02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það vantaði svo sem ekki rökin hjá hv. 9. landsk. Fyrst á það að vera tryggt, að kunnáttumaður fari með þessi mál. Hvílíkt feikna tjón, að Sigurður búnaðarmálastj. skuli hafa farið með þau undanfarið! Ég hefði kunnað betur við, að hv. þm. hefði fært rök fyrir því, að þessi dómur hans um Sigurð væri réttur.

Þá er það hinn fjárhagslegi stuðningur, sem af þessu á að leiða. Ég sé nú ekki, hver hann ætti að verða, ef reyna á að draga sem mest niður verðið á plöntunum; hann verður þá ekki meiri en hægt hefir verið að fá, eins og bent er á í grg. frv., að Skógræktarfélag Íslands hefir getað útvegað þessar plöntur með vægu verði. Og það eru engin rök í þessu sambandi, að fluttar hafi verið inn trjáplöntur svo nokkru nemi, sem ekki hafa getað þrifizt hér á landi, og þar af leiðandi mikið farið í súginn. Fyrir þessu liggja engar líkur, hvað þá heldur sannanir. Þess er getið í grg. frv., að innflutningur þessara trjáplantna hafi numið 10–16 þús. kr. á undanförnum árum. Ég veit, að þetta er alrangt. Mikill meiri hlutinn af þeim innflutningi, sem færður er á þennan lið, kemur ekkert trjáplöntum við. Ég efast um, að sá innflutningur hafi numið meira en 3 þús. kr., en um það get ég aflað mér upplýsinga fyrir 3. umr.

Þá er bent á það í grg. frv., að það sé neyðarúrræði að þurfa að kaupa þessar trjáplöntur frá útlöndum, og mér skilst, að það eigi algerlega að útiloka, en til þess þurfi að setja upp einkasölu. Hvers vegna er þá ekki hægt að takmarka innflutninginn með innflutningsráðstöfunum í sambandi við álit Skógræktarfél.? Ekkert er auðveldara en það. Það þarf ekki að fara að stilla upp einkasölu með nýjum forstjóra o. s. frv. Ef þessi innflutningur væri bráðnauðsynlegur og væri eins mikill eins og hv. flm. gefa í skyn, þá gæti komið til álita að reyna að ná hagnaðinum af þessari vörutegund og verja til styrktar skógræktinni. En ég fullyrði, að það er ekki hægt að ná neinum hagnaði af þessari verzlun, svo nokkru nemi. Það eina, sem þetta kann að hafa í för með sér, er, að verzlunin fer úr höndum Sigurðar búnaðarmálastjóra, en það vil ég segja, að sé ekki mikil breyt. til bóta. Og það er ekkert á móti því, þó gerðar séu tilraunir með ræktun ýmsra trjáplantna, jafnvel þó þær komi ekki allar að notum. Það er þá a. m. k. fengin raunhæf reynsla fyrir því, hvort þær geta þrifizt eða ekki.

Ég get ekki séð, að það, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði um málið, sé þess eðlis, að nokkur ástæða sé til þess að styðja að framgangi þess. Þvert á móti er ýmislegt af því, sem segir í grg. frv., í þá átt, að hægt sé að ná hinum lítilfjörlega tilgangi frv. á miklu einfaldari hátt. — Það, að ég sagði, að hv. þm. A.-Húnv. væri til lítils sóma að hafa flutt þetta mál og að hann mundi klæja eftir sambúðina við sósíalista, var ekki sagt út frá því, að mér fyndist óeðlilegt, að hann hefði brotizt undan veldi sinna flokksmanna. Ég álít, að hann hafi fullan rétt til þess, en hann hefir engan rétt til þess að ganga inn á braut sósíalista án þess að honum sé bent á, að hann sé að vinna óþurftarverk með því að stuðla að því, að einstaklingsframtakið sé tekið af mönnum án þess að nokkur eðlileg ástæða sé til þess. Og þegar honum hefir verið bent á, að hér sé engin ástæða fyrir hendi, þá er það þeim mun ófyrirgefanlegra af honum að ganga inn á slíka braut sem þessa. Honum er það vitanlega í sjálfsvald sett; ég er ekki að dæma hann.

Ég vona, að hv. þd. verði samkvæm gerðum sínum í fyrra og láti þetta mál ekki fá meiri meðferð heldur en þá og felli það við þessa umr., svo það þurfi ekki að tefja hið stórvirka Alþ., sem nú situr.