18.03.1936
Neðri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Pétur Ottesen:

Mér dettur ekki í hug að taka alvarlega umvandanir hv. 2. þm. N.-M. Eins og það megi ekki á hverju stigi máls leiðrétta lélega framsetningu á málum n., og ef vart verður, að í einhverju hafi yfirsézt, þá að færa það til betri vegar. Og ég vil segja, að það situr af öllum hv. þm. verst á hv. þm. N.-M. að vera með slíkar umvandanir sem þessar, af því að það er ekki til nokkur maður á þessu þingi, sem skrifar jafnálappalegt mál og hann. Maður þarf við allar umr. að vera að leiðrétta það, sem runnið er frá honum. Hann hefir samið þetta frv. Og það stendur ekki steinn yfir steini í því af því, sem þessi hv. þm. lét frá sér fara, ekki ein einasta gr., sem ekki hefir verið umturnað, bæði um orðalag og aðra framsetningu. Eins og frv. kom frá þessum hv. þm. var orðalagið og önnur framsetning á því slík misþyrming á íslenzku máli, að ósæmilegt hefði verið fyrir hæstv. Alþingi að láta slíkt frá sér fara.

Nei, þessar umvandanir hv. 2. þm. N.-M. tekur enginn alvarlega. Hann ætti sjálfur að gæta sín betur í þessu efni, áður en hann fer að senda skeyti til annara. Hann ætti að minnast þess, að sá, sem býr í glerhúsi, ætti ekki að vera að kasta grjóti í garð annara. — Hv. 2. þm. N.-M. kvað það ósæmilegt af okkur flm. brtt. á þskj. 173, hv. þm. Mýr. og mér, að bera fram þá brtt., sem er um grundvöllinn fyrir því, hvernig stofna skuli til samþykkta um fóðurtryggingarsjóði. Hvað er ósæmilegt í því að vilja byggja þessar samþykktir á grundvelli, sem er í samræmi við gildandi löggjöf? Það er ekkert annað, sem við förum fram á, heldur en að það sé meiri hl. þeirra manna, sem taka þátt í atkvgr., sem sker úr um það, hvort frv. sýslun. er samþ. eða ekki. En með þeirri aðferð, sem hv. 2. þm. N.-M. vill hafa við atkvgr. um þessar samþykktir, getur það hæglega komið fyrir, að vilji þeirra manna, sem greitt hafa meiri hl. atkvæða, verði ofurliði borinn með atkv. fámennra hreppa, eða m. ö. o. af minni hl. þeirra, sem atkv. hafa greitt samanlagt í öllum hreppum sýslunnar, sem atkv. hafa greitt.

Viðvíkjandi 2. brtt. okkar vil ég taka það fram, að ég hreyfði því fullkomlega, og ég held að hv. þm. Mýr. hafi tekið undir það með mér í n., að þessi hali á 3. mgr. 4. gr. brtt. á þskj. 151: „Gildir hún þá fyrir alla þá, sem í viðkomandi sýslu búa (sbr. þó 5. gr.)“ félli burt. (Í frv. eins og það kom frá hv. 2. þm. N.-M stóð þarna „Gildir hún þá upp frá því“, eins og hún væri óbreytanleg!) við litum svo á, að þessi hali væri óþarfur, þar sem það yrði að sjálfsögðu tekið fram í hverri sýslusamþykki, fyrir hve marga hreppa í sýslunni hún gilti.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði um 4. brtt. okkar hv. þm. Mýr., vil ég benda á, að þar fer hv. þm. ekki allskostar rétt með, því að við hv. þm. Mýr. vorum með skrifl. brtt. í n., sem við lögðum þar fram, við 12. gr. frv., þó að hitt yrði ofan á í n., að hafa þessa gr. eins og lagt er til í frv. Í 12. gr. frv. er lagt til, að sýslufélögum séu settar þær skorður að verða að fara eftir fyrirmynd landbrh. um samþykktir fyrir fóðurtryggingarsjóði sýslufélaganna. En eftir till. okkar eiga sýslufélögin að hafa þær fyrirmyndir til hliðsjónar. M. ö. o., þessar fyrirmyndir eiga eftir okkar till. að vera til leiðbeiningar.

Jæja. Þarna kemur þá hv. þm. Mýr. Hann hefir farið mikils á mis að heyra ekki hina föðurlegu umvöndun hv. 2. þm. N.-M., sem við höfum fengið út af þessari saklausu brtt. (BÁ: Ég vona, að hv. þm. beri blak of okkur). Ég hefi reynt það, hversu svo sem það hefir tekizt. Við vorum víttir fyrir það, að við vildum byggju á gildandi löggjöf, og allt eftir þessu!

Af því að hv. 2. þm. N.-M. var að tala um slæm vinnubrögð í meðferð mála og framsetningu á lagagr. og frv., þá skal ég aðeins benda á einn lítinn ávöxt af hans heilastarfsemi. Í brtt., sem hann flytur við brtt. á þskj. nr. 151 og útbýtt var á fundinum, stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Ennfremur má sýslunefnd ákveða í samþykkt, að ákveðinn hluti af fóðurforðanum skuli geymast í fóðurbætistegundum — Í fóðurbætistegundum! Þetta á að geyma í fóðurbætistegundum; það á að láta fóðurforðann, ja, líklega í fóðurbætistegundirnar eins og kyrnu, svo að ég noti gamalt íslenzkt orð, og grautast þá náttúrlega saman síldarmjöl og rúgmjöl og haframjöl o. s. frv.

Það má líka benda á annað, sem nokkuð sýnir óskýra hugsun hjá flm. þessarar brtt., sem sýnir, að þessum hv. þm. ferst ekki að vera að vanda um við aðra út af frágangi á þskj. Það stendur hér í sömu brtt., með leyfi hæstv. forseta: „að verja megi ákveðnum hluta af vöxtum sjóðsins til að greiða vaxtatap verzlana, ef samið er við þær að geyma matvöruforðann“, eins og ætti að borga allt vaxatap, sem verzlanirnar verða að greiða vegna allra sinna viðskipta, bara af því að samið er við þær um að geyma einhvern matvöruforða. Þetta orðalag má teygja eins og hrátt skinn og fá út úr því hina ólíklegustu hluti.

Ef umvandanir hv. 2. þm. N.-M. eru ekki eintóm hræsni og skinhelgi, þá eru þær árásir á menn, sem vilja reyna að ganga svo vel frá þessu máli eins og svo góðu málefni er samboðið. Og satt að segja ætti hv. 2. þm. N.-M. að leggja niður allar slíkar umvandanir hér í hv. d. gagnvart öðrum mönnum og í stað þess heldur vanda um við sjálfan sig.