04.05.1936
Efri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Þorsteinn Briem:

Ég hafði getið þess í n., að ég mundi flytja brtt. við þetta frv. til viðauka við þær brtt., sem fram eru komnar nú þegar. Þær brtt. liggja ekki fyrir frá mér nú, en ég mun að líkindum flytja þær við 3. umr.

Aðalbrtt. mundi verða við 17. gr. Ég lít svo á, að það sé ekki ástæða til að fyrirskipa hlutfallskosningar í hverjum hreppi, þó að 3/10 kjósenda kunni að óska þess. Ég lít svo á, að til þess þurfi fleiri menn, með því að slíkum kosningum fylgir oft óþarfa kapp og jafnvel æsingar, og að það sé betra, meðan ekki hleypur kapp í kosningarnar, að þær séu á þann hátt, sem verið hefir.

Þá hefi ég hugsað mér að gera aths. við það ákvæði frv., að vera skuli varamenn í hreppsnefnd, jafnt hvort sem fram hafa farið hlutfallskosningar eða ekki. Það er að vísu sjálfsagt og samkv. venju, sem hingað til hefir gilt, að varamenn séu kosnir, þegar hlutfallskosningar eru viðhafðar. En ef hlutfallskosning fer ekki fram, svo sem gert er ráð fyrir í frv. að geti verið, þá tel ég ekki ástæðu til þess að kjósa sérstaka varamenn. Kemur þetta raunar fram í frv. sjálfu, að þeim, sem að því hafa staðið, hefir fundizt, að þar væru nokkrir agnúar á því fyrirkomulagi að kjósa varamenn. Verð ég að telja það óheppilegt, eins og gengið er frá því í 27. gr. frv. Þar er ætlazt til, að aðalmennirnir séu kosnir fyrst, og síðan, þegar þeirri kosningu er lokið, sé byrjað á því að kjósa varamenn.

Nú má gera ráð fyrir því, ef að vanda lætur með kosningar, að kosning aðalmanna geti tekið allmikinn hluta dags, og þar sem kosning byrjar ekki í sveitum fyrr en á hádegi, má búast við því, að dagurinn verði þegar að kveldi liðinn, þegar kosning varamanna byrjar, og er þá hending, hverjir eru viðstaddir og hverjir komast í þessar „vegtyllur“ að heita varamenn í hreppsnefnd.

Ég verð því að telja, að það sé allt eins rétt að hafa ákvæði í þá átt, að það sé ekki skylt að kjósa varamenn í hreppsnefnd, þar sem kosningar eru óhlutbundnar.

Í 31. gr. frv. er ákvæði um það, að sáttanefndarmenn, skólanefndir og allir starfsmenn kaupstaða og hreppa, sem kosnir eru almennum kosningum, skuli hér eftir kosnir af bæjarstjórnum og hreppsnefndum. Ég hygg, að þessi gr. þurfi nokkuð nánari athugunar við, og vil ég vænta þess, að þetta verði athugað nánar í n. til 3. umr.

Hér liggur fyrir þessari hv. d. frv. til l. um barnafræðslu, þar sem gert er ráð fyrir, að skólanefndarmenn séu kosnir á annan veg en hér er um að ræða. En ef bæði þessi frv. verða afgr. sem lög frá d. samtímis með gagnstæðum ákvæðum um kosningu skólanefndarmanna, er ekki hægt að segja, að fari vel á því. Auk þess er orðalagið allvíðtækt, og hygg ég, að það séu leifar frá því, er frv. var í þeirri mynd, að gert var ráð fyrir, að sýslunefndarmenn væru kosnir af hreppsnefndum, því að eins og gr. er orðuð, virðist hún geta átt við sýslunefndarmenn einnig, en hér er að vísu í frv. sérstakt ákvæði um kosningu þeirra. Það fer a. m. k. ekki vel á þessu orðalagi, og teldi ég æskilegt, að n. athugaði það til 3. umr.

Eins og ég sagði, hefi ég ekki við þessa umr. ætlað mér að flytja brtt., en ég áskil mér rétt til þess að koma með þær við 3. umr.