hornsteinar ríkisins til tekjuöflunar, og auk þess er það fyllsta réttlætiskrafa í þessu efni sem öðrum, að réttur og skylda fylgist að. Það hefði nú mátt vænta þess af hv. frsm., sem sífellt er að tala um eyri móti eyri, að hann viðurkenndi þetta. En hann gekk framhjá þessu eins og flestu öðru, en kom hinsvegar með ýms brigslyrði í minn garð um að ég hefði haft rangt eftir sér, t. d. það, að hann hefði sagt, að bændur hefðu ekkert vit á að „organisera“ mjólkina. Hann sagði þetta nú samt — og það með röngu. Bændur hafa sýnt það, að þeir hafa getað komið skipulagi á sölu afurða sinna og á innflutning nauðsynjavara sinna sjálfir. Voru það ekki bændur, sem stofnuðu kaupfélögin? Voru það ekki bændur, sem löguðu saltkjötssöluna og gengust fyrir freðkjötssölu til að bjarga kjötmarkaðinum? Voru það ekki bændur, sem skipulögðu mjólkursöluna í Eyjafirði — einmitt mjólkursöluna? Hv. frsm. var að vísu að tala um, að Vilhjálmur Þór væri kaupstaðarmaður. En voru það ekki bændur, sem völdu hann, og er hann ekki þeirra starfsmaður? Sýnir ekki val hans, að bændur kunna að velja sér starfsmenn og fulltrúa? Og verður annað sagt en að Búnaðarfélaginu hafi tekizt sæmilega í starfsemi sinni? Þessar aðdróttanir hv. frsm. til bænda falla því ómerkar fyrir dómi reynslunnar.

Hæstv. forsrh. þarf ég ekki mörgu að svara. Honum tókst ekki að andmæla neinu af því, sem ég hafði sagt. Hann gat ekki hrakið það, að framleiðendurnir myndu spara, ef þeir réðu sjálfir sölu afurða sinna, t. d. með því að fækka í nefndum. Hann reyndi ekki að hnekkja því, að fyrir tveim mánuðum hefði stj. fallizt á, að útgjöld við nefndirnar skyldu greiðast úr ríkissjóði. Hann gat ekki andmælt því, að greiðslur framleiðenda í þessu skyni ættu að vera í hlutfalli við tilnefningarrétt þeirra í nefndirnar. Hann svaraði því ekki heldur beint, að réttur og skylda ættu að fylgjast að. Í stað þess fór hann að hugsa og tala í persónum, og tala um séra Sveinbjörn Högnason, Árna Eylands og Hannes dýralækni. Ég hefi enga löngun til að fara að ræða málið á þeim grundvelli, en verð þó að láta í ljós, að ég tel vafasamt, að bændur hefðu einmitt valið þessa menn, hefðu þeir mátt ráða sjálfir, og ég dreg það í vafa, að framleiðendur endurkjósi formann mjólkursölunnar, er þeir fá hana í sínar hendur, þrátt fyrir þá reynslu, sem af honum er fengin.

Hingað til hafa hvorki bændur né fiskframleiðendar haft rétt til að kjósa meiri hl. nefnda þeirra, sem fara með afurðasöluna. Það er því býsna fráleitt, að þessir framleiðendur séu látnir einir gjalda kostnað af þeim nefndum, sem þeir eru ekki raðandi í sjálfir. Enn fráleitara er þó jafnvel, að ríkissjóður skorist undan að greiða kostnað við síldarútvegsnefnd, sem Sþ. kýs 3 menn í af 5, en síldarútvegsmenn aðeins 1.

Það er annars ekki ófróðlegt að kynna sér, hvernig nefndir þessar eru skipaðar. Kjötverðlagsn. er skipuð framleiðendum að 2/5, fiskimálanefnd að 3/7 síldarútvegsnefnd að 1/5, mjólkursölunefnd að 3/7 og mjólkurverðlagsnefnd að 2/5.

Meðan þessum málum er svo skipað, eiga framleiðendur ekki að greiða kostnað af nefndunum. Öðru máli væri að gegna, ef fyrirkomulagið væri hið sama og í Noregi, þar sem framleiðendur eiga alla fulltrúana.