02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Pétur Ottesen:

Það er mikil gleðin hjá hv. landsk. yfir því, hvernig einkasölur og einokanir hafa siglt hér hraðbyri að undanförnu. Það er ekkert undarlegt, þó hann gleðjist yfir slíku, því að það er eitt af þeim stefnuskáratriðum, sem hans flokkur byggist upp á, og svo bað, að sá flokkur hefir fært nokkuð út kvíarnar, þar sem hann hefir lagt undir sig annan flokk og er því „hæst ráðandi til lands og sjós“ eins og Jörundur sálugi hundadagakóngur orðaði það forðum daga. Þess vegna þarf hann ekki annað en að standa upp og segja, að þessi og þessi einokun skuli ganga fram, og þá vita liðsmennirnir, þ. e. framsóknarmenn, hvað þeir eiga að gera. Það er ekkert undarlegt, þó hv. 9. landsk. finni nokkuð til sín og sé glaður og þyki sinn vegur nokkuð mikill, þegar þessi miklu völd eru lögð í hendur þess flokks, sem hann skipar nú, — það er sagt, að hann hafi skipað þá marga eða flesta að undanförnu, hvernig sem það kann að verða eftirleiðis.

Það er kannske ekki mikið um það að sakast þó þetta mál taki upp dálítinn tíma, af því það virðist svo, sem verkefnin hafi ekki verið mikil á þessu þingi.

Ég vil aðeins benda á það, af því að meðhaldsmenn þessa frv. hafa verið að tala um ósamræmið hjá hv. þm. V.-Húnv., sem hefir andmælt þessu frv. að ósamræmið er sízt minna hjá þeim sjálfum. Því hver segja þeir, að sé tilgangur frv.? Sá, að smáminnka innflutning á trjáplöntum, þangað til hann er orðinn að engu, til þess að afla skógræktinni tekna. Þetta er undirstaðan undir þessu frv. og það, sem hv. 2. þm. N.-M. lagði svo rækilega áherzlu á og gat ekki skilið, að nokkur gæti verið á móti. Ég ætla þó, að öðrum, ef þess er ekki ætlandi af þeim sjálfum, sé það ljóst, að í þessu felst áberandi ósamræmi. Annars koma náttúrlega sömu rökin fram hjá sósíalistum nú eins og venja er, þegar um einkasölur er að ræða, að það megi fá bæði ódýrari og betri vörur, þó að reynslan sýni alltaf það gagnstæða. Þau rök eru líka sameiginleg í öllum þeirra málaflutningi fyrir einkasölum, að með því eigi að sækja ríkinu til handa svo og svo miklar tekjur. Það er eins og það séu ekki tekjur fyrir ríkissjóð að geta byggt upp öfluga verzlunarstétt í þessu landi. Það er eins og þær tekjur, sem samvinnufélög, kaupfélög og kaupmenn hafa af sínum verzlunarrekstri, séu ekki tekjur fyrir ríkið. M. ö. o., að það sé enginn þjóðarvinningur að byggja upp þjóðfélag með framtaki einstaklingsins, en þegar þessir einstaklingar eru orðnir verkamenn ríkisins, sem það velur til þess að standa fyrir atvinnu- og verzlunarfyrirtækjum, þá sé það fyrst, sem hægt sé að vænta einhverra tekna fyrir ríkissjóð.

Mér þykir það mjög leiðinlegt, að hv. þm. A.-Húnv. skuli hafa leiðzt til að vera meðflm. þessa frv., í stað þess að mótmæla kröftuglega eins og hans eðli liggur til, slíkum firrum og fjarstæðum, sem felast í þessum höfuðröksemdum sósíalista fyrir einokun í verzlun og þjóðnýtingu atvinnuveganna. Og þó hv. þm. telji sig út á yzta útskækli einkasölunnar, þá hefði ég heldur kosið honum þann kostinn, að hann hefði staðið fyrir utan skækilinn heldur en að hafa orðið til þess að skríða upp á hann og láta sósíalista hælast af því, að hann sé aðalflm. þessa frv.

Ég held, að hv. þm. V.-Húnv. sé nú dauður, eins og við köllum það hér, og vil ég því taka það fram, að ég held, að það sé mesti útúrsnúningur, þegar orðum hans um það, að Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri hefði haft með höndum nokkra verzlun með trjáplöntur, er snúið svo, að verið væri að svipta hann tekjum. Það, sem hv. þm. meinti, var það, að Sigurður er mikill kunnáttumaður á þessu sviði, og því engu síður frá því sjónarmiði trúandi til að hafa með höndum þennan innflutning heldur en skógræktarstjóra, sem þó vitanlega er einnig vel til þess fær. Jafnframt má benda á, að einn aðalinnflytjandi trjáplantna að undanförnu hefir verið Einar Helgason garðræktarfræðingur. Frá þessu sjónarmiði er því ekki breytt neitt um til bóta með því að taka þennan innflutningur höndum þessara manna og fá hann skógræktarstjóra í hendur, með fullri virðingu fyrir þekkingu hans á þessu sviði.

Ég ætla, að innflutningur trjáplantna sé aðallega á höndum þessara manna, er ég hefi nefnt. Það má vera, að Ólafur Jónsson forstjóri Ræktunarfélags Norðurlands hafi einhvern slíkan innflutning með höndum, og e. t. v. fleiri, en yfirleitt eru það ekki aðrir en þeir, sem fást við trjárækt og hafa allmikla þekkingu á þessu sviði. Þetta mál mun því vera í góðu horfi, svo ekki þarf þess vegna að búa til nýja einkasölu, og er því síður ástæða til þess, þar sem allir eru sammála um, að bezt sé að nota innlent fræ og innlendar plöntur til eflingar skógræktinni hér á landi.

Ég get tekið undir það, að Alþingi og ríkisstj. hafi sýnt of mikið tómlæti að undanförnu í skógræktarmálunum, en það mun eiga rót sína að rekja til annara hluta, sem ég kæri mig ekki um að ræða hér. Nú hefir framkvæmd þeirra mála tekið nokkrum breytingum, svo eftir því, sem bolmagn ríkisins kann að reynast eftirleiðis til þess að veita þessum og öðrum nauðsynjamálum almennan stuðning, efast ég ekki um, að það verði gert. Frá þessu sjónarmiði virðist því ekki heldur hægt að álykta, að þessu máli verði betur hrundið áfram með því að fara inn á einkasölubrautina, þessa leiðu og hvimleiðu braut, sem einungis hefir leitt til ófarnaðar, þar sem hún hefir náð þeirri fótfestu að hafa áhrif á afkomu þjóðfélagsins.