02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Sigurður Einarsson:

Ég var einn af flm. þessa frv. á síðasta þingi, og vil því lýsa ánægju minni yfir því, að það skuli enn vera fram komið, og mæla hið bezta með því, að það verði samþ. Enda vona ég, að því sé engin hætta búin nú. Hv. þm. V.-Húnv. var samt eitthvað að hlakka yfir því, að það mundi verða fellt hér í hv. þd., eins og á síðasta þingi. En hv. þm. má vita, að það var fyrir einskæra tilviljun, en ekki af því, að frv. hefði ekki nægilegt fylgi í þd. Þá var hv. þm. V.-Húnv. að tala um, að hann sæi ekki, að það væru færð nein rök fyrir því, að nauðsyn væri að stofna til ríkisrekstrar fyrir þessa atvinnugrein. En þetta er ekkert nýstárlegt. Þessari hv. þd. er það vel kunnugt, að hinum hv. þm. V.-Húnv. er ekki gefin sú greind að skynja rök fyrir málum yfirleitt, og þess vegna er ekki um neitt sérstakt að ræða að því er þetta frv. snertir, þó hv. þm. sjái ekki rökin.

Rökin fyrir þessu frv. eru í stuttu máli þau, að með öruggri stjórn og undir eftirliti kunnáttumanns á að vera unnt að tryggja það, að eigi verði flutt inn í landið nema hæfilega mikið af trjáplöntum, og jafnframt að þær séu raunverulega góð vara, svo að ekki geti stafað af þeim sjúkdómshætta fyrir innlendar jurtir. Og í öðru lagi er ætlazt til þess, að innflutningur og sala á erlendum trjáplöntum hér á landi geti veitt skógræktinni nokkurn fjárhagslegan stuðning. Í því efni hefir lítið verið gert á undanförnum árum, en þó hefir talsvert fé farið þar í súginn. Alþingi og ríkisstj. hafa yfirleitt sýnt ófyrirgefanlegt tómlæti í skógræktarmálunum. Þeir menn eru fjölmargir, sem vona það og álíta, að hægt sé að gera miklu meira fyrir skógræktina í landinu, ef fé fengist til þess, m. a. á þennan hátt, sem frv. gerir ráð fyrir.

Þetta frv. er flutt af einlægum áhuga fyrir skógræktinni í landinn og fullri vissu um, að það komi henni að talsverðum notum. Þess vegna er hv. þm. V.-Húnv. á móti því. Það er segin saga, að ef eitthvað á að framkvæma, sem horfir til velfarnaðar fósturjörðunni, þá sér þessi hv. þm. V.-Húnv. hinar og aðrar grýlur á veginum, sem hann þykist endilega þurfa að hamast að. Það virðast vera álög á manninum að sporna jafnan við nytjamálum.